Beint í efni

Stjórnarfundir – 11. fundur 2000/2001

11.04.2001

 

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Ellefti fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn miðvikudaginn 11. apríl 2001 og hófst hann klukkan 10:30. Mætt voru Þórólfur Sveinsson, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð. Undir öðrum lið mættu á fundinn Hjörtur Hjartarson, Pétur Diðriksson og Jón Viðar Jónmundsson, en þeir eru fulltrúar bænda í Rannís-nefndinni svokölluðu.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:

 

1. Niðurstöður búnaðarþings 2001

Formaður fór yfir þær ályktanir búnaðarþings sem snerta búgreinina og hvaða atriði þurfi að skoða sérstaklega.

 

– NRF

Rætt var um næstu skref málsins, en þegar er hafin vinna tilraunanefndarinnar og mun hún skila tilraunaskipulagi fyrir júníbyrjun. Þá var rætt um fyrirkomulag væntanlegra kosninga um NRF-málið og kynningu þess. Fundarmenn töldu rétt að skoða leið þar sem greiðslumarksskrá væri grundvöllurinn. Ákveðið var að taka málið upp með BÍ.

Varðandi kynningu málsins og tímasetningu kosningar, voru fundarmenn sammála um að kjósa þyrfti sem allra fyrst eftir aðalfund LK. Þá töldu fundarmenn að vænlegast til kynningar málinu væri að fá sérstaka umfjöllun um málið í sérkálfi Bændablaðsins.

            Rætt var um lögfræðilega stöðu ræktunarfélags, en fram hefur komið að einstakir bændur hyggjast stofna sérstakt ræktunarfélag. Fundarmenn voru því sammála að nauðsynlegt væri að afla upplýsinga fyrir verðandi kjósendur um möguleika á innflutningi erfðaefnis einstakra aðila. Ákveðið var að taka málið upp með fulltrúum BÍ.

            Þá var fjallað um það hvort mjólkursamlag geti útilokað mjólkurframleiðendur frá viðskiptum vegna þess kúakyns sem hann notar í framtíðinni. Fundarmenn voru því sammála að ekki væri ástæða til að taka málið sérstaklega upp, þar sem ólíklegt væri að afurðastöð gæti útilokað mjólkurframleiðanda á slíkum forsendum.

 

– Endurskoðun búnaðargjalds og nýting búnaðargjalds

Formaður greindi frá því að nefnd sú sem fjallaði um endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar hafi verið endurvakinn og falið að vinna að þessu verkefni.

 

– Um fiskimjölsbann ESB

Gerð var grein fyrir fyrirætlan RALA um tilraun með fóðrun mjólkurkúa á rúlluheyi og öðrum próteingjöfum en fiskimjöli, en nauðsynlegt er að íslendingar geri sér grein fyrir mögulegum próteingjöfum ef bann verður sett við notkun á fiskimjöli í fóðri jórturdýra.

 

– Verðmyndun og samkeppni/samþjöppun á matvörumarkaði

Formaður fór yfir grænmetismálið sk. og stöðu ímyndar grænmetisbænda í kjölfar þessa neikvæðu umræðu. Miklar umræður urðu um málið og umfjöllun fjölmiðla um það.

 

2. Rannís-skýrslan

Fram kom að uppkast að lokaskýrslu frá dönskum ráðgjöfum liggur fyrir og endurskoðun skýrslunnar er í gangi hjá nefndinni. Þá er eftir nokkur vinna við frágang og uppsetningu skýrslunnar, auk þýðingar dönsku skýrslunnar. Það var mat nefndarmanna að niðurstaðna væri vart að vænta fyrr en um miðjan maí.

            Formaður benti á að þegar niðurstaðna væri að vænta frá nefndinni, þá væri mikilvægt að huga vel að framsetningu þeirra og með hvaða hætti skýrslan verði kynnt bændum, almenningi og fjölmiðlum.

            Fram kom í máli fundarmanna að mönnum verði að vera ljóst að niðurstöður nefndarinnar verður fyrst og fremst góður umræðugrundvöllur til nánari stefnumörkunar kúabænda landsins. Í framhaldi af því var ákveðið að eftir afhendingu skýrslunnar verði unnið að drögum að stefnumörkun LK fyrir næsta aðalfund og verði stefnt að afgreiðslu málsins á aðalfundi LK árið 2002.

 

3. Umframmjólk þessa verðlagsárs

Formaður velti upp þeirri spurningu hvað ætti að gera þetta verðlagsárið vegna vöntunar á próteini og skýrði jafnframt frá umræðum innan stjórnar SAM, þar sem rætt hefur verið um að til greina komi að kaupa prótein úr einni milljón lítra á þessu verðlagsári. Nokkrar umræður urðu um  málið og þá einnig rætt um hugsanlegar breytingar á C-greiðslu næsta verðlagsár.

 

 

4. Gæðastýring

Kynnt var staða mála á Norður- og Suðurlandi, þar sem verið er að vinna að gæðastýringarmálum kúabænda. Fram kom að fyrirhugað er að halda sameiginlegan fund þeirra bænda sem eru áhugasamir um þessi mál í Bændahöllinni á næstunni.

 

5. Staðsetning skrifstofu LK

Fyrir fundinum lág tillaga um að flytja skrifstofu LK upp á Hvanneyri, þar sem framkvæmdastjóri hefur haft skrifstofuaðstöðu tvo daga í viku liðinn vetur. Nokkrar umræður urðu um málið og fundarmenn því sammála að það að flytja skrifstofu LK út á land samræmist stefnu LK um að byggja upp þjónustu við búgreinina á landsbyggðinni en ekki í höfðuborginni. Framkvæmdastjóra var falið að vinna að framgangi málsins.

 

6. Hagræðingarverkefni í nautgriparækt

Formaður kynnti þær umræður sem fram hafa verið um að vinna hagræðingarverkefni í nautgriparækt, út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir um framleiðni vinnu kúabænda landsins. Hugmyndin er að LK hafi frumkvæði að umsókn um styrk úr Þróunarsjóði til að vinna hagræðingarverkefni í nautgriparækt, sem hafi vinnuhagræðingu og verkléttingu sem útgangspunkt. Verkefnið þyrfti ennfremur að móta í samvinnu við alla mögulega aðila, s.s. rannsóknarstofnanir og búnaðarsambönd, en ljóst að ráða þyrfti sérstakan starfsmann í þetta verkefni. Fundarmenn voru sammála um að fela framkvæmdastjóra og formanni að vinna að framgangi málsins.

 

7. Gin- og klaufaveiki

Farið var yfir alvarlega stöðu málsins á meginlandi Evrópu og áhrif þess hérlendis, s.s. á fyrirhugaða kúasýningu “Kýr 2001”. Fundarmenn voru sammála um að réttast væri að fresta sýningunni um eitt ár vegna þessa. Þá var rætt um þann vanda sem bændur standa frammi fyrir samhliða komu ferðamanna til landsins með Norrænu á komandi sumri. Rætt var einnig um að láta útbúa límmiða á útihurðir fjósa með varnarorðum til að senda á hvert kúabú landsins. Framkvæmdastjóra var falið að taka málið upp með fulltrúum afurðastöðva í mjólkuriðnaði varðandi gerð og dreifingu á slíkum límmiðum.

 

Þá var samþykkt að senda eftirfarandi ályktun til stjórnvalda þar sem vakin yrði athygli á nauðsyn þess að sett verði sem allra fyrst fram aðgerðaáætlun vegna fyrirhugðrar komu Norrænu 24. maí n.k.

 

8. Um dýralæknaþjónustu

Framkvæmdastjóri fór yfir þá vinnu sem farið hefur í reglugerðina um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum, en rætt hefur verið margsinnis við yfirdýralækni, landbúnaðarráðherra og ýmsa aðra starfsmenn ráðuneytisins. Þá hefur og verið rætt við heilbrigðisráðherra um málið, um hugsanlega breytingu reglugerðarinnar. Fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins hafa nú óskað eftir því við LK að gera tillögu að breytingu á reglugerðinni, þannig að áfram verði stefnt að minnkandi notkun lyfja en önnur leið farin en núverandi reglugerð gerir ráð fyrir.

 

9. Upplýsingamál LK

Formaður velti upp upplýsingamálum LK og hvort LK ætti að endurskoða upplýsingastefnu félagsins, sem í dag er fyrst og fremst skrif greina í Bændablaðið og í sk. LK-dálk. Töluverðar umræður urðu um málið og einnig minnt á að af tilefni 15 ára afmæli LK væri gerður sér “kálfur” eða lítið sérrit um félagið og helstu verkefni. Fundarmenn voru sammála um að skipa ritnefnd sem sjái um efnisöflun fyrir afmælisblað LK. Ákveðið var að Kristín Linda, Þórólfur og Snorri skipi ritnefnd.

 

10. Nautakjötsmál

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu mála með slátrun gripa á landinu og hvert stefndi með markaðssetningu á nautakjöti á komandi sumri. Fram kom í máli fundarmanna að framlegð í nautakjötsframleiðslunni væri óviðunandi og mikið áhyggjuefni hvert stefndi. Samkeppnisstaða nautakjötsins, við niðurgreitt lambakjöt og verksmiðjuframleitt svína- og alifuglakjöt, væri ekki góð í dag og full þörf á að skoða nákvæmlega framleiðslukostnað nautakjötsins í dag. Þá voru fundarmenn sammála um að óviðunandi væri skortur á upplýsingum um hvað værir til í landinu af nautgripum og þörf væri á að gera könnun á stöðu mála.

            Ákveðið var að fela formanni og framkvæmdastjóra að ræða við landbúnaðarráðherra um stöðu mála og hugsanlegar lausnir. Þá var samþykkt að fela framkvæmdastjóra að láta gera könnun á stöðu nautakjötsframleiðslunnar í fjósum landsins.

 

11. Merkingar búfjár

Framkvæmdastjóri kynnti stöðu vinnu við reglugerðina og samkvæmt áætlun nefndarinnar fer reglugerðardrögin til umsagnar þar til bærra aðila um miðjan maí.

 

12. Önnur mál

– tilnefning í Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins

Ákveðið var að tilnefna Snorra Sigurðsson og Kristínu Lindu Jónsdóttur í nefndina.

 

– innflutningur á Angus- og Limósínsæði í Hrísey

Framkvæmdastjóri kynnti vangaveltur nokkurra nautakjötsbænda um hvort ástæða væri til að endurnýja erfðaefnið úr Angus og Limósín með innflutningi á sæði, líkt og gert var í áraraðir með Galloway-stofninn. Málið var ekki frekar rætt, enda órætt í stjórn NLK ehf.

 

– sæðingarmál

Rætt var um ástand sæðingarmála á landinu og ljóst að víða er ástandið óþolandi.

 

– endurskoðun samþykkta LK

Rætt var um hvort setja ætti skýra kröfu varðandi skráningu félagsmanna aðildarfélaga LK, en í dag er aðild félagsmanna einstakra aðildarfélaga með mjög ólíkum hætti. Ákveðið var að taka málið upp síðar.

 

– verkaskiptasamningur LK og BÍ

Rætt var um verkaskiptasamning LK og BÍ. Samkvæmt 5. grein III kafla samstarfssamningsins var ákveðið að endurskoða skiptingu búnaðarsjóðsgjalds eftir að reynsla væri komin á framkvæmd samningsins. Formanni og framkvæmdastjóra var falið að taka málið upp með forsvarsmönnum BÍ.

 

– viðhorfskönnun félagsmanna

Rætt var um að endurgera viðhorfskönnun kúabænda, sambærilega og gerð var fyrir rúmum áratug. Ákveðið var að leita eftir samstarfsaðila við það verkefni sem hafi yfir að ráða reynslu á þessu sviði. Í því sambandi var Háskólinn á Akureyri nefndur til sögunnar og sömuleiðis Háskóli Íslands. Framkvæmdastjóra og formanni falið að vinna að undirbúningi þess.

 

– nýtt merki LK

Framkvæmdastjóri kynnti fyrir fundarmönnum hugmyndir um nýtt merki LK og var samþykkt að óska eftir hugmyndum frá ýmsum aðilum um nýtt merki. Málið verði kynnt í Bændablaðinu.

 

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 18:30

Næsti fundur verður haldinn 7. júní nk.

Snorri Sigurðsson