Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. 2015-2016

20.11.2015

Áttundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Símafundur haldinn föstudaginn 20. nóvember 2015 kl. 10.18. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Jóhann Nikulásson boðaði forföll. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður setti fund og gekk til dagskrár.

 

1. Staða samningaviðræðna. Formaður rakti gang mála í viðræðum um gerð búvörusamninga, tillögur að stuðningsfyrirkomulagi og verðlagningarkerfi. Sameiginlegur skilningur viðsemjenda kominn fram varðandi megin línur samninganna. Innlausnarskylda ríkisins á greiðslumarki sem lagt er til að taki gildi í upphafi nýs samnings tekur tillit til ávöxtunarkröfu, sem byggir á því að ríkið tekur fjármunina að láni í óorðnum greiðslum sem eftir eru á samningstíma þegar innlausn fer fram. Ítarlegar umræður um fyrirliggjandi tillögur. Lagt til að sett verði inn í samninginn bókun um þróun á afkomutryggingum, m.a. með því að beita skattalegum aðferðum. Stjórn telur afar mikilvægt að ná inn nýjum fjármunum til nautakjötsframleiðslu, þeir verði ekki teknir af þeim fjármunum sem nú renna til mjólkurframleiðenda.

 

2. Fulltrúafundur. Stjórn LK hefur ákveðið að boða til fulltrúafundar LK þriðjudaginn 24. nóvember n.k. Hann sitja þeir sem kjör hafa hlotið til setu á aðalfundi LK. Fundarstjórar verða Jóhannes Torfason og Laufey Bjarnadóttir. Unnið er að því að fá Runólf Sigursveinsson sem fundarritara. Uppsetning fundarins verði með þeim hætti að formaður BÍ fari yfir skipulag samningaviðræðna, formaður LK fari yfir megin línur samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar, framkvæmdastjóri fari yfir sviðsmyndir varðandi hugsanleg áhrif á einstaka framleiðendur, Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM fari yfir horfur á mjólkurmörkuðum og dr. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs HÍ verði með erindi um núverandi stuðningsfyrirkomulag og helstu ástæður þess að breytinga er þörf á því. Að framsögum loknum verða almennar umræður og önnur mál. Stjórn lítur á fundinn sem mikilvægt samráð við grasrótina um samningaviðræðurnar. Með því móti geti greinin komið skilaboðum á framfæri, sem nýtast við útfærslu einstakra atriða í samningagerðinni.

 

3. Staða holdanautamálsins. Framkvæmdastjóri rakti gang málsins. Þrjár félagseiningar bænda skipa nú framkvæmdahóp um verkefnið; LK, BSSL og BÍ. BSSL hefur ákveðið að taka spildu úr landi tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ármóti og byggja upp sérstaka einangrunaraðstöðu þar sem tilbúin verði síðari hluta ársins 2016. Jafnframt verður byggð um bráðabirgðaaðstaða í eldri byggingu, sem stefnt er á að verði tilbúin á útmánuðum 2016 sem verði nýtt til að koma verkefninu af stað. Framkvæmdastjóri stefnir að því að fara til Noregs í byrjun desember til að undirbúa töku fósturvísa og frekari framkvæmd verkefnisins. Stjórn hvetur til að unnið verði á sömu braut að framgangi verkefnisins.

 

4. Önnur mál. Engin önnur mál voru tekin fyrir á fundinum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.15.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda