Stjórnarfundir – 13. fundur 2000/2001
07.06.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Þrettándi fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn í Bændahöllinni fimmtudaginn 7. júní 2001 og hófst hann klukkan 11:00. Mætt voru: Þórólfur Sveinsson, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:
1. Verðlagsmál
A. Formaður kynnti stöðu verðlagsmála, en þegar liggur fyrir hækkunarþörf upp á hátt í 6% samkvæmt verðlagsgrundvallarlíkaninu. Í ljósi hækkandi verðlags og verðbólgu má einnig gera ráð fyrir enn meiri hækkunarþörf á þessu ári. Ákveðið að óska eftir endurskoðun á verði mjólkur 1. september.
B. Rætt um hvað við taki þegar opinberri verðlagnigu lýkur á heildsölustiginu.
2. Stuðningur Framleiðnisjóðs við Kennslu- og rannsóknarfjós á Hvanneyri
Formaður kynnti erindi frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, en LBH hefur sótt um 25 milljónir í framlag vegna fjóss á Hvanneyri. Teikningar voru kynntar og rætt um þá stöðu sem kennsla og rannsóknir í nautgriparækt er í dag. Fram kom að Rannís-skýrslan sk. mun taka á þessum atriðum, en því miður enn bið eftir þeirri skýrslu. Þrátt fyrir vöntun á skýrslunni, er ljóst að brýn þörf er á nýju fjósi á Hvanneyri og í ljósi fyrri ályktana LK frá aðal- og stjórnarfundum var samþykkt að mæla með stuðningi Framleiðnisjóðs við verkefnið. Þá var ennfremur samþykkt að vísa til samþykktar stjórnar LK, frá 20.10 1999 og var framkvæmdastjóra falið að afla upplýsinga fyrir næsta stjórnarfund, um stöðu þeirra mála sem fjallað er um í umræddri samþykkt.
3. Framkvæmdanefnd búvörusamninga
Formaður kynnti niðurstöðu síðasta fundar framkvæmdanefndar, en þar var ákveðið að leggja til að greiðslumark næsta verðlagsárs verði 104 milljónir lítra. Þá var einnig samþykkt að fylgja tillögum stjórnar LK frá síðasta stjórnarfundi um breytta tilhögun C-greiðslna.
4. Innflutningsvernd nautgripaafurða
Framkvæmdastjóri kynnti nýafstaðinn fund hans og formanns með forsvarsmönnum SAM og Ólafi Friðrikssyni frá Landbúnaðarráðuneyti, þar sem rætt var um innflutningsvernd matvæla. Lögð voru fram gögn í málinu, en málið ekki frekar rætt.
5. Reglugerð um skyldumerkingar nautgripa
Farið var yfir drög að reglugerð sem kom til umsagnar LK fyrr í mánuðinum. Lagðar voru til fjölmargar breytingar í umsögn stjórnar LK, allar í þá átt að einfalda reglugerðina og gera hana skilvirkari.
6. Reglugerð um aðbúnað nautgripa
Einnig var farið yfir drög að reglugerð um aðbúnað nautgripa, sem kom til umsagnar LK fyrr í mánuðinum. Lagðar voru til fjölmargar breytingar í umsögn stjórnar LK. Áhersla var ennfremur lögð á það að reglugerðir séu ekki stefnumarkandi fyrir búgreinina, heldur skapi framkvæmdalegan grunn gagnvart viðkomandi efni sem verið sé að fjalla um í viðeigandi reglugerð.
7. NRF-málið
Formaður fór yfir stöðu verkefnisins og með hvaða hætti rétt sé að standa að framhaldi málsins. Rætt var um lögfræðilega stöðu umsækjenda, ef aðrir eru en LK og BÍ, kosningafyrirkomulag og vinnu tilraunanefndar. Lögfræðileg staða málsins er í skoðun. Samþykkt var að beina því til aðalfundar að notast við sama fyrirkomulag og var viðhaft um Mjólkursamninginn 1998.
Framkvæmdastjóri kynnti vinnu tilraunanefndarinnar, en tilraunaskipulag mun liggja fyrir um 20. júní nk. Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir, enda ekki mögulegt að gera kostnaðaráætlun fyrr en tilraunaskipulag er tilbúið.
Rætt var ennfremur um kynningu verkefnisins og hvenær hefja eigi hana. Ljóst er að aðalfundur mun ákveða nánar um þetta, en ýmsar skoðanir voru viðraðar. Samþykkt var að fá á næsta stjórnarfund LK forsvarsmenn bæði félagsins Búkollu (sem hefur staðið gegn innflutningi á NRF) og félagsins NRFÍ (sem hefur verið fylgjandi innflutningi á NRF) til að ná sátt um skipulag kynningar á verkefninu. Þá var rætt um hugsanlega tímasetningu kosningar, en horft er til síðari hluta október.
8. Nautakjötsmál
Stjórnin ræddi þá alvarlegu stöðu sem uppi er í nautakjötsframleiðslunni í kjölfar lækkaðs verðs en vaxandi tilkostnaðar hjá framleiðendum. Ákveðið að leita samstarfs við Landbúnaðarráðuneyti og sláturleyfishafa um úttekt á stöðunni.
9. Gæðastýring í nautgriparækt
Formaður kynnti nýlegan fund sem haldinn var á vegum LK. Línur eru að skýrast um verkefnið.
10. Breytingar á samþykktum LK
Formaður ræddi hugmyndir um breytingar á samþykktum LK. Fyrirséð er að fulltrúum á aðalfundi muni fækka verulega á komandi árum vegna fækkunar kúabænda á landinu. Ákveðið var að formaður og framkvæmdastjóri geri tillögur að nýju skipulagi við val á fulltrúum fyrir næsta stjórnarfund.
11. Reikningar fyrir árið 2000
Framkvæmdastjóri kynnti drög að reikningum félagsins. Skv. þeim er afkoma síðasta árs viðunandi.
12. Aðalfundur LK árið 2001
Rætt var um skipulagningu aðalfundar, framsögumenn og fleiri atriði. Þema fundarins mun verða Rannís-skýrslan, sem og byrjun á stefnumótunarvinnu fyrir greinina.
13. Innsend erindi og bréf
- Bréf frá Þórarni Eggertssyni um nautakjötsmál.
Erindið rætt og ákveðið að vísa í lið 8 hér að ofan og þá vinnu sem er framundan fram að aðalfundi LK í ágúst nk.
- Bréf frá Búnaðarsambandi Suðurlands um nautakjötsmál.
Erindið rætt og ákveðið að vísa í lið 8 hér að ofan og þá vinnu sem er framundan fram að aðalfundi LK í ágúst nk.
- Bréf frá Félagi Þingeyskra Kúabænda um verðþróun kvóta og nýliðun í greininni.
Mikil umræða varð um málið, m.a. hugsanlega leigu á greiðslumarki. Umræðu síðan frestað.
· Bréf frá Búnaðarsambandi Strandamanna um félagsstarf bænda, þar sem lögð er áhersla á að aðilar sem vinna að félagsmálum bænda starfi saman sem ein heild. Stjórn LK tekur undir þau atriði sem fram koma í umræddu bréfi.
- Bréf frá Ólöfu Hallgrímssdóttur um almannatengsl bænda og neytenda í sk. sýningarfjósum. Ákveðið var að fela Kristínu Lindu að vinna að tillögum um málið.
14. Önnur mál
Verðlagsnefnd.
Fyrir fundinum lá að tilnefna fulltrúa LK í verðlagsnefnd og var ákveðið að tilnefna Þórólf Sveinsson og Birgi L. Ingþórsson til vara.
Tölvumál bænda.
Rætt um tölvumál bænda og þjónstu við þá. Ákveðið að setja kraft í þetta starf og auðvelda kúabændum aðgengi að félagslegum upplýsingum á veraldarvefnum.
Grænland og sauðnaut.
Fjallað var um hugsanlegan innflutning á hreindýra- og sauðnautakjöti til landsins frá Grænlandi. Fundarmenn veltu fyrir sér hvort nota megi tækifæri sem hugsanlega skapast í þessum milliríkjaviðskiptum til að flytja mjólkurvörur og nautakjöt á Grænlandsmarkað. Framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir.
USA og nautgripaafurðir.
Framkvæmdastjóri greindi frá heimsókn nokkurra bandaríkjamanna til landsins nýverið, en þeim var kynnt mjólkur og nautakjötsframleiðsla hérlendis ásamt fleiri landbúnaðar og iðnaðarvörum. Gert er ráð fyrir að frumathuganir á hugsanlegri hagkvæmni og möguleikum útflutnings nautgripaafurða á bandaríkjamarkað verði framkvæmdar á hausti komanda.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 19:15
Næsti fundur verður haldinn 1. ágúst nk.
Snorri Sigurðsson