Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2015-2016

26.03.2015

Fyrsti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2015-2016. Haldinn á Bitruhálsi 1 í Reykjavík fimmtudaginn 26. mars 2015. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og 1. varamaður Laufey Bjarnadóttir. Þórólfur Ómar Óskarsson forfallaðist en var í síma undir lið 1-7. Gestur fundarins undir 5. lið var Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 11.10.

 

1. Verkaskipting stjórnar, tilnefningar í nefndir og ráð. Þar sem einn stjórnarmanna var fjarstaddur og tók þátt í störfum fundarins í gegnum síma, gerði formaður tillögu um að ekki yrði viðhöfð skrifleg atkvæðagreiðsla að þessu sinni og var sú tillaga samþykkt. Kosning varaformanns. Formaður gerir tillögu um Guðnýju Helgu Björnsdóttur. Tillagan samþykkt. Kosning ritara. Formaður leggur til að ritari verði framkvæmdastjóra til aðstoðar við ritun fundargerða, til að flýta vinnslu þeirra. Stjórn setur sér það markmið að fundargerðir séu birtar einni viku eftir fund. Formaður gerir tillögu um Trausta Þórisson. Sú tillaga samþykkt. Samstarfsnefnd SAM og BÍ. Formaður reifaði hlutverk nefndarinnar stuttlega og gerði tillögu um að Jóhann Nikulásson verði aðalmaður og Þórólfur Ómar Óskarsson varamaður hans. Sú tillaga samþykkt. Framkvæmdanefnd búvörusamninga. Tillaga um að formaður LK taki sæti í nefndinni. Sú tillaga samþykkt. Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Forsendur fyrir starfi nefndarinnar eru í ákveðinni óvissu í kjölfar skipulagsbreytinga innan SAM. Formaður gerir tillögu um Baldur Helga Benjamínsson sem fulltrúa LK í nefndinni. Sú tillaga samþykkt. Að mati stjórnar er ekki tímabært að svo komnu að tilnefna að nýju í verðlagsnefnd búvara,  þar sem tilnefning síðasta árs heldur gildi sínu fram á mitt þetta ár. Kjör til fagráðs í nautgriparækt fylgir stjórnarkjöri í BÍ, á þeim vettvangi verður kosið að nýju næsta vetur, þannig að skipan fulltrúa LK er óbreytt fram að því.

 

2. Aðalfundur LK og fagþing nautgriparæktarinnar, aðdragandi og framkvæmd. Að mati stjórnar tókst framkvæmdin í heild sinni vel. Það sem betur hefði mátt fara voru bókanir á gistingu og afgreiðsla mála fyrir aðalfund, en hvort tveggja hefði þurft að vera fyrr á ferðinni en raunin varð. Nokkrar umræður urðu um tímasetningu fagþingsins, en núverandi fyrirkomulag slítur fundinn nokkuð í sundur og bitnaði það á umræðum um skýrslu stjórnar. Þá umræðu (um skýrslu stjórnar) þarf að taka í einu lagi að mati stjórnar. Þá voru mjög umfangsmikil grundvallarmál á dagskrá fundarins sem kröfðust mikillar umræðu og voru fundarstörf því undir talsverðri tímapressu. Fundurinn afgreiddi 27 tillögur og að mati stjórnar er afgreiðsla þeirra heilt yfir vönduð. Stjórn LK metur það sem svo að kostir þess að fundurinn standi í tvo daga, frekar en þrjá, vegi þyngra en gallarnir en hver fundardagur til viðbótar kostar háar fjárhæðir.

 

3. Árshátíð. Árshátíð hefur verið á ábyrgð og hendi LK í rúmlega áratug. Upphaf hennar má rekja til ársins 2001, þegar Félag kúabænda á Suðurlandi stóð fyrir árshátíð félagsmanna. Árshátíðin var afhent LK árið 2002 er hún var haldin í Reykjavík en aðalfundur það ár var haldinn í Dölum. Núverandi skipulag hefur verið við lýði frá árinu 2003. Árshátíðin hefur verið haldin til skiptis á Selfossi, Reykjavík og Akureyri, fyrir utan eitt skipti á Egilsstöðum. Að mati stjórnar LK er mikilvægt að grunneiningar samtakanna hafi veg og vanda af árshátíðinni og að vilji sé meðal félagsmanna að hún sé haldin. Stjórn telur árshátíðina mikilvægan hlekk í innri markaðssetningu samtakanna gagnvart félagsmönnum og hún eigi talsverðan þátt í að efla tengsl á milli þeirra. Ákveðið var að gera könnun meðal aðildarfélaganna um staðsetningu og framkvæmd árshátíðar á næstu árum.

 

4. Næsti aðalfundur, fagþing og árshátíð – 30 ára afmæli Landssambands kúabænda 2016. Ákveðið að næsti aðalfundur og fagþing LK verði haldinn fimmtudaginn 31. mars og föstudaginn 1. apríl 2016. Vegleg 30 ára afmælis- og árshátíð verði laugardaginn 2. apríl, en 30 ára afmæli samtakanna ber upp á 4. apríl 2016. Ákveðið að fundurinn og afmælishátíðin verði haldin í Reykjavík og í ljósi fyrri reynslu verði leitað fanga varðandi aðstöðu hið allra fyrsta. Framkvæmdastjóra falið að ganga frá því. Í nýútkominni Landbúnaðarsögu Íslands er hlutur búgreinafélaga fremur rýr, sem verður að teljast all sérstakt í ljósi mikilvægis og áhrifa þeirra á þróun íslensks landbúnaðar síðustu áratugi. Komandi tímamót gefa tilefni til að bæta þar úr og taka saman yfirlit yfir sögu samtakanna og verði gefin út í tímaritsformi. Afmælisverkefninu er markaður 2 m.kr. fjárhagsrammi í fjárhagsáætlun 2015. Markhópur er félagsmenn samtakanna og annað áhugafólk um málefni greinarinnar. Slík samantekt nýtist einnig sem kynningarefni fyrir samtökin í kjölfarið. Mikilvægt er að halda viðhorfum félagsmanna til haga og skal framsetning vera hnitmiðuð, þar sem stiklað verði á stóru í sögu samtakanna. Formanni falið að kanna hug Þórólfs Sveinssonar til verksins og mögulegan kostnað við það.

 

5. Framleiðsla og sala mjólkurafurða. Síðustu tölur SAM sýna fallandi vöxt í bæði framleiðslu og sölu. Fitueftirspurnin hefur farið vaxandi frá 2004. Fram til 2011 er hún drifin áfram af osti, einkum rifosti. Frá 2012 er hún drifin áfram af smjöri og rjóma. Aukningin 2013-2014 er þreföld til fjórföld fjölgun neytenda og ferðamanna. Söluspár næstu ára miðast eingöngu við fjölgun íbúa og ferðamanna . Áætluð sala 2015 er 136-7 milljónir lítra af fitu. Þar við bætist nauðsynleg birgðaaukning upp á ca. 4 milljónir lítra. Sala mjólkurafurða var undir áætlun fyrstu tvo mánuði ársins 2015, en talsvert yfir áætlun í mars, þannig að fyrstu þrír mánuðirnir eru í samræmi við áætlanir. Kostnaður við afsetningu umframpróteins verður verulegur næstu misseri. Flest bendir hins vegar til þess að hráefnisþörfin verði 150 milljónir lítra á fitugrunni árið 2020. Verið er að meta framleiðslugetuna inn í framtíðina en ljóst er að básafjöldinn fer að verða takmarkandi þáttur. Fituinnihald innleggsmjólkur er mun sveiflukenndara en próteininnihaldið og kallar sú staðreynd á meira birgðahald í þeim efnaþætti. Miðað við núverandi stöðu, eru ekki horfur á mikilli aukningu greiðslumarks á komandi ári. Eitt meginviðfang mjólkuriðnaðarins núna er að auka  útflutning próteins á formi skyrs. Sala í Sviss er að aukast og þann 1. apríl n.k. fjölgar sölustöðum úr 120 í 240. Einnig er verið að vinna í að koma skyri í skemmtiferðaskipin sem hingað koma – þau eru hins vegar erfiður markaður. Sama gildir um flugvélar í millilandaflugi. Undir þessum lið var einnig rætt um merkingar á búum í mjólkurframleiðslu. Einnig var komið inn á hugsanleg áhrif kjaradeilna á vinnumarkaði. Þau ættu að verða minniháttar í apríl, en gætu orðið mjög veruleg í maí. Þá ítrekar stjórn það sjónarmið að breyta eigi framsetningu á innvigtun mjólkur, sem verði á stöðluðu formi eins og gerist með sölu mjólkurafurða. Jafnframt var það sjónarmið ítrekað, að enn er ástæða til að hvetja bændur til frekari aukningar framleiðslu. Einnig var farið yfir samfélagsumræðu um merkingar mjólkurafurða og sykurnotkun, en um 3% af sykurnotkun landsmanna á uppruna sinn í mjólkurafurðum. Í lok umræðu undir þessum lið var farið yfir stöðu búvörusamninga, en árið 2016 markar upptakt og aðlögun að nýjum samningi. Ákveðið að ná betur utan um básafjölda og kúafjölda í einstöku fjósum og hvetja til uppfærslu á þessum upplýsingum í skýrsluhaldskerfi nautgriparæktarinnar.

 

6.      Úrvinnsla ályktana aðalfundar LK 2015.

a. Breytingar á samþykktum. Er komið til framkvæmda.

b. Aðalfundargögn. Brýning til stjórnar.

c. Ljósleiðaravæðing. Senda IRR (Innanríkisráðuneyti), Fjárlaganefnd, starfshópi IRR um landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða og Samtökum sveitarfélaga.

d. Vinnueftirlit. Senda Vinnueftirlitinu og IRR. Hitta aðila frá Vinnueftirlitinu. Athuga með tíðni skoðunar á vinnuvélum.

e. Neytendamerkingar á nautgripakjöti. Breytingar á fánalögum liggja fyrir Alþingi. Bæklingi um upprunamerkingar var dreift á Búnaðarþingi. Málið verði kannað af stjórn.

f. Flutningur gripa milli varnarhólfa. Byggir á áhættumati varðandi garnaveiki frá 2008. Ræða við MAST. Fylgja eftir ályktun Búnaðarþings um málið.

g. Geymslurými fyrir búfjáráburð. Send UMR. Fá fund með umhverfisráðherra hið allra fyrsta um málið.

h. Fjármögnun og rekstur LK til framtíðar. Stofnaður verði starfshópur um málið sem skili tillögum fyrir haustið. Fulltrúar stjórnar verði Jóhann og Þórólfur Ómar. Leitað verði til eftirtalina aðila til sem fulltrúa í starfshópnum. Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð, Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ, Steinþór Heiðarsson, Ytri-Tungu, Guðrún Eik Skúladóttir, Tannstaðabakka og Pétur Diðriksson, Helgavatni. Formaður ræði við þessa einstaklinga um verkefnið og upplýsi stjórn um framgang þess. Mikilvægt að hópurinn geti farið að vinna eftir páska og að verkefnið verði unnið í samvinnu við stjórn.

i. Nautastöð. Málið verði hvílt um sinn. Fagráð fari yfir val nautkálfa og skipulag ræktunarstarfsins. Verkefni Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands og aðkoma félagsins að hugsanlegum innflutningi á erfðaefni holdanautastofna verið skoðuð með hliðsjón af stöðu málsins.

j. Endurskoðun búfræðináms. Send LbhÍ og MMR (mennta- og menningarmálaráðuneyti). Málið hefur verið rætt við forsvarsmenn Landbúnaðarháskólans. Framkvæmdastjóri LK er í starfshópi um endurskoðun á námsskrá búfræðináms.

k. Fóðurleiðbeiningar. Aðgengi bænda að forritum á að vera jafnt í ljósi þess að greinin hefur fjármagnað þróun Norforkerfisins. Tillagan send RML og í kjölfarið fundur með nýjum formanni stjórnar.

l. Viðurkenningar til kúabænda. Ákveðið að Trausti taki að sér að fylgja málinu eftir.

m. Samráðsvettvangur um aðbúnað og velferð nautgripa. Formaður og varaformaður fylgi málinu eftir við viðkomandi aðila.

n. Dýralæknaþjónusta. Send ANR og MAST og verði málinu fylgt eftir við þessa aðila.

o. Dýralæknamál. Málið verði rætt við DÍ og því aflað fylgis innan þess.

p. Rannsóknir í nautgriparækt. Staða málaflokksins er mjög alvarleg. Getur greinin tekið meira frumkvæði í málinu í samstarfi við afurðageirann og öflugri búnaðarsambönd um praktískar rannsóknir? Fjöldi bænda er að gera ýmsar athuganir, hver í sínu horni. Er hér um að ræða verkefni fyrir Nautís? Formaður fylgi málinu eftir.

q. Staða nautgriparæktar. Send LbhÍ og MMR. Á að gefa út kennslubók á íslensku í nautgriparækt?

r. Ræktunarstarf og kynbætur. Send Fagráði. Málinu verði fylgt eftir á þeim vettvangi.

s. Upplýsingar um úrval nauta í kútum sæðingamanna. Send Fagráði, sæðingastöðvum og Nautastöð BÍ.

t. Nautakjötsframleiðsla og holdanautastofnar. Formaður reifaði stöðu málsins og smíði reglugerðar um innflutt erfðaefni. Send BÍ og ANR. LK skilar tillögu að reglugerð 1. apríl.

u. Verðlagning mjólkur. Send ANR. Málinu verði fylgt eftir á fundi með ráðherra.

v. Áherslur og samningsmarkmið búvörusaminga. Ákveðið að taka þessa tillögu fyrir á sérstökum fundi stjórnar sem haldinn verði bráðlega. Mikilvægt að þessi vinna fari í gang sem fyrst.

w. Uppfylling á þörfum markaðarins. Bændur verði áfram hvattir til dáða í þessum efnum, með þeim ráðum sem tiltæk eru.

x. Fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta. Send ANR. Málinu verði fylgt eftir á fundi með ráðherra.

y. Beingreiðslur og gæðastýringargreiðslur. Send ANR. Málinu verði fylgt eftir á fundi með ráðherra.

z. Hagtölusöfnun nautgriparæktarinnar. Málið verði tekið föstum tökum nú þegar þannig að niðurstöður geti borist í maí. Formaður og framkvæmdastjóri fylgi málinu eftir. Hugað verði að landfræðilegri dreifingu búanna eins og kostur er.

aa.  Nýting búnaðargjalds í þágu einstakra búgreina. Send RML. Málinu verði fylgt eftir í viðræðum við nýjan stjórnarformann RML.

 

7. Önnur mál.

a. Áherslur í ræktunarstarfi. Á að taka kálfa undan hyrndum kúm? Verður tekið til umræðu á vettvangi Fagráðs í tengslum við endurskoðun ræktunarmarkmiða.

b. Morgunverðarfundur Viðskiptaráðs um landbúnaðarmál. Ástæða til að samtök bænda hafi frumkvæði að hliðstæðum fundahöldum um málefni og framtíð greinarinnar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.55.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda