Beint í efni

Stjórnarfundir – 13. 2015-2016

30.03.2016

Fundargerð þrettánda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Fundur haldinn miðvikudaginn 30. mars 2016 í Bændahöllinni. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Framkvæmdastjóri vék af fundi undir lið 3. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð, að undanskildum lið 3, en Trausti Þórisson, ritari stjórnar, ritaði fundargerð þess liðar.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd með lítils háttar athugasemdum. Verði sett á naut.is að loknum fundi.

 

2. Ársreikningur LK 2015. Framkvæmdastjóri kynnti niðurstöður ársreiknings samtakanna fyrir árið 2015. Tekjur voru 57.850.682 kr, gjöld voru 48.336.183 kr, og fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1.646.030 kr. Afkoma ársins er því jákvæð um 11.160.529 kr. Eigið fé samtakanna í árslok 2015 er 74.574.085 kr. Niðurstaða ársreiknings er í öllum megin atriðum í samræmi við fjárhagsáætlun samtakanna eins og aðalfundur 2015 samþykkti hana. Stjórn og framkvæmdastjóri staðfesta ársreikninginn með undirskrift sinni.             

 

3. Starfslok framkvæmdastjóra LK. Bréf framkvæmdstjóra þar sem hann segir upp starfi sínu frá og með 1. apríl n.k. barst formanni að morgni 15. mars sl. Stjórn þarf að taka afstöðu til óska sem þar koma fram og varða orlofsréttindi framkvæmdastjóra. Gert er ráð fyrir að Baldur Helgi vinni uppsagnarfrestinn sem er þrír mánuðir. Formaður hefur rætt óskir framkvæmdastjóra við VR og lögmann Bændasamtaka Íslands. Samkvæmt áliti lögmanns BÍ eru orlofsréttindi lögbundin en fyrnast á 4 árum. Niðurstaða allra þeirra aðila sem formaður hefur rætt við er að óskir framkvæmdastjóra séu eðlilegar og síst of háar. Formaður lagði fram eftirfarandi tillögu að starfslokasamningi og styðja fjórir stjórnarmenn þá tillögu:

a.       Eftir að uppsagnarfrestur er liðinn haldi Baldur Helgi eftir síma, tölvu og prentara sem hann hefur haft til afnota í starfi.

b.      Baldur Helgi fái greidd full grunnlaun í þrjá mánuði eftir að uppsagnarfrestur er liðinn. Launagreiðslur fari fram með hefðbundnum hætti um hver mánaðamót. Ekki er óskað eftir vinnuframlagi á þessu tímabili, þ.e. á tímabilinu júlí – september að báðum mánuðum meðtöldum. Í 8. gr. ráðningarsamnings dags. 27. október 2005 segir að um rétt til orlofs fari eftir samningum Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Í þeim segir m.a. að eftir 5 ár hjá sama fyrirtæki hafi starfsmaður rétt á 27 daga orlofi og eftir 10 ár í sama fyrirtæki hafi starfsmaður rétt á 30 daga orlofi, eða 6 vikur. Vegna eðlis starfs framkvæmdastjóra Landssambands kúabænda, sem eini starfsmaður samtakanna, hefur reynst torvelt að uppfylla þetta ákvæði ráðningarsamnings. Á tímabilinu 1. júní 2015 til 31. ágúst sama ár, sem kalla má hefðbundinn sumarleyfistíma, eru eingöngu 10 virkir dagar þar sem framkvæmdastjóri svaraði engu erindi skriflega. Erindum er svarað símleiðis hvern virkan dag, árið um kring. Á starfstíma framkvæmdastjóra hjá LK hefur hann eignast þrjú börn. Mögulegt reyndist að nýta að fullu rétt til töku fæðingarorlofs með fyrsta barni sem fæddist 2008, að hluta með barni sem fæddist 2010 og alls ekki með barni sem fæddist 2014.

c.       Óskað er eftir vinnuframlagi Baldurs Helga í uppsagnarfresti, þ.e. apríl – júní að báðum mánuðum meðtöldum.

d.      Vegna starfa á árinu 2016 mun framkvæmdastjóri öðlast rétt á 15 orlofsdögum sem nýttir skulu með eðlilegum hætti.

e.       Baldur Helgi lýsir sig reiðubúinn til að aðstoða nýjan framkvæmdastjóra samtakanna við yfirfærslu verkefna manna á milli, eftir að starfstíma hans lýkur hjá samtökunum.

Vegna þessa gerir einn stjórnarmaður eftirfarandi bókun. „Ég, Þórólfur Ómar Óskarsson, lýsi yfir algjörri andstöðu við það að starfslokum framkvæmdastjóra fylgi peningagreiðslur óháð vinnuframlagi. Telji fráfarandi framkvæmdastjóri sig eiga inni hjá félaginu vangoldin laun eða orlof óska ég eftir því að hann greini sjálfur frá því skriflega í bréfi til stjórnar“.

 

4. Fyrirmyndarbú LK 2016. Landssambandi kúabænda hafa borist tilnefningar frá aðildarfélögum Landssambands kúabænda vegna Fyrirmyndarbús LK 2016. Stjórn hefur farið yfir tilnefningarnar ásamt valnefnd og er niðurstaðan sú að Bryðjuholt í Hrunamannahreppi er Fyrirmyndarbú Landssambands kúabænda árið 2016. Ábúendur í Bryðjuholti eru Þórunn Andrésdóttir og Samúel U. Eyjólfsson. Búið er glæsilegt í alla staði, sómi sinnar sveitar og öll ásýnd til fyrirmyndar. Þá eru kýrnar á búinu afurðasamar, auk þess sem búið hefur lagt til fjölda gripa til hins sameiginlega kynbótastarfs og t.d. skilað einum nautsföður, Frísk 94026, og öðru reyndu nauti, Hrygg 05008, auk nokkurra nauta sem nú eru í afkvæmaprófunum og bíða niðurstöðu. Auk þessa hafa hjónin Þórunn og Samúel tekið virkan þátt í félagsstörfum bæði heima fyrir og á vettvangi greinarinnar og því einstaklega vel að þessari viðurkenningu komin að mati stjórnar LK.

5. Fjárhagsáætlun LK 2016. Framkvæmdastjóri kynnti drög að fjárhagsáætlun samtakanna fyrir árið 2016. Samþykkt að leggja drögin fyrir aðalfund.

6. Aðalfundur, afmælis- og árshátíð. Farið yfir stöðu á undirbúnings á aðalfundi, afmælis- og árshátíð sem er í góðu horfi.

7. Frá aðalfundi Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands ehf 29. mars sl. Formaður rakti niðurstöður aðalfundar NautÍs, en félagið er nú í eigu LK, BÍ og Bssl. Sigurður Loftsson er formaður stjórnar og fulltrúi Landssambands kúabænda, aðrir stjórnarmenn eru Sveinbjörn Eyjólfsson sem er fulltrúi Bændasamtaka Íslands og Gunnar Kristinn Eiríksson sem er fulltrúi Búnaðarsambands Suðurlands. Framkvæmdastjóri félagsins er Sveinn Sigurmundsson. Megin tilgangur félagsins er að halda utan um rekstur á einangrunarstöð fyrir holdanautgripi á Stóra-Ármóti.

8. Önnur mál.

a. Starfslok formanns. Eins og fram hefur komið, mun Sigurður Loftsson  ekki gefa kost á sér til endurkjörs á næsta aðalfundi. Hann óskar eftir því að verða tekinn út af launaskrá þann 31. mars n.k., halda tölvu sem hann hefur haft til afnota frá upphafi til frambúðar og netfanginu sl@naut.is um sinn.

b. Tillaga að fráfarandi formanni og varaformanni verði færð kveðjugjöf frá samtökunum í þakklætisskyni fyrir farsæl störf í þágu samtakanna undanfarin ár. Framkvæmdastjóra falið að annast verkefnið.

c. Formaður og varaformaður þökkuðu stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra kærlega fyrir samstarfið á undanförnum árum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.28.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda