Beint í efni

Stjórnarfundir – 10. fundur 2000/2001

05.03.2001

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda

 

Tíundi fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn mánudaginn 5. mars 2001 og hófst hann klukkan 13:00. Mætt voru Þórólfur Sveinsson, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Kristín Linda Jónsdóttir (í síma). Gunnar Sverrisson boðaði forföll og Sigurgeir Pálsson var veðurteptur Að auki sátu fundinn þeir búnaðarþingsfulltrúar sem höfðu seturétt á aðalfundi LK haustið 2000: María, Sigríður, Sigurður, Arnar og Gunnar (í síma). Einnig var á fundinum Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:

 

1. Greiðsla fyrir prótein úr umframmjólk og tilhögun beinna greiðslna.

Formaður lagði fram minnisblað um öflun og uppgjör umframmjólkur vegna próteingjafar. Fyrir liggur að mikið prótein muni vanta á komandi greiðslumarksári (allt að 2 milljónir kg) og að skipuleggja þurfi framkvæmd slíkra kaupa. Fundarmenn voru sammála um að nauðsynlegt sé fyrir mjólkuriðnaðinn að með góðum fyrirvara liggi fyrir hve mikið vanti á hverjum tíma af próteini. Þá var rætt um fyrirkomulag c-greiðslna og með hvaða hætti eigi að hverfa frá því kerfi sem nú er. Í því sambandi veltu fundarmenn fyrir sér hvort setja eigi inn annan “c-greiðslu” topp eða hvort setja eigi hvatagreiðslur á alla mánuði. Eftir miklar umræður var samþykkt að leitast til að setja fram þriggja ára skipulag varðandi þróun beingreiðslna þó með fyrirvara um breytingar. Þá töldu fundarmenn mikla annmarka á að því að taka upp uppgjör síðasta verðlagsárs.

            Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að málinu.

 

2. Undirbúningur búnaðarþings

Formaður byrjaði á því að kynna niðurstöður formannafundar búgreinafélaganna frá því á föstudaginn s.l. en þar var ákveðið að búgreinarnar myndu sameiginlega leggja til að uppstillingarnefnd myndi undirbúa stjórnarkjör BÍ. Þá var rætt um mögulega fulltrúa í stjórn BÍ og hvað gerst hefði meðal þingfulltrúa síðustu vikur, en mikið hefur verið um kosningaundirbúning meðal sumra fulltrúa. Fundarmönnum var tíðrætt um stjórn, hugsanleg áhrif búgreinafélaganna inn í stjórn BÍ og áhrif þess að hafa sterka markaðsþenkjandi bændur í stjórninni.

            Þá kynnti Þórólfur samkomulag sem komið er í nefnd frá síðasta búnaðarþingi, er fjallað hefur um ráðgjafaþjónustuna.

 

3. 15 ára afmæli LK

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu undirbúnings og velti því upp hvort halda ætti upp á afmæli LK í sumar, jafnvel í tengslum við kúasýningu sem hugsanlega verður haldin á Norðurlandi. Þá fær LK mikla fjölmiðlaumfjöllun þessa dagana í tengslum við ungfrú Gateway 2001 og því spurning hvort halda eigi upp á afmælið síðar en fyrst var gert ráð fyrir. Formaður velti því upp hvort nota ætti skýrslu Rannís-nefndarinnar, sem er væntanleg, sem hvata til að halda upp á afmæli LK.

 

4. Rannís-skýrslan

Formaður tilkynnti að útlit væri til að skýrslan muni liggja fyrir í lok mars. Ákveðið var að boða til sameiginlegs fundar stjórnar LK og fagráðs, þar sem farið væri yfir skýrsluna.

 

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 16:00

Næsti fundur haldinn fyrir búnaðarþing

Snorri Sigurðsson