Beint í efni

Stjórnarfundir – 6. 2016-2017

07.07.2016

Sjötti fundur stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn í Bændahöllinni að Hagatorgi 1, fimmtudaginn 7. júlí 2016 kl 10.00.

 

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson og Samúel U. Eyjólfsson. Elín Heiða Valsdóttir mætti til fundar kl. 13.00. Símafundur undir lið 6 með Sigurði Loftssyni. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og var því næst gengið til dagskrár.

 

Þetta var gert:

 

1. Formleg framkvæmdastjóraskipti.

Stjórnarmenn gengu frá formsatriðum skriflega og veittu nýjum framkvæmdastjóra umboð til að annast öll venjuleg bankaviðskipti fyrir hönd LK. Lögheimili LK flyst frá Bitruhálsi 1 að Bændahöllinni við Hagatorg.

 

2. Af hverju á ég að vera meðlimur í Landssambandi kúabænda?

Framkvæmdastjóri fór ítarlega yfir hugmyndir að verkefni um kosti þess og ávinning að vera félagsmaður í Landssambandi kúabænda. Einnig umræður um haustfundi LK. Framkvæmdastjóra falið að vinna verkefnið áfram og skila inn vinnuskýrslu á næsta stjórnarfundi.

 

3. Kynning á verkefninu “Sumarilmur”.

Framkæmdastjóri kynnti verkefnið Sumarilmur sem er leikur sem fagnar sumarilminum í sínum ólíku myndum og sýnir samspil landbúnaðar og ferðamennsku. Verkefnið gengur út á að landsmenn taki ljósmyndir sem fanga sumarilminn og birti á samfélagsmiðlum. Landssamband kúabænda kemur ekki beint að verkefninu en stjórn telur verkefnið jákvætt og felur framkvæmdastjóra að annast hvatningu til bænda að taka þátt í verkefninu.

 

4. Þátttaka í Handverkshátíð á Hrafnagili.

LK hefur samþykkt að taka þátt íLandbúnaðarsýningu á Handverkshátíð á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit, sem fram fer 4.-7. ágúst n.k. Farið var yfir hugmyndir stjórnarmeðlima að kynningarefni og miklar umræður um umgjörð verkefnisins. Stjórn felur framkvæmdastjóra að annast verkefnið í heild.

 

5. Nýr myndabanki fyrir LK og staða vefmála.

Framkvæmdastjóri fór yfir hugmyndir sínar um nýjan og endurbættan vef LK. Miklar umræður voru um efnislegar og praktískar þarfir notenda vefsins. Stjórn felur framkvæmdastjóra að leita tilboða í nýjan og endurbættan vef.

 

6. Forsendur verðlagsnefndar.

Símafundur með Sigurði Loftssyni þar sem hann reifaði forsendur verðlagsnefndar vegna hækkunar á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum um 2,5% þann 1. júlí sl.Breytingin er einkum komin til vegna hækkunar launavísitölu um 12,8%. Á sama tíma lækkar undanrennu- og mjólkurduft um 20% til að mæta áhrifum nýs tollasamnings við ESB og lækkun heimsmarkaðsverðs á dufti. Meðaltalshækkun er því 2,1%. Kom fram skýr afstaða þess að verðlag yrði skoðað aftur á haustmánuðum. Einnig var stuttlega rætt um stöðu einangrunarstöðvarinnar og var ákveðið að fá annan fund með Sigurði í ágúst/september til að fara ítarlega yfir stöðuna.

 

7. Aðalfundur og árshátíð LK 2017.

Formaður hefur rætt við KEA og Hof um að taka frá dagsetninguna 24.-25. mars frá. Aðalfundur verður haldinn á KEA og árshátíðin í Hofi þar sem þau geta tekið á móti fleiri gestum. Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.

 

8. Fundargerð síðasta fundar.

Fundargerð 5. fundar stjórnar á starfsárinu var afgreidd og verður birt á naut.is að fundi loknum.

 

9. Önnur mál.

a. Verktaka. Stjórn samþykkir að fela framkvæmdastjóra og formanni að ganga til samninga við Baldur Helga Benjamínsson um vinnslu á sérverkefnum.

b. Fundur með stjórn Auðhumlu.  Stefnt er að fundi stjórnar LK með stjórn Auðhumlu í ágúst.

c. Frestun ákvæða aðbúnaðarreglugerðar til 2018. Framkvæmdastjóra falið að fylgja eftir bréfi sem sent var til sjárvarútvegs- og landbúnaðarráðherra 6. maí sl.

d. Næsti fundur stjórnar. Stefnt að næsta fundi stjórnar í byrjun ágúst,haldinn í Eyjafirði samhliða Handverkshátíð á Hrafnagili.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.00

 

Margrét Gísladóttir

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda