Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. 2015-2016

20.04.2015

Fundargerð annars fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016, haldinn á Bitruhálsi 1 mánudaginn 20. apríl 2015 kl. 11.10. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Þórólfur Ómar Óskarsson. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.

 

Formaður setti fund og var því næst gengið til dagskrár.

 

Þetta var gert.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð.

2. Framleiðslu- og markaðsmál mjólkur. Samkvæmt nýjasta söluyfirliti SAM er sala á fitugrunni komin í 130,7 milljónir lítra undanfarna 12 mánuði, það er aukning um 4,9% frá fyrra ári. Söluáætlun yfirstandandi árs gerir ráð fyrir 3,5% aukningu á fitugrunni. Sala á próteingrunni er 121,8 milljónir lítra, sem er aukning um 1,9%. Vikuinnvigtun mjólkur að undanförnu er um 5-6% meiri en á sama tíma og í fyrra. Framleiðslan 2015 stefnir í 137-8 milljónir lítra. Spár benda til að þörf markaðarins fyrir mjólkurfitu verði um 150 milljónir lítra árið 2020 og 160 milljónir lítra árið 2025. Sú framleiðsla krefst verulegrar endurnýjunar á framleiðsluaðstöðu, bæði vegna tæknilegrar úreldingar núverandi aðstöðu og aukinna krafna um aðbúnað og dýravelferð. Stjórn er kunnugt um nokkurn fjölda fjósbyggingarverkefna sem eru að hefjast. Rætt um stöðu á vinnumarkaði og hugsanleg áhrif vinnudeilna á nautgriparæktina og farið yfir minnisblað frá BÍ til atvinnuveganefndar Alþingis þar að lútandi. Að mati stjórnar hefðu áhrif verkfallsaðgerða á nautgriparæktina mátt koma skýrar fram í minnisblaðinu. Ef til þess kemur að hella þurfi niður mjólk, er tjón kúabænda um 250 milljónir króna á viku að lágmarki.

3. Staða verðlagsmála mjólkur og upplýsingar um afkomu greinarinnar. Formaður reifaði stöðu málsins og fór yfir viðræður sem átt hafa sér stað milli aðila vegna þess. Afar mikilvægt er að óvissu um stöðu nefndarinnar fari að ljúka. Framkvæmdastjóra falið að fá upplýsingar um afkomu greinarinnar frá bókhaldsskrifstofum búnaðarsambandanna, eins og ályktun aðalfundar LK kveður á um.

4. Samninganefnd vegna mjólkursamnings. Formaður reifaði hugmyndir um skipan samninganefndar vegna mjólkursamnings en ráðuneyti landbúnaðarmála hefur óskað eftir tilnefningu í nefndina hjá BÍ. Stefnt er að gerð heildarsamnings fyrir landbúnaðinn, með undirsamningum um hverja búgrein fyrir sig og markast hugmyndir að skipan nefndarinnar af því fyrirkomulagi. Að mati stjórnar er algert grundvallaratriði að LK hafi beina aðkomu að samningagerðinni.

5. Samningsmarkmið og áherslur í nýjum mjólkursamningi. Ályktun aðalfundar LK myndar grunninn að markmiðum með nýjum mjólkursamningi. Formaður fór yfir hugmyndir að verðlagningarfyrirkomulagi, bæði í innvigtun, heildsölu og vinnslu. Þær hugmyndir taka einnig á fyrirkomulagi stuðningsgreiðslna og ákvörðun greiðslumarks fyrir landið í heild. Einnig rætt um gripagreiðslur og hvernig fyrirkomulag þeirra getur stutt við fjölbreytta bústærð. Að mati stjórnar þarf að tryggja grundvöll lífrænnar framleiðslu betur en nú er raunin. Nýr samningur þarf einnig að ná til heimavinnslu nautgripaafurða. Til að kanna áhrif breytinga á fyrirkomulagi stuðningsgreiðslna telur stjórn nauðsynlegt að stilla upp nokkrum sviðsmyndum sem sýni áhrif þeirra á bú af mismunandi stærð og stöðu. Jafnframt telur stjórn mikilvægt að skilgreina hugtakið fjölskyldubú og fyrir hvað það stendur. Rætt var um útfærslu á stuðningi við nautakjötsframleiðslu. Sá stuðningur þarf að skapa hvata til betri og arðsamari framleiðslu; betri flokkunar, aukins fallþunga og styttri eldistíma. Afar mikilvægt er að sækja aukna fjármuni vegna endurnýjunar á framleiðsluaðstöðu af fullum þunga. Ný reglugerð um velferð nautgripa leggur þungar byrðar á herðar búgreinarinnar sem nauðsynlegt er að komið verði til móts við. Nauðsynlegt að fara vel yfir endurnýjunarþörf á framleiðsluaðstöðu. Að lokum var rætt um fyrirkomulag á aðlögun greinarinnar að nýju framleiðsluumhverfi; formbreytingu stuðningsgreiðslna á framleiðslu og aflagningu kvótakerfisins.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.25.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda