Stjórnarfundir – 3. 2015-2016
15.06.2015
Þriðji fundur stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn í Búgarði á Akureyri mánudaginn 15. júní kl. 10.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
Þetta var gert.
1. Fundargerðir síðustu funda. Fundargerðir fyrsta og annars stjórnarfundar á þessu starfsári undirritaðar, höfðu þegar verið afgreiddar og birtar á heimasíðu samtakanna.
2. Framleiðsla og sala nautgripaafurða. Samkvæmt yfirliti SAM frá í maí er sala á fitugrunni 130,3 milljónir lítra, sem er aukning um 3,3% frá fyrra ári. Sala á próteingrunni er 121,6 milljónir lítra, sem er aukning um 1% frá síðasta ári. Innvigtun mjólkur er 136 milljónir lítra, sem er 8,8% aukning frá fyrra ári. Vikuinnvigtun um þessar mundir er 4-5% meiri en á sama tíma í fyrra. Hugsanlegt að áhrif verkfalla á slátrun mjólkurkúa hafi þar áhrif til aukningar. Stjórn telur einsýnt að kjarnfóðurnotkun bænda hafi verið mjög mikil í vetur, í ljósi slakra heygæða. Hluti bænda skráir kjarnfóðurnotkun í skýrsluhaldinu, en ljóst er að þær upplýsingar eru fremur ónákvæmar. Framkvæmdastjóra var falið að afla upplýsinga frá kjarnfóðursölum um söluþróun fóðurs. Staða fóðuröflunar og veðurfarsáhrif á hana var einnig rædd en ljóst er orðið að heyskapur verður mun síðar á ferðinni í ár en undanfarin ár. Hugsanlegt að sú staða geti haft áhrif á möguleika bænda til ásetnings gripa. Framkvæmdastjóra falið að taka saman yfirlit yfir heyskaparhorfur. Slátrun hefur nær algerlega legið niðri í tvo mánuði og einsýnt að nokkurn tíma mun taka að vinna úr þeirri stöðu. Slátrun nautgripa er hafin að nýju og kjöt verður væntanlega komið í verslanir innan nokkurra daga. Stjórn telur ekki ástæðu til að ætla að staðan sem upp er komin leiði til ójafnvægis á markaði fyrir nautakjöt.
3. Áhrif verkfalla á nautgriparæktina. Verkfall BHM hefur verið stöðvað með lagasetningu Alþingis. Farið var að bera á þrengslum í fjósum upp úr síðustu mánaðamótum. Flestum undanþágubeiðnum vegna slátrunar nautgripa var hafnað. Að mati stjórnar var aðferðafræðin sem lögð var upp gagnvart alifugla- og svínarækt um undanþágur til slátrunar, óframkvæmanleg gagnvart nautgriparæktinni og hélt henni í gíslingu um afsetningu afurða. Stjórn er þeirrar skoðunar að fyrirkomulagi við heilbrigðisúttekt sláturgripa verði breytt, þannig að sú staða sem verið hefur uppi undanfarnar vikur komi ekki fyrir aftur. Matvælastofnun ber ábyrgð á eftirlitinu, en þarf hins vegar ekkert endilega að sjá um framkvæmd þess einnig. Stjórn samþykkir svofellda ályktun um málið:
Verkfalli dýralækna innan BHM sem hófst þann 20. apríl sl. er nú lokið. Vegna verkfallsins hefur slátrun nautgripa legið nær algerlega niðri í hartnær tvo mánuði. Verkfallið hefur skapað algerlega ólíðandi ástand fyrir bændur, sem hefur verið gert ókleyft að senda gripi til slátrunar, og neytendur sem ekki hafa haft aðgengi að nautgripakjöti sem daglegri neysluvöru. Landssamband kúabænda skorar á stjórnvöld að taka fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits í sláturhúsum til gagngerrar endurskoðunar, svo tryggt verði að viðlíka ástand skapist ekki framar hér á landi.
4. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „Framleiðsla mjólkurafurða á Íslandi – Staða og horfur“. Formaður reifaði skýrslu HHÍ. Skýrslan staðfestir þann árangur af því fyrirkomulagi sem stefnt var að árið 2004. Í henni er einnig að finna ýmsar gagnlegar ábendingar, en líka alvarlega galla. Að mati stjórnar hefði ráðuneytið þurft að afmarka verkefni Hagfræðistofnunar betur en gert var. Birtar hafa verið ítarlegar samantektir LK og BÍ um málið í miðlum samtakanna.
5. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um störf Verðlagsnefndar búvara. Skýrslan staðfestir að nefndin hafi unnið í anda þeirra laga sem um hana gilda. Árangur nefndarinnar er ótvíræður gagnvart þeim hlutum sem henni hefur verið ætlaður. Ráðuneytið er hins vegar átalið að hafa ekki skipað nefndina í langan tíma. Tillaga stjórnar LK er að hafa tilnefningu samtakanna óbreytta; formaður LK verði fulltrúi samtakanna í verðlagsnefnd og formaður Landssamtaka sauðfjárbænda verði varamaður hans. Stjórn samþykkir svofellda ályktun um skipan Verðlagsnefndar:
Verðlagsnefnd búvara hefur ekki verið skipuð frá 1. júlí sl., stjórn LK hefur ítrekað gert athugasemdir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna þess. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/1993 skal nefndin ætíð vera fullskipuð 1. júlí ár hvert. Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um störf verðlagsnefndar, gerir stofnunin athugasemdir við að ráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að skipa nefndina í svo langan tíma, en nefndin fundaði síðast í apríl 2014. Í sameiginlegri yfirlýsingu ASÍ og BSRB dags. 11. júní 2015 kemur fram að samtökin hafi ákveðið að tilnefna ekki fulltrúa að nýju til setu í verðlagsnefnd. Ráðherra ber að fara að gildandi lögum um skipan nefndarinnar. Stjórn Landssambands kúabænda skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa í nefndina svo fljótt sem við verður komið.
6. Staða búvörusamninga. Farið yfir stöðu málsins. Að mati stjórnar er knýjandi nauðsyn að fá fram sjónarmið fulltrúa í samninganefndinni fyrir sumarfrí, svo sumarið nýtist til mótun samningsins. Stjórn samþykkir svofellda ályktun um málið:
Vorið 2014 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp til að vinna að stefnumótun fyrir nautgriparæktina, í aðdraganda að nýjum mjólkursamningi, en núverandi samningur rennur sitt skeið 31. desember 2016. Á sama tíma var samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð skýrslu, þar sem metin yrði reynsla af núgildandi mjólkursamningi. Var vinnu við hana ætlað að ljúka síðsumars 2014. Eftir mjög langa bið er skýrsla Hagfræðistofnunar loks komin út. Hún staðfestir í öllum meginatriðum þann árangur, sem að var stefnt í hliðstæðri stefnumótun mjólkurframleiðslunnar sem gerð var árið 2004. Skýrslunni var ætlað að vera lykilgagn í störfum framangreinds stefnumörkunarhóps, en í henni er að finna ýmsar gagnlegar ábendingar inn í þá vinnu, þótt ágallar hennar séu jafnframt verulegir. Í ljósi þess að einungis 18 mánuðir eru þar til núgildandi samningur rennur út, og ekkert er að vanbúnaði til að hefja vinnu við gerð á nýjum samningi fyrir starfsskilyrði nautgriparæktarinnar, skorar stjórn Landssambands kúabænda á stjórnvöld að hefja þá vinnu þegar í stað.
7. Staða holdanautamálsins. Frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra er enn til umfjöllunar í atvinnuveganefnd Alþingis. Tími til reglugerðarsetningar er orðinn mjög naumur, ef holdanautabændum á að auðnast að fá nýtt erfðaefni á þessu ári. Framkvæmdastjóra falið að senda fyrispurn á formann atvinnuveganefndar um stöðu málsins. Stjórn samþykkir svofellda ályktun um málið:
Tæpir tveir mánuðir eru nú liðnir síðan frumvarp til breytinga á lögum nr. 54/1990 var tekið til fyrstu umræðu á Alþingi. Frumvarpið var tekið til meðferðar í atvinnuveganefnd þingsins 29. apríl. Eins og margoft hefur verið tekið fram, er þörf holdanautabænda fyrir nýtt erfðaefni orðin afar knýjandi. Til að þeir geti fengið nýtt erfðaefni á þessu ári, er mjög brýnt að niðurstaða fáist um leiðir í þeim efnum hið allra fyrsta. Stjórn Landssambands kúabænda hvetur þingheim því til að hraða afgreiðslu þessa mikilvæga framfaramáls sem nokkur kostur er.
8. Starfshópur um framtíðar fjármögnun og rekstur LK. Formaður hefur leitað til þeirra aðila sem stjórn ákvað að tilnefna til setu í hópnum og hafa þeir lýst vilja og miklum áhuga til þátttöku í starfinu. Ákveðið að formaður fylgi starfinu úr hlaði í samráði við forsvarsmenn hópsins úr hópi stjórnar. Stjórn telur afar mikilvægt að vinnan fari í gang sem fyrst.
9. Helstu atriði á síðustu fundum fagráðs í nautgriparækt. Formaður fagráðs fór yfir helstu atriði á síðustu tveimur fundum fagráðs, 20. apríl og 26. maí sl.; umsóknir í þróunarsjóð og eftirfylgni með ályktunum búnaðarþings og aðalfundar LK sem beint var til fagráðs. Einnig var farið yfir niðurstöður kynbótamats og val nauta til framhaldsnotkunar. Formaður fagráðs greindi jafnframt frá því að staðfest hefur verið að Birtingur 05043, eitt besta og mest notaða kynbótanaut síðari ára, erfir fláttu (erfðagalli sem veldur samvöxnum fram- og afturspenum). Að mati stjórnar er þetta eitt mesta áfall sem sameiginlegt ræktunarstarf nautgripa hefur orðið fyrir á síðari árum. Afar mikilvægt að málið og alvarleiki þess verði kynntur ítarlega fyrir bændum, ásamt því að brugðist verði við af festu og einurð. Jafnframt æskir stjórn LK þess að nautsmæðraskrá verði gerð opinber líkt og áður var.
10. Kynningarverkefnið Bændur segja allt gott. Ákveðið að taka þátt í verkefninu með fjárframlagi allt að 1,5 m.kr.
11. Framgangur ályktana aðalfundar 2015. Framkvæmdastjóri reifaði framgang helstu ályktana síðasta aðalfundar LK.
12. Önnur mál.
a. Verklagsreglur um nýliðunarstuðning í mjólkurframleiðslu. Fyrir dyrum stendur að auglýsa eftir umsóknum um nýliðunarstuðning. Stefnt að því að umsóknir verði á netinu og geti verið gagnvirkar, þannig að umsækjandi geti að einhverju leyti gengið úr skugga um hæfi eða ekki. Gjalddagi verði færður aftur um mánuð, til að ganga frá uppgjöri árskúagreiðslu. Að mati stjórnar eru ýmis atriði í verklagsreglunum sem þarfnast endurskoðunar.
b. Kvótamarkaður. Að mati viðskiptaaðila á kvótamarkaði krefst framkvæmdaaðili kvótamarkaðar bankatryggingar í lengri tíma en þörf krefur og of langur tími líður frá því að kaup eiga sér stað, þar til útgreiðsla beingreiðslna hefst. Samtökin ræði þessi mál við Matvælastofnun.
c. Starf stjórnar. Stjórn er sammála um nauðsyn þess að vekja athygli á fundum stjórnar LK strax í kjölfar hvers fundar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.38.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda