Beint í efni

Stjórnarfundir – 12. 2015-2016

15.03.2016

Fundargerð tólfta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Fundur haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 þriðjudaginn 15. mars 2016 kl. 11.15. Mættir eru Sigurður Loftsson, formaður, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Guðný Helga Björnsdóttir var í símasambandi vegna forfalla. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri. Gestur fundarins undir lið 2. var Jón Axel Pétursson, forstöðumaður sölu- og markaðssviðs MS.

 

1. Fundargerð síðsta fundar. Afgreidd með einni athugasemd. Verði birt á vef samtakanna að loknum fundi.

 

2. Staða framleiðslu og sölumála. Staða framleiðslumála kom mikið til umræðu á kynningarfundum um búvörusamninga. Hún hefur greinileg áhrif á afstöðu bænda til hugmynda um útfærslur á leiðum til framleiðslustýringar í komandi samningi. Upplýsingaskil um gripafjölda og þróun hans mun að líkindum batna verulega með nýjum samningi, þar sem í honum eru miklir hvatar til þess. Aðfangaverð er fremur hagstætt um þessar mundir og meðalnyt kúnna er á mikilli uppleið, saman leiðir þetta til mikillar framleiðslu. Rætt um áhrif af framkvæmd tollasamnings við ESB, sem mun að líkindum hafa veruleg áhrif á verðlagningu á osti og dufti. Það sem af er ári er sala samkvæmt áætlunum og sala á viðbiti er 3% yfir janúar og febrúar í fyrra. Ostur er nær stöðugt á tilboðsverði, einnig mikið um tilboð á smjöri og smjörva. Útflutningsverð á dufti og smjöri er í sögulegu lágmarki. Gert er ráð fyrir að nýta útflutningskvóta á skyri til ESB á Bretland að mestu leyti, skyrið er komið í 200 Waitrose búðir, sá útflutningur skilar fullu mjólkurverði. Í Sviss þar sem 600 verslanir selja skyr fæst fullt mjólkurverð einnig. Gert er ráð fyrir að  Finnlandsmarkaði verði sinnt frá Danmörku að mestu leyti. Þangað hefur MS hafið útflutning á Skyrdrykk sem fellur utan tolla ESB. Mat forstöðumanns sölu- og markaðssviðs Mjólkursamsölunnar er að tækifæri séu í útflutningi á smjöri á Bandaríkjamarkað. Mikilvægt að greinin marki skýra framtíðarsýn varðandi útflutning, uppbygging vörumerkja tekur áratugi, t.d. í smjörinu. Fyrirspurnir hafa borist alla leið frá Úkraínu um kaup á skyri og eru til skoðunar. Skyri mikið haldið að erlendum ferðamönnum hér á landi. Öflug vöruþróun og markaðsstarf í þessum vöruflokki hefur skilað mikilli söluaukningu að undanförnu.

 

3. Einangrunarstöð fyrir holdanautgripi. Formaður fór yfir helstu atriði frá fundi með Bssl. um stöðu málsins sl. föstudag og sl. mánudag. Farið yfir minnispunkta frá Sveini Sigurmundssyni framkvæmdastjóra Bssl. um framgang málsins á Stóra-Ármóti. Fulltrúar MAST eru jákvæðir fyrir nýverandi hugmyndum um uppbyggingu einangrunarstöðvarinnar. Ákveðið hefur verið að nota Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf til að halda utan um rekstur stöðvarinnar; LK, BÍ og Bssl. eigi jafnan hlut og skipi einn stjórnarmann hver, Sveinn verði framkvæmdastjóri félagsins. Farið yfir afstöðumynd af 40 ha afgirtri lóð og tillögu að byggingareitunum. Mikilvægt að ráða starfsmann sem fyrst til að girða svæðið af og sjá um byggingaframkvæmdir. Stjórn LK leggur áherslu á að byggður verði upp ræktunarkjarni hreinræktaðra úrvalskúa á stöðinni, í það verkefni megi m.a. nýta framlög úr framleiðsluráðssjóði. Þannig verði hægt að losna frá fósturvísaflutningum og viðhalda erfðaframförum með sæðisinnflutningi úr reyndum nautum, sem er til muna ódýrara fyrirkomulag. Ákveðið hefur verið að fá Unnstein Snorra Snorrason til að sjá um hönnun einangrunarstöðvarinnar og hefur hann þegar hafið störf. Umsjón með stöðinni er ekki fullt starf til framtíðar, hugsanlegt að nýta samlegðaráhrif með tilraunastöðinni. Stjórn leggur áherslu á að fleiri komi að hönnuninni en færri, til að öllum grundvallaratriðum verði fullnægt og hún verði vel úr garði gerð. Einnig er mikilvægt að verkefnið verði fjármagnað og fari í gang sem fyrst. Hugmyndir um stjórnarmenn Nautgriparæktarmiðstöðvarinnar hafa verið ræddar í þá veru að Sveinbjörn Eyjólfsson verði fulltrúi BÍ og Gunnar Kr. Eiríksson fulltrúi Bssl. Lagt til að Sigurður Loftsson taki verkefnið að sér fyrir hönd LK, fyrsta árið. Stjórn einhuga um þá tilhögun. Eigendur láni félaginu fjármuni fram til áramóta, til að brúa bilið þar til framlag fæst úr nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar.

 

4. Mál fyrir aðalfund LK 2016. Farið yfir drög að tillögum frá stjórn til aðalfundar LK: Útfærsla verklagsreglna vegna nautgripasamnings. Tillögur að lagabreytingum vegna fjármögnunar, stjórn leggur til að lögmaður BÍ verði fenginn til að lesa yfir drög að samþykktabreytingum. Farið yfir hugmyndir um fjármögnun, þar er upplýst samþykki viðkomandi bónda grundvallaratriði. Tillaga um úrval á grunni erfðamarka sem er gríðarlega spennandi verkefni að mati stjórnar og telur hún mikilvægt að aðalfundur marki fjármuni til þess, svo það geti farið af stað sem allra fyrst. Að hennar mati getur verið um grundvallarbreytingu á ræktunarstarfinu að ræða.  Tillaga um að Framleiðsluráðssjóður verði nýttur til þekkingar- og þróunarstarfs, einkum á sviði kynbóta. Tryggja þarf að fjármunirnir verði ekki nýttir til að reka samtökin. Tillaga að afkomuvöktun og uppsetningu á ræktunarkjarna á holdakúm. Undir þessum lið var einnig farið stuttlega yfir megin atriði úr ársreikningi 2015, en afkoma samtakanna er jákvæð um rúmlega 11 milljónir kr. samkvæmt þeim drögum sem liggja nú fyrir.

 

5. Aðalfundur LK 2016. Farið yfir helstu atriði í undirbúningi fundarins og tillögur að skipan starfsmanna hans. Framkvæmdastjóra falið að útvega fundarritara. Ákveðið að bjóða formanni félags holdanautabænda að sitja fundinn.

6. Afmælis- og árshátíð 2016. Undirbúningur árshátíðar gengur vel og miðapantanir eru mun meiri en á liðnu ári.

 

7. Önnur mál:

a. Starfslok framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri tilkynnti að hann hyggðist láta af störfum frá og með 1. apríl n.k. en hann hefur sent formanni bréf þess efnis. Formanni falið að ganga frá starfslokum framkvæmdastjóra í samráði við stjórn.

 

b. Fyrirmyndarbú LK. Alls hafa borist sjö tilnefningar frá aðildarfélögum LK. Framkvæmdastjóra falið að skipa valnefnd til að vera stjórn til fulltingis við val á Fyrirmyndarbúi LK, í valnefnd verði Guðmundur Jóhannesson, RML, Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, RML, Jón Viðar Jónmundsson, RML, Þorsteinn Ólafsson, Nautastöð BÍ og Magnús B. Jónsson, fyrrverandi ráðunautur og skólastjóri á Hvanneyri.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda