Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2015-2016

18.08.2015

Fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016, haldinn þriðjudaginn 18. ágúst 2015 kl. 10:20. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð. Gestir undir lið 2 voru Karvel L. Karvelsson, framkvæmdastjóri RML og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, fagstjóri búfjárræktar hjá RML.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og var því næst gengið til dagskrár.

 

Þetta var gert.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerð símafundar stjórnar 29. júlí var afgreidd án athugasemda. Verður hún birt á naut.is að loknum fundi.

 

2. Ráðgjöf í nautgriparækt. Karvel og Gunnfríður fóru yfir málefni nautgriparæktarinnar hjá RML, en um ellefu stöðugildi hjá fyrirtækinu eru tengd nautgriparæktinni, í gegnum kynbætur, fóðrun, jarðrækt og rekstur. Í faghópi nautgriparæktarinnar eru fjórir starfsmenn sem sinna hefðbundnum verkefnum varðandi kynbótastarfið. Fram kom að um þessar mundir eru tveir nýjir starfsmenn að hefja störf á sviði nautgriparæktar, en RML hyggst leggja aukna áherslu á ráðgjöf á sviði fóðrunar og reksturs og setja hana í forgang. Eftirspurn eftir slíkri ráðgjöf kemur að lang mestu leyti frá kúabændum. Einnig er mikilvægt að sinna endurmenntun á sviði nautgriparæktar. Um þriðjungur af tekjum fyrirtækisins er af búnaðargjaldi svo verði innheimtu þess hætt er fyrirséð að auka verður útselda vinnu enn frekar en orðið er. Mikil áhersla er einnig lögð á að halda útgjöldum í skefjum. Að mati RML eru mikil tækifæri í tekjuaukningu, t.d. í ráðgjöf varðandi bústjórn. Einnig var rætt um stöðu nautakjötsverkefnis RML en talsverður áhugi var á þátttöku í því. Færri urðu virkir þátttakendur, en liður í því var að leggja fram nauðsynleg gögn. Að mati forsvarsmanna fyrirtækisins er mikilvægt að auka þekkingu á verkefnastjórnun innan þess. Þá er skortur á starfsfólki með framhaldsmenntun, sérstaklega á sviði jarðræktar og bútækni en talsvert framboð af fólki með grunnmenntun og er það áhyggjuefni hversu fáir fara í framhaldsnám í búvísindum.

 

3. Framleiðsla og markaðsmál mjólkur. Formaður reifaði stöðu framleiðslu- og sölumála. Vikuinnvigtun mjólkur er um 13% meiri um þessar mundir en á sama tíma í fyrra,  talsvert meira en spár gerðu ráð fyrir sl. vor. Framkvæmdastjóri fór yfir upplýsingar um sæðingar og væntanlega burði, sem unnar hafa verið út úr skýrsluhaldinu og samkvæmt þeim má búast við því að framleiðslan haldi áfram að aukast næstu mánuði miðað við sama tíma í fyrra. Samkvæmt nýjasta söluyfirliti SAM er 12 mánaða sala á fitugrunni 132,3 milljónir lítra, verðhækkunin 1. ágúst hafði þó talsverð áhrif á söluna í júlí, sérstaklega á smjöri og mjólkurdufti. Sala á próteingrunni á sama tímabili er 122,3 milljónir lítra. Stjórn LK gengur út frá að staðið verði við yfirlýsingar um greiðslu á fullu afurðastöðvaverði út árið 2016. Í ljósi stöðu framleiðslu- og sölumála undanfarin misseri hafa allir hvatar sem leitt geta til aukinnar framleiðslu verið nýttirog hafa þeir skilað þeirri framleiðsluaukningu sem raunin er. Vegna misvægis á sölu fitu og próteins hafa safnast upp talsverðar birgðir á próteingrunni. Að mati stjórnar væri æskilegt að fara yfir afsetningarmöguleika þess á næstunni. Jafnframt er fyrirliggjandi að gera tillögu um greiðslumark næsta árs. Stefnt er að fundi með stjórn Auðhumlu um þessi mál, sem og stefnumörkun varðandi framleiðsluumhverfið og búvörusamninga, fyrir miðjan næsta mánuð. Í sumar var gefin út breyting á reglugerð um greiðslumarksviðskipti, þar sem heimiluð eru viðskipti framhjá tilboðsmarkaði, þegar um er að ræða jarðir í eigu sama handhafa greiðslumarks. Það er talsverð breyting frá núverandi fyrirkomulagi sem getur haft nokkur áhrif á umfang viðskipta á markaði. Rætt var um möguleika á því að fjölga markaðsdögum, m.a. með því að markaðurinn 1. nóvember n.k. verði einnig með gildistöku aðilaskipta á yfirstandandi verðlagsári en ekki því næsta eins og verið hefur.

 

4. Niðurstöður búreikninga og upplýsingar um afkomu greinarinnar. Framkvæmdastjóri reifaði helstu niðurstöður á búreikningauppgjöri Hagstofu Íslands fyrir árið 2013. Hann fór einnig yfir uppgjör LK á búreikningum fyrir árið 2014, sem samtökin hafa aflað frá bókhaldsskrifstofum búnaðarsambandanna. Stefnt er að birtingu á báðum þessum uppgjörum á naut.is innan skamms.

 

5. Verðlagsmál mjólkur. Formaður reifaði ákvörðun verðlagsnefndar um leiðréttingu á mjólkurverði þann 14. júlí sl., með gildistöku 1. ágúst. Lágmarksverð til bænda hækkaði í samræmi við mælda hækkunarþörf verðlagsgrundvallar kúabús, 1,77% og verður 84,39 kr/ltr. Heildsöluverð mjólkurafurða hækkaði jafnframt um 3,58%, nema smjör sem hækkaði um 11,6%. Nokkuð er um að bændum þyki hækkunin lítil. Ákvörðun nefndarinnar var einnig gagnrýnd mjög harðlega af aðilum í smásöluverslun, sem þó hafa hækkað verð á mjólkurafurðum á undanförnum mánuðum talsvert umfram það sem tilefni var til. Lögð var fram ályktun frá Félagi eyfirskra kúabænda, þar sem hvatt er til að LK hefji undirbúning að gerð á nýjum verðlagsgrundvelli. Það er hlutverk verðlagsnefndar að endurnýja verðlagsgrundvöllinn og er hann opinbert gagn, sem skal endurspegla rekstur á vel reknu búi af hagkvæmri stærð, eins og segir í búvörulögum. Í ályktuninni segir einnig að kjör kúabænda eigi að taka breytingum samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Stjórn áréttar að launaliður verðlagsgrundvallar tekur mið af þróun á launavísitölu, sem mælir allar breytingar á launum í samfélaginu. Stjórn minnir einnig á að minnkandi tollvernd á stórum vöruflokkum takmarkar svigrúm til hækkana á afurðaverði. Talsverðar umræður urðu um fyrirkomulag verðlagsmála, samspil þeirra við útfærslu á búvörusamningi og framtíðarskipan þessara mála. Formanni var falið að svara FEK varðandi ályktunina. Að mati stjórnar er ástæða til að formaður og framkvæmdastjóri fari ítarlega yfir stöðu verðlagsmála á haustfundum LK í október, með sérstakri áherslu á stöðu tollverndar.

 

6. Mjólkursamingur. Nefnd um endurnýjun mjólkursamings hefur störf von bráðar. Formaður vinnur að undirbúningi viðræðna, m.a. með því að fella tillögur aðalfundar LK að breyttu fyrirkomulagi inn í drög að samningstexta. Aðlögun að breyttu fyrirkomulagi gerist í gegnum tilflutning á A-greiðslum yfir í C-greiðslur á ákveðnu árabili. Aðalfundur hefur markað skýra stefnu um stækkun greinarinnar á komandi árum og mikilvægt að fylgja henni eftir í samningaviðræðunum.

 

7. Nautakjötsframleiðslan. Framkvæmdastjóri reifaði málefni nautakjötsframleiðslunnar. Framleiðsla og sala í júlí sl. var um 45% meiri en í sama mánuði fyrir ári, þar gætir án efa áhrifa verkfalls dýralækna sl. vor. Innflutningur nautgripakjöts er áfram mjög mikill og voru ríflega 300 tonn flutt inn í júní sl. Framkvæmdastjóri greindi jafnframt frá framgangi vinnu við innleiðingu á EUROP kjötmati. Rætt var um sérsamninga kjötvinnslna við bændur um kaup á holdmiklum og vel gerðum skrokkum með hæfilega fituhulu; tilvist slíkra samninga segir ákveðna sögu um ágalla núverandi matskerfis. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna hefur verið mjög fyrirferðarmikið í starfi samtakanna að undanförnu. Lagabreytingar þar að lútandi voru afgreiddar á Alþingi skömmu fyrir þinglok í sumar. Formaður og framkvæmdastjóri hafa óskað eftir fundi með ráðherra, þar sem farið verði yfir gang mála í smíði reglugerðar og hver verði næstu skref í málinu. Einnig stendur til að funda með holdanautabændum, þar sem farið verði yfir stöðu málsins. Næsta verkefni er að finna einangrunarstöðinni stað. Formaður mun fyrst kanna hug forráðamanna Búnaðarsambands Suðurlands til þess hvort Stóra-Ármót standi til boða sem einangrunarstöð, en fyrir liggur  áhugi þeirra á málinu.

 

8. Framlenging á undanþáguákvæði á 6 mánaða geymslurými haughúsa. Formaður reifaði fund hans og framkvæmdastjóra með umhverfis- og auðlindaráðherra, varðandi framlengingu á undanþáguákvæði um 6 mánaða geymslurými fyrir búfjáráburð. Ráðherra tók jákvætt í umleitanir LK um 10 ára framlengingu. Ráðuneytið telur hins vegar nokkra meinbugi á 20 ára undanþágu varðandi básafjósin. Að 10 árum liðnum verði hvert og eitt tilfelli, þar sem geymslurými er minna en 6 mánuðir, skoðað fyrir sig. Stjórn LK telur mikilvægt að hugað verði að ódýrari lausnum á geymslurými og tæknilegum útfærslum þar að lútandi. Í framhaldi af fundi með ráðherra hefur framkvæmdastjóri fylgt málinu eftir á fundi með starfsmönnum ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

 

9. Erindi Kristins Björnssonar. Tekið fyrir erindi frá Kristni Björnssyni varðandi lögfræðilega úttekt á stöðu greiðslumarkskerfisins. Að mati stjórnar eru hugmyndir um afmörkun viðfangsefnis fremur óljósar, tími fyrir skýrslugerð af þessu tagi er runninn út, auk þess sem sýnt þykir að kostnaður sé verulega vanmetinn, að svo miklu leyti sem kostnaðaráætlun er fyrir hendi. Erindinu er því hafnað.

 

10.  Önnur mál.

a. Dýralæknamál. Fréttir af veikindum kýrinnar Tíu í Grímshúsum rötuðu í fjölmiðla á dögunum, þar sem fram kom að aðgengi bænda að dýralæknaþjónustu var ekki fyrir hendi. Slíkt ástand er algerlega óviðunandi að mati LK. Snýr þetta að skiptingu vaktsvæða og þóknun fyrir vaktir. Málið verði rætt á fundi með MAST og ráðherra landbúnaðarmála.

b. Markaðssetning á innlendu kálfadufti. Framkvæmdastjóri ræði við söluaðila um öflugri framsetningu á innlendu kálfadufti.

c. Verðkannanir á búvörum erlendis. Mikilvægt er að gera reglulegar verðkannanir á búvörum í nálægum löndum en ýmsar vísbendingar eru um að verðmunur sé mun minni en ætla mætti af umræðu um matarverð.

d. Samantekt á sögu LK í tilefni af 30 ára afmæli samtakanna. Formanni og framkvæmdastjóra falið að þoka málinu áfram.

e. Fagþing 2016. Stjórnarmönnum falið að velta efnistökum fyrir sér. Lausnir á geymslurými fyrir búfjáráburð eru aðkallandi viðfangsefni, sem og fóðrunartækni. Lagt því til að ein málstofa á fagþinginu fjalli um bútækni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda