Stjórnarfundir – 7. 2015-2016
03.11.2015
Sjöundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1, þriðjudaginn 3. nóvember 2015 kl. 11.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Varamönnum í stjórn, Laufeyju Bjarnadóttur og Bóel Önnu Þórisdóttur var boðið að sitja fundinn, en þær sáu sér ekki fært að mæta. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund.
Þetta var gert.
1. Fundargerð síðasta fundar. Nokkrar athugasemdir voru færðar til bókar og fundargerð þannig afgreidd. Hún verði birt á vef samtakanna að loknum fundi.
2. Framleiðsla og sala nautgripaafurða. Framkvæmdastjóri fór yfir helstu atriði í nýjustu sölutölum mjólkurafurða. Vikuinnvigtun mjólkur er um 14% meiri um þessar mundir en á sama tíma fyrir ári. Sala á fitugrunni er tæplega 132 milljónir lítra. Farið yfir stöðu á kjötmarkaði, hugað að markaðsstöðu nautakjöts, afsetningu og ásetningi. Innflutningur nautgripakjöts hefur verið gífurlega mikill undanfarna mánuði, t.d. voru flutt inn rúmlega 300 tonn í septembermánuði. Slátrun á kúm hefur aukist mjög undanfarna mánuði, þrátt fyrir það eru talsverðir biðlistar í slátrun, einkum um norðanvert landið.
3. Staða samninga um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar. Formaður reifaði stöðu samninganna og fram komnar tillögur að stuðningskerfi og verðlagningarfyrirkomulagi. Í tillögunum er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna á miðjum samningstímanum. Ræddir voru möguleikar á að flýta endurskoðun samningsins og framkvæma slíka endurskoðun oftar en einu sinni á samningstímanum. Einnig var rætt um vikmörk á því hversu mikið mætti færa fjármuni milli stuðningsflokka, að A-greiðslum undanskildum, eftir því hvernig áraði í greininni. Formaður reifaði jafnframt helstu atriði sem rædd voru á fundi með ráðherra í tengslum við samningaviðræðurnar. Samninganefnd bænda hefur fengið í hendur lögfræðiálit þar sem ráðlagt er að gera ekki heildarsamning með undirsamningum. Ástæðan er sú að t.d. mjólkursamningurinn hefur ákveðna lögfræðilega stöðu og fer í atkvæðagreiðslu einungis meðal þeirra bænda sem hann snertir beint. Stjórn er sammála um að halda samningaviðræðum áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.
4. Staða holdanautamálsins. Formaður reifaði málið. Kostnaðaráætlun vegna stofn- og rekstrarkostnaðar einangrunarstöðvar er tæplega 100 milljónir króna á fyrsta rekstrarári. Kostnaður ræðst þó mjög af endanlegri útfærslu á fyrirkomulagi stöðvarinnar og því mikilvægt að niðurstaða þar um fáist sem fyrst. Fundur formanns LK með stjórn Bssl. verður haldinn föstudaginn 6. nóvember, en búnaðarsambandið hefur lýst áhuga á að koma upp aðstöðu á tilraunabúinu að Stóra-Ármóti. Stjórn leggur ríka áherslu á að einangrunarstöðin og ræktunarkjarninn verði í eigu og undir stjórn samtaka bænda, þannig er jafnt aðgengi allra bænda að erfðaefninu tryggt. Mikilvægt að geta nýtt samlegðaráhrif af rekstri einangrunarstöðvar samhliða tilraunabúinu á Stóra-Ármóti. Formanni og framkvæmdastjóri falið að vinna áfram að framgangi málsins.
5. Félagskerfismál. Vinna við framgang ályktunar um framtíðar fjármögnun og rekstur LK er ekki hafin. Stjórn telur mikilvægt að hún verði sett af stað sem fyrst, en Jóhann og Þórólfur hafa tekið að sér að leiða það starf. Stefnt að því að hópurinn hittist í nóvember. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga er ljóst að búnaðargjaldið verður innheimt árið 2016. Sá möguleiki ræddur að samtök bænda fari fram á við ríkisvaldið að núverandi fyrirkomulagi á innheimtu gjaldsins verði breytt, til að eyða þeirri óvissu sem um fjármögnun hagsmunagæslunnar ríkir.
4. 30 ára afmælisrit LK. Fyrrverandi formaður LK, Þórólfur Sveinsson, er farinn að taka saman efni í ritið. Afmælishald, árshátíð og fagþing verði rætt nánar á næsta stjórnarfundi.
5. Önnur mál:
a. Fundur í tilraunanefnd Stóra-Ármóts 6. nóvember n.k. Nýr tilraunastjóri hefur tekið til starfa. Stjórn veltir upp möguleika á að gera tilraunir með mismunandi tegundir af kálfafóðri.
b. Framgangur tilrauna. Tilraun um efnainnihald í mjólk hefur fengið framhaldsmeðferð vegna stuðnings af þróunarfé og fer því af stað fljótlega. Umsókn um rannsókn á efnahagslegu vægi eiginleika í ræktunarstarfi var vísað til meðferðar hjá stjórn Framleiðnisjóðs. Þess er vænst að verkefnið hljóti brautargengi.
c. Heimasíða. Að mati umbjóðenda samtakanna þykir ástæða til að beita heimasíðu LK mun meira í hagsmunagæsluáróðri en gert er. Stjórn tekur undir þau sjónarmið.
d. Niðurstaða búreikninga. Framkvæmdastjóri rakti samanburð á breytilegum kostnaði 38 kúabúa úr gagnasafni LK. Samkvæmt því er mjög mikill breytileiki í þessum kostnaðarlið; allt frá því að vera 45-50 kr/ltr upp í að vera um 100 kr/ltr.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.20.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda