Stjórnarfundir – 07. fundur 2000/2001
27.01.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Sjöundi fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn sem símafundur laugardaginn 27. janúar 2001 og hófst hann klukkan 11:00. Á línunni voru Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á línunni Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:
1. Ákvörðun um fulltrúafund
Formaður fór yfir stöðu NRF-málsins og þær umræður sem orðið hafa um málið í fjölmiðlum á liðnum vikum. Ljóst er að mikil andstaða er komin upp í kjölfar umræðna um kúariðu og innflutning á matvælum og taldi hann mikilvægt að kalla saman fulltrúafund, sem samkvæmt 6. grein samþykkta LK skal boða til með a.m.k. 7 daga fyrirvara, til að taka ákvörðun um framhald NRF-málsins. Aðrir fundarmenn voru þessu sammála og var ákveðið að halda hann þann 6. febrúar n.k. í Reykjavík. Samþykkt var að senda eftirfarandi fréttatilkynningu til fjölmiðla:
“Stjórn Landssambands kúabænda hefur ákveðið að boða til fulltrúafundar í samræmi við ákvæði 6. greinar samþykkta Landssambands kúabænda. Megin efni fundarins verður staða og framvinda NRF-verkefnisins. Fundurinn hefst í Súlnasal Hótel Sögu kl. 11 þriðjudaginn 6. febrúar næstkomandi. Gert er ráð fyrir að fundinum ljúki síðdegis sama dag. “
2. Næstu stjórnarfundir
Næsti símafundur stjórnarinnar verður haldinn mánudaginn 29. janúar kl. 20:00 og síðan þann 5. febrúar n.k. kl. 13:00 í Bændahöllinni. Einnig var ákveðið að stjórnin heiðri veitingahúsið Argentínu fyrir störf sín og kynningu á nautakjöti á liðnum árum. Verður það gert að kveldi 5. febrúars.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 12:10
Næsti (síma)fundur haldinn 29. janúar 2001 kl. 20:00
Snorri Sigurðsson