Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Stjórnarfundir – 6. 2015-2016

30.09.2015

Fundargerð sjötta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016, haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík, miðvikudaginn 30. september 2015 kl. 11.25. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund.

 

Þetta var gert.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerðin afgreidd og undirrituð, verði birt á vefsvæði samtakanna að loknum fundi.

 

2. Framleiðsla og markaðsmál nautgripaafurða. Frá því í sumar hefur vikuinnvigtun mjólkur verið 13-14% meiri en á sama tíma á síðasta ári. Sala á fitugrunni hefur aukist um 3,5% á sl. 12 mánuðum og tæplega 1% á próteingrunni. Sala hefur gengið með ágætum í þeim mánuði sem senn er á enda. Aukin áhersla verður lögð á markaðs- og sölustarf vegna fituríkari afurða á næstu mánuðum. Söluspá yfirstandandi árs gerði ráð fyrir 136 milljón lítra sölu á fitugrunni, en horfur eru á að hún verði á bilinu 133-134 milljónir lítra. Greiðslumark næsta árs gerir ráð fyrir sölu upp á 137 milljónir lítra. Stjórn LK ítrekar enn og aftur nauðsyn þess að upplýsingar um innvigtun mjólkur verði á stöðluðu formi, þannig að upplýsingar um framleiðslu og sölu verði að fullu samanburðarhæfar. Fjallað um gang útflutningsmála, en nýlega var haldin sérstök Skyrhátíð í Finnlandi sem heppnaðist vel. Útflutningur til Sviss fer vaxandi. Að mati stjórnar er afar mikilvægt að hvetja mjólkuriðnaðinn til dáða í sölustarfseminni, í takt við vaxandi framleiðslu mjólkur. Einnig rætt um ákvörðun þess efnis að bjóða smærri vinnsluaðilum 300.000 ltr. á ári. Rætt um alvarlega stöðu nautakjötsframleiðslunnar, en innlend framleiðsla hefur farið vaxandi eftir því sem líður á sumarið. Þrátt fyrir það er innflutningur áfram gífurlega mikill og t.a.m. voru flutt inn 90 tonn í ágúst sl. Ljóst að fyrirsjáanleg framleiðsluaukning mun hvergi nærri duga til að uppfylla þarfir innlenda markaðarins.

 

3. Mjólkurreglugerð 2016. Tillaga SAM gerir ráð fyrir 137 milljón lítra greiðslumarki á næsta ári. Tillaga aðalfundar 2014 um 100% framleiðsluskyldu, að stuðningsgreiðslur skuli renna til þeirra sem framleiða mjólkina á að mati stjórnar LK jafnt við nú sem þá. Stjórn ákveður að leggja til að reglur um útdeilingu beingreiðslna skuli vera óbreyttar árið 2016 frá yfirstandandi ári.

 

4. Samningur ESB og Íslands um tollamál. Að mati LK hefðu hagsmunasamtök bænda nauðsynlega þurft að hafa aðkomu að málinu á fyrri stigum, svo hægt væri að gera nauðsynlega greiningu á væntanlegum áhrifum samninganna á einstakar greinar landbúnaðarins. Að mati stjórnar er alveg ljóst að samningurinn mun hafa mjög neikvæð áhrif á nautakjötsframleiðsluna, sem er í beinni andstöðu við málflutning ráðherra um eflingu þeirrar greinar. Jafnframt sýnist stjórn LK ljóst að samningurinn geti haft neikvæð áhrif á markaðsstöðu innlendra mjólkurafurða. Fundur í Borgarnesi 29. september sl. um tollasamninginn var mjög vel sóttur og vel skipulagður af hálfu bænda á Vesturlandi. Á honum kom fram að tollasamningur verði ekki staðfestur áður en búvörusamningar liggja fyrir. Málflutningur ráðherra á fundum um tollasamninginn hefur einnig veitt aukinn byr í seglin varðandi stuðning til endurnýjunar á framleiðsluaðstöðu. Mikilvægt að greina líkleg áhrif samningsins ítarlega.

 

5. Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Fyrsti samningafundur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var haldinn í gær, 29. september. Meginatriði að horfið verði frá núverandi kvótakerfi á samningstímanum, eins og ályktun aðalfundar LK kveður á um. Formaður reifaði tillögur samninganefndar bænda að stuðningsfyrirkomulagi sem lagðar hafa verið fram í viðræðunum. Þær tillögur gera ráð fyrir að stuðningurinn eigngerist ekki. Kerfið hvetji til hagkvæmni í framleiðslunni, án þess þó að vera of framleiðsluhvetjandi og bjóði upp á stöðugleika í tekjustreymi, með nauðsynlegri aðlögun að nýju fyrirkomulagi. Ítarlegar umræður um tillögurnar. Framkvæmdastjóra falið að útfæra mismunandi sviðsmyndir eftir framleiðslumagni innanlands. Afurðaskýrsluhald verði skilyrði fyrir gripagreiðslum og krafa verður gerð um að gripir skili afurðum, t.d. að kýr beri með tilskildu millibili, einnig að gæðastýringargreiðslur verði hluti af gripagreiðslum. Kostnaður vegna gagnagrunnsins Huppu verði hluti af samningnum. Óframleiðslutengdur stuðningur verði með svipuðu sniði og nú er. Sótt á um fjárfestingastuðning sem komi á móti auknum kröfum um aðbúnað gripa og úreldingu básafjósa.

 

6. Samningur um starfsskilyrði nautakjötsframleiðslunnar. Formaður reifaði tillögur samninganefndar bænda að samningi um starfsskilyrði nautakjötsframleiðslunnar. Þær kveða annars vegar á um stuðning við rekstur á einangrunarstöð vegna innflutnings á erfðaefni og hins vegar um greiðslur á sláturgripi, líkt og tíðkast m.a. í Danmörku, sk. „slagtepræmie“ sem greiddar eru á kvígur sem slátrað er yngri en 16 mánaða og naut yngri en 30 mánaða.

 

7. Styrkbeiðni. Samtökunum hefur borist beiðni um styrk frá Hinu íslenska bókmenntafélagi, vegna útgáfu bókar um sláttuhætti eftir Bjarna Guðmundsson. Stjórn styrkir alla jafna ekki verkefni af þessu tagi, en í viðurkenningar- og þakklætisskyni fyrir ötul störf bókarhöfundar í þágu greinarinnar, ákveður stjórn að styrkja verkefnið um 100.000 kr.

 

8. Önnur mál.

a. Fóðurverð. Framkvæmdastjóra falið að kanna forsendur fyrir verðmyndun á kjarnfóðurmarkaði.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.05.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK