Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2016-2017

20.04.2016

Fundargerð fyrsta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2016-2017, haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík, miðvikudaginn 20. apríl 2016 kl. 11.00. Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Elín Heiða Valsdóttir, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson og Pétur Diðriksson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkoma, setti fund og var því næst gengið til dagskrár.

 

Þetta var gert.

 

1. Kosningar í embætti innan stjórnar. Pétur Diðriksson kjörinn varaformaður með fimm atkvæðum. Elín Heiða Valsdóttir kjörin ritari með fjórum atkvæðum, einn seðill auður.

 

2. Tilnefningar í nefndir og ráð. Formaður gerir tillögu um að hann taki sæti í framkvæmdanefnd búvörusamninga fyrir hönd LK. Stjórn samþykkir þá tillögu. Formaður gerir tillögu um að framkvæmdastjóri taki sæti LK í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Stjórn samþykkir þá tillögu. Formaður gerir tillögu um að Samúel U. Eyjólfsson taki sæti LK í Samstarfsnefnd SAM og BÍ. Framkvæmdastjóri reifaði stuttlega hlutverk nefndarinnar, sem er að staðfesta mjólkuruppgjör hvers verðlagsárs og að vera sameiginlegur umræðuvettvangur samtaka bænda og mjólkuriðnaðarins. Nefndin fer einnig yfir nýtingarstuðla mjólkurafurða varðandi fitu og prótein. Stjórn samþykkir fram komna tillögu. Fagráð í nautgriparækt. Tillaga um að Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum verði áfram formaður fagráðsins sem fulltrúi LK, aðrir fulltrúar LK verði Þórarinn Leifsson, Keldudal og Pétur Diðriksson, Helgavatni. Stjórn samþykkir þessar tilnefningar. Formaður gerir tillögu um að hann taki sæti LK í Verðlagsnefnd búvara sem aðalmaður. Stjórn samþykkir þá tillögu.

 

3. Tilhögun á starfi stjórnar. Formaður reifaði hugmyndir um ítarlegra skjalavistunar- og málaskráningarkerfi fyrir LK en nú er við lýði. Ýmsar útgáfur eru mögulegar í þeim efnum og ákveðið að skoða málið nánar, verði farið í nánara samstarf við BÍ í framtíðinni. Mikilvægt að stjórn vakti tölvupóst mjög reglulega, en til að liðka fyrir skjótri afgreiðslu mála og draga úr kostnaði, leggur stjórn aukna áherslu á símafundi í starfi stjórnar hér eftir. Framkvæmdastjóra jafnframt falið að kanna möguleika á að setja upp naut.is tölvupóstföng fyrir aðra stjórnarmenn, til aðgreiningar frá persónulegum gögnum stjórnarmanna.

 

4. Ráðning á framkvæmdastjóra LK. Formaður reifaði starfslýsingu framkvæmdastjóra sem lá fyrir fundinum. Fyrir liggur að ráða þarf framkvæmdastjóra sem þurfi að geta hafið störf sem fyrst. Talsverðar umræður um áherslur við val á nýjum starfsmanni samtakanna. Stjórn ákveður að auglýsa eftir framkvæmdastjóra og var formanni falið að setja upp drög að auglýsingu, í samráði við stjórn. Framkvæmdastjóra falið að kanna möguleika á birtingu í Bændablaðinu, Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Auglýsingin verði einnig birt á heimasíðu samtakanna, naut.is.

 

5. Fundaáætlun stjórnar starfsárið 2016-2017. Formaður reifaði drög að fundaáætlun stjórnar á komandi starfsári. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir 11 reglulegum stjórnarfundum fram að næsta aðalfundi og að símafundir verði haldnir eftir því sem þurfa þykir. Fundardagar verði eftirfarandi: Miðvikudagur 20. apríl 2016, miðvikudagur 27. apríl 2016, þriðjudagur 7. júní 2016, þriðjudagur 9. ágúst 2016, þriðjudagur 6. september 2016, þriðjudagur 18. október 2016, þriðjudagur 6. desember 2016, þriðjudagur 10. janúar 2017, þriðjudagur 14. febrúar 2017, þriðjudagur 14. mars 2017 og fimmtudagur 23. mars 2017.

 

6. Framleiðsla og sala nautgripaafurða. Framkvæmdastjóri fór yfir framleiðslu og sölu nautgripaafurða. Samkvæmt nýjasta söluyfirliti SAM er sala mjólkurafurða undanfarna 12 mánuði komin í 133,7 milljónir lítra á fitugrunni og 123,8 milljónir lítra á próteingrunni. Innvegin mjólk á sama tímabili er 149,9 milljónir lítra. Vikuinnvigtun mjólkur um þessar mundir er 3,1 milljón lítra og virðist vera að ná hámarki. Framleiðsla og sala nautgripakjöts er rúmlega 3.800 tonn undanfarna 12 mánuði og fer talsvert vaxandi, aðallega vegna mikillar aukningar í slátrun á kúm en aukinn ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu er einnig farinn að hafa áhrif til aukningar á framboði sláturgripa. Farið yfir þróun á ásetningi kálfa undanfarna mánuði, hann helst svipaður milli ára. Einnig farið yfir nýútkomna reglugerð um opna tollkvóta á nautakjöti, sem að þessu sinni nær einungis yfir lundir og hryggvöðva.  

 

7. Innheimta birgðagjalds mjólkur. Formaður fór yfir umræðuna vegna ákvörðunar stjórnar Auðhumlu svf. að innheimta 20 kr/ltr birðagjald frá 1. júlí n.k. Sú ákvörðun kemur afar misjafnlega niður meðal kúabænda og hafa þau sjónarmið komið fram að með þessu sé verið að ganga á bak fyrri ákvarðana um greiðslu á fullu afurðastöðvaverði út yfirstandandi verðlagsár. Alveg skýrt að stjórn Auðhumlu er falið að gæta hagsmuna félagsins og verður að horfa á innheimtu birgðagjaldsins í því ljósi. Mjög miklar umræður um stöðu framleiðslumála, framleiðslustýringarinnar og horfur í þeim efnum á næstu misserum.

 

8. Viðskipti með greiðslumark mjólkur. Formaður fór yfir niðurstöðu síðasta tilboðsmarkaðar með greiðslumark í mjólk. Talsverðar umræður um stöðu mála og framhald viðskipta með greiðslumark, sérstaklega það greiðslumark sem þegar hefur verið framleitt upp í á yfirstandandi verðlagsári. Framkvæmdastjóra falið að leita álits lögmanns BÍ um fjölda markaða sem eftir eru, í ljósi þess að aðilaskipti með greiðslumark verða óheimil frá og með næstu áramótum við gildistöku nýrra búvörusaminga.

 

9. Tilhögun á skrifstofuaðstöðu LK. Formanni falið að fara í viðræður við BÍ um framtíðar skrifstofuaðstöðu fyrir LK í Bændahöllinni og setja upp drög að samning þar um, í samráði við stjórn.

 

10.  Önnur mál.

a. Vöktun á afkomu bænda. Stjórn leggur áherslu á að bændur skili upplýstu samþykki til bókhaldsstofa um notkun á bókhaldsgögnum bænda, svo hægt verði að nýta gögnin til að vakta þróun á afkomu greinarinnar.

 

b. Aðalfundur og árshátíð LK 2017. Stefnt er að næsta aðalfundi LK föstudaginn 24. og laugardaginn 25. mars 2017. Formanni falið að kanna möguleika á fundaaðstöðu á Akureyri.

c. Landbúnaðarsýning á Hrafnagili samhliða Handverkshátíð 4.-7. ágúst. Erindi frá framkvæmdastjóra Landbúnaðarsýningarinnar lagt fram til kynningar. Stjórn tekur jákvætt í erindið en ákveðið að afgreiða það formlega á næsta fundi.

d. Fjölmiðlavöktun. Reifaðir möguleikar á fjölmiðlavöktun í samvinnu við BÍ.

e. Útfærsla á verðlagningarfyrirkomulagi. Farið yfir verkefni komandi mánaða varðandi útfærslu á verðlagningarfyrirkomulagi mjólkur.

f. Staða holdanautamálsins. Framkvæmdastjóri fór yfir helstu atriði í stöðu endurnýjunar á erfðaefni holdanautastofnanna. Verið er að útbúa heilbrigðisvottorð vegna innflutnings á erfðaefni Angus gripa frá Noregi til Íslands. Hönnun á einangrunarstöð á Stóra-Ármóti stendur yfir og fram er komið hagstætt tilboð í fjármögnun stöðvarinnar.

g. Ráðgjafaþjónusta í nautakjötsframleiðslu. Ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda er af verulega skornum skammti hér á landi. Stjórn telur nauðsynlegt að samhliða innflutningi á nýju erfðaefni, verði einnig ráðist í uppbyggingu á ráðgjafaþjónustu fyrir nautakjötsframleiðendur í nánu samráði við RML. Að mati stjórnar er afar mikilvægt að bæta afkomu í nautakjötsframleiðslunni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda