Beint í efni

Stjórnarfundir – 9. 2015-2016

16.12.2015

Níundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Símafundur haldinn 16. desember 2015 kl. 9.35. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður setti fund og gekk til dagskrár.

 

1. Staða framleiðslumála. Mjólkurframleiðslan er mjög mikil um þessar mundir og mun meiri en væntingar stóðu til, jafnframt því sem söluaukningin er hægari en gert var ráð fyrir. Rætt um ýmsar aðgerðir til að draga úr hvata til aukinnar framleiðslu. Stjórn Auðhumlu svf. hefur ákveðið að hækka verð fyrir mjólkurflutninga og innheimta raunkostnað fyrir þá, til að koma á móts við þann kostnaðarauka sem fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk hefur í för með sér. Stjórn SAM hefur gert tillögu um lækkun greiðslumarks fyrir verðlagsárið 2016, úr 137 milljónum lítra niður í 136 milljónir lítra, í takt við meiri birgðaaukningu og nýja söluspá fyrir komandi ár. Stjórn LK gerir tillögu um að framleiðsluskylda á A-hluta verði lækkuð niður í 80% í ljósi aðstæðna, sú aðgerð dregur úr framleiðsluhvata. Stjórn Auðhumlu hefur ákveðið að herða gæðakröfur vegna greiðslna fyrir úrvalsmjólk, sem taka gildi í áföngum fram til 1. janúar 2017. Á vettvangi SAM eru uppi hugmyndir um að herða almennar gæðakröfur fyrir 1. flokks mjólk, bæði fyrir frumutölu og líftölu. Stjórn LK er ekki kunnugt um að farið hafi fram greining á stöðu einstakra framleiðenda og greinarinnar í heild í þessum efnum. Síðast þegar farið var í slíkar aðgerðir, voru þær gerðar í samráði iðnaðarins og samtaka bænda. Því er ekki að heilsa núna. Stjórn LK gerir kröfu um að slíkt samráð sé viðhaft og felur framkvæmdastjóra að senda svofellda ályktun um það til stjórnar SAM:

 

Stjórn Landssambands kúabænda er kunnugt um, að á vettvangi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði séu uppi hugmyndir um að gera breytingar á flokkunarreglum mjólkur. Landssamband kúabænda leggur ríka áherslu á, að við undirbúning að slíkum breytingum verði haft samráð við samtök bænda um þær.

 

Stjórn LK er sammála þeirri nálgun að hækka flutningskostnað á móti fullu afurðastöðvaverði og að mati stjórnar er eðlilegt að innheimta raunkostnað fyrir flutningana. Hún telur algert grundvallaratriði að ákvörðun um fullt afurðastöðvaverð fyrir alla mjólk verði haldið til streitu. Hækkun á flutningskostnaði lendir inni á borði verðlagsnefndar sem aukinn framleiðslukostnaður bænda. Ennþá gengur afar misjafnlega að losna við kýr í slátrun, það heldur uppi framleiðslu. Framkvæmdastjóra falið að kanna stöðu slátrunar, ásamt því hvernig heybirgðir bænda eru, en vísbendingar eru um að þær séu ekki miklar, sérstaklega á vesturhelmingi landsins. Undir þessum lið var einnig rætt um kynningarfund MAST, sem haldinn var í byrjun mánaðarins um eftirfylgni með reglum um aðbúnað og dýravelferð. Eftirlitsaðilar hafa nú fengið í hendur mun ríkari heimildir til slíkrar eftirfylgni en áður var.

 

2. Staða búvörusamningamála. Formaður rakti umræðu um fram komnar tillögur um stefnumörkun vegna búvörusamninga og þá gagnrýni sem þær hafa fengið. Mikil umræða um þennan lið og tillögur sem síðar hafa komið fram og aðkoma einstakra stjórnarmanna að þeim. Stjórn fagnar uppsetningu umræðuhópa á samfélagsmiðlum um búvörusamninga. Þórólfur lýsti því sjónarmiði að hann teldi sig ekki vera bundinn af ákvörðunum aðalfundar LK, vegna aðkomu hans að gerð tillagna í aðdraganda búvörusamninga. Vonast er til að samningagerðinni ljúki í janúar. Að mati stjórnar hefur ekki komist nægjanlega vel til skila, hvernig tillögur að nýju stuðningsfyrirkomulagi má nýta til að hafa áhrif á framleiðslumagnið og telur hún afar mikilvægt að hnykkja á því í framhaldinu.

 

3. Staða holdanautamálsins. Framkvæmdastjóri reifaði helstu atriði úr ferð hans, Þorsteins Ólafssonar, dýralæknis Nautastöðvarinnar og Guðmundar Jóhannessonar, ábyrgðarmanns nautgriparæktar hjá RML, til Noregs 7.-9. desember sl., þar sem rætt var við helstu aðila þar um áframhaldandi framgang verkefnisins. Næsta skref er að senda inn formlega pöntun á fósturvísum, þannig að verkefnið geti haldið áfram, m.a. með gerð heilbrigðisvottorða. Að mati stjórnar er mikilvægt að tryggja fjármögnun verkefnisins, þannig að slík pöntun feli ekki í sér fjárhagslega áhættu fyrir samtökin. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram að verkefninu. Formenn LK og BÍ hafa unnið að fjármögnun verkefnisins, en því miður náðist ekki að tryggja fjármuni til þess í fjárlögum fyrir árið 2016. Vonbrigði að ekki hafi tekist að fjármagna verkefnið og að þeir sem lögðu til að núverandi leið verði farin, skuli ekki hafa náð að útvega fjármuni til að mæta þeim viðbótar kostnaði sem af því hlýst.

 

4.      Önnur mál.

a. Innflutningur á kálfadufti. Framkvæmdastjóra falið að fara yfir stöðuna á kálfaduftsmarkaðnum.

b. Upprunamerkingar matvæla. Að mati stjórnar felast í þeim mikil tækifæri fyrir innlenda búvöruframleiðslu.

c. Loftslagssamningur í París. Stuttlega rætt um hugsanleg áhrif á landbúnaðinn og þau tækifæri og ógnanir sem í honum geta falist.

d. Næsti fundur stjórnar. Ákveðið að stefna að næsta reglulega stjórnarfundi mánudaginn 4. janúar 2016.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.08.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda