Stjórnarfundir – 4. 2015-2016
29.07.2015
Fjórði fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016, símafundur haldinn miðvikudaginn 29. júlí 2015 kl. 21.10. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Þetta var rætt:
1. Staða framleiðslumála mjólkur. Formaður reifaði drög að bréfi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um stöðu framleiðslu- og sölumála mjólkurafurða, sem stendur til að senda bændum fljótlega. Stjórn telur mikilvægt að bændum sé haldið vel upplýstum um stöðu mála á hverjum tíma. Mikill gangur er í mjólkurframleiðslunni og er vikuinnvigtun 13-14% meiri um þessar mundir en á sama tíma í fyrra. Því er ljóst að sú birgðaaukning sem stefnt var að við ákvörðun greiðslumarks fyrir árið 2015 upp á fjórar milljónir lítra mun nást. Greiðslumark ársins 2016 mun af þeim sökum líklega dragast saman sem því nemur. Söluþróun það sem af er ári er í takt við áætlanir. Að mati stjórnar LK er nauðsynleg að setja aukinn kraft í sölustarfsemina, sérstaklega á próteinhlutanum og auka virði hans, þar sem útflutningsverð á undanrennudufti er í sögulegu lágmarki um þessar mundir. Framkvæmdastjóri fór yfir þróun í fjölda burða undanfarið ár og hefur þeim fjölgað um tæp 6% frá árinu á undan. Aukning meðalafurða samkvæmt skýrsluhaldinu er hins vegar óveruleg. Sæðingum fjölgaði mikið á síðustu mánuðum ársins 2014, sem gefur vísbendingu um að frekari framleiðsluaukning sé í pípunum. Telja má líklegt að framleiðsla ársins 2015 verði rúmlega 141 milljón lítra. Fyrir liggja yfirlýsingar afurðastöðva um greiðslu á fullu afurðastöðvaverði út árið 2016 og telur stjórn LK algert grundvallaratriði að staðið verði við þær yfirlýsingar, og því nauðsynlegt að hnykkt verði á þeim í bréfi SAM. Staðan undanfarin misseri hefur reynt talsvert á framleiðslugetu nokkurs fjölda búa, svo hluti þeirra er vafalítið tilbúinn að slaka á í framleiðslunni. Stjórn telur hins vegar ekki ástæðu til að gera breytingar á tillögu um framleiðsluskyldu í greiðslumarksreglugerð, þar sem að baki henni stendur skýr vilji aðalfundar LK. Sama á við um tíðni og fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta. Nokkur umræða var um starf verðlagsnefndar búvöru og ákvörðun um leiðréttingu á verði mjólkurafurða 18. júlí sl.
2. Styrkumsókn. Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson, sækir um stuðning við ritun matreiðslubókar, 200.000 kr. Stjórn ákveður að hafna umsókninni, í ljósi stöðu á nautakjötsmarkaði og þverrandi tekjustofna samtakanna.
3. Staða búvörusamninga. Rætt um stöðu undirbúnings að gerð búvörusamninga. Fram kom að samninganefndin er nú fullskipuð af hálfu ríkisins og því ekkert að vanbúnaði að koma þessu starfi í fullan gang strax að loknu sumarleyfi.
4. Niðurstöður búreikninga 2014. Framkvæmdastjóri reifaði stuttlega drög að yfirliti á uppgjöri um 40 búreikninga kúabænda, sem aflað hefur verið hjá bókhaldsskrifstofum búnaðarsambandanna fyrir árin 2013 og 2014, líkt og ályktun síðasta aðalfundar LK kvað á um. Helstu niðurstöður eru þær að tekjur aukast um 5% milli ára, munar þar mest um auknar tekjur af mjólkurframleiðslu, en þessi 39 bú juku framleiðsluna að meðaltali um rúmlega 20 þúsund lítra milli ára og lögðu inn að meðaltali 276.000 lítra árið 2014; það minnsta lagði inn 103 þúsund lítra, en það stærsta 731 þúsund lítra. Kjarnfóðurkaup aukast um 16% milli ára, eða um 1,60 kr/ltr. Magnaukningin er líklega nær 20%, þar sem kjarnfóður lækkaði í verði milli ára. Áburðarliðurinn lækkar um 16%. Fer saman lægra verð og minni notkun en mikil endurræktun vegna kaltjóns var 2013. Breytilegur kostnaður lækkar um 2,28 kr/ltr milli ára. Launaliðurinn hækkar um 14% milli ára, um 858 þúsund, eða 1,24 kr/ltr. EBIDTA stendur í stað milli ára, fjárfesting dregst saman en er áfram talsverð, tæplega 7 milljónir kr á bú að jafnaði. Leiðréttingar lána voru talsverðar árið 2013 en óverulegar árið 2014.
5. Staða holdanautamálsins. Alþingi samþykkti breytingar á lögum um innflutning dýra þann 1. júlí n.k. Nokkrir holdanautabændur hafa í kjölfarið haft samband við framkvæmdastjóra og spurt hver næstu skref í málinu gætu orðið. Stefnt er að fundi með þessum aðilum sem fyrst, til að fara yfir stöðu og framhald málsins.
6. Næsti reglulegi fundur stjórnar LK. Stefnt að næsta reglulega fundi stjórnar LK um miðjan ágústmánuð.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 22.50.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK