Beint í efni

Stjórnarfundir – 14. 2014-2015

09.03.2015

Fundargerð fjórtánda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Fundur haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík, mánudaginn 9. mars 2015 kl. 11.20. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.

 

1. Fundargerðir síðustu funda. Afgreiddar og undirritaðar. Verða birtar á naut.is að loknum fundi.

 

2. Kaup Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands á Nautastöð BÍ. Formaður reifaði stöðu málsins og ályktun búnaðarþings um það. Málið er nú hjá stjórn BÍ, ekki liggur fyrir hvernig hún hyggst afgreiða málið frá sér en von er á tillögu frá BÍ til aðalfundar LK. Formaður mælir með að tillaga stjórnar LK fari fyrir starfsnefnd sem afgreiðir fjárhagsáætlun. Að mati formanns er staða málsins í mikilli óvissu eftir afgreiðslu búnaðarþings. Stjórn telur mikilvægt að skerpt verði á tilgangi og hlutverki Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands, fari svo að samningar náist ekki við BÍ um kaup á Nautastöðinni. Að mati stjórnar er æskilegt að félagið komi að stefnumörkun í rannsóknum í nautgriparækt og leiti eftir samstarfsaðilum á því sviði.

 

3. Staða holdanautamálsins. Formaður fór yfir stöðu málsins. Skýrar línur eru komnar fram varðandi þær áherslur sem lagt er til að unnið verði eftir. Grundvallarágreiningur er innan starfshópsins um leiðir við innflutning erfðaefnis nautgripa.

 

4. Búnaðarþing 2015. Farið yfir helstu atriði á nýafstöðnu búnaðarþingi. Stjórn telur mikilvægt að LK fái aðkomu að endurskoðun á vörnum gegn garnaveiki. Tillögur félagskerfishóps um samþykktabreytingar og veltutengt félagsgjald voru afgreiddar. Við afgreiðslu málsins í starfsnefnd þingsins kom fram hjá forsvarsmönnum Samtaka iðnaðarins sem mættu á fund nefndarinnar, að niðurfelling iðnaðarmálagjalds hafi í raun verið til bóta; samtökin hafi breyst til hins betra og orðið mun stefnumiðaðri en áður. Ítrekar nauðsyn þess að samtökin starfi í samræmi við vilja félagsmanna á hverjum tíma. Þingið samþykkti tillögu LK um búnaðargjald; verði breytingar á innheimtu og ráðstöfun þess munu allir þiggjendur sitja við sama borð og settur verði upp búgreinaskiptur sjóður. Sú er þá orðin stefna BÍ. Að mati stjórnar LK er ályktun um búvörusamninga er mjög góð og hafa BÍ unnið gott starf í undirbúningi hennar. Frávísunartillaga á drög að tillögu um áframhaldandi söluferli á Hótel Sögu vekur athygli. Að mati stjórnar er mikilvægt að stjórn BÍ fylgi máli nr. 15 um tækifæri í búvöruframleiðslu fast eftir. Einnig rætt um ályktun varðandi búnaðarstofu og stjórnsýslulega staðsetningu hennar. Stjórn LK leggur þunga áherslu á að vinna við endurnýjun búvörusamninga fari af stað sem allra fyrst.        

5. 30 ára afmæli Landssambands kúabænda 2016. Þann 4. apríl 2016 verða liðin 30 ár frá stofnun Landssambands kúabænda. Verkefni nýrrar stjórnar er að halda á því máli. Rætt um tillögu stjórnar til aðalfundar um málið. Í nýlega útkominni Landbúnaðarsögu Íslands er þætti búgreinafélaganna í umróti undanfarinna þriggja áratuga ekki getið með nokkrum hætti. Að mati stjórnar er afar mikilvægt að halda sögunni til haga og nýta þessi tímamót til þess með einhverjum hætti.

 

6. Ársreikningur LK 2014. Ársreikningur lagður fram og kynntur. Afkoma jákvæð um 14.495.135 kr. Eigið fé samtakanna 31.12.2014 er 63.413.556 kr. Stjórn samþykkir reikninginn fyrir sitt leyti.

 

7. Fjárhagsáætlun LK 2015. Farið yfir helstu atriði fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015. Gera þarf ráð fyrir kostnaði vegna undirbúnings 30 ára afmælishátíðar. Einnig er nauðsynlegt að fara yfir vilja aðalfundar varðandi kynningarverkefni BÍ „Bændur segja allt gott“. Þá er verkefninu „Betri bústjórn“ enn ólokið, en LK hefur þegar gefið vilyrði fyrir stuðningi upp á 1.000.000 kr. Stuðningur styrktaraðila við fagþing 2015 nemur um 200.000 kr. Þá hefur Framleiðnisjóður gefið vilyrði fyrir stuðningi við útgáfi fræðslurits um burð og burðarhjálp upp á 535.000 kr. Einnig þarf að gera ráð fyrir mögulegum kostnaði vegna fulltrúafundar næsta haust, sem myndi afgreiða tillögur um skipulag og fjármögnun samtakanna í framtíðinni. Fjárhagsáætlun afgreidd svo breytt af hálfu stjórnar.

 

8. Aðalfundur Landssambands kúabænda 2015. Búið er að ráða helstu starfsmenn fundarins og gera tillögur að formönnum nefnda og riturum þeirra. Ákveðið að Guðný Helga og Jóhann Nikulásson geri tillögur að nefndaskipan og skipan mála til starfsnefnda. Jafnframt ákveðið að Guðný Helga stýri fagþingi. Fram kom að allir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en á fundinum er kosið í eftirtalin embætti:

a.       Formaður.

b.      4 stjórnarmenn.

c.       4 fulltrúar á búnaðarþing (formaður er sjálfkjörinn sem búnaðarþingsfulltrúi).

d.      5 varafulltrúar á búnaðarþing.

e.       2 skoðunarmenn reikninga.

f.       1 vara skoðunarmaður reikninga.

 

9. Önnur mál

a. Árshátíð. Framkvæmdastjóra falið að hafa samband við ræðumann á árshátíð.

b. Fjármögnun í landbúnaði. Ræða við lífeyrissjóði og banka um nýjar leiðir í þessum málum. Er skuldabréfaútboð valkostur fyrir kúabændur?

c. Staða framleiðslu og sölu. Að mati stjórnar LK er þörf á frekari samræmingu í framsetningu framleiðslu- og sölu í skýrslum SAM. Æskilegt væri að framsetningin miðaðist við staðlað efnainnihald mjólkur.

d. Staða afkomumála. Staða afkomumála kúabænda rædd, en framkvæmdastjóri hefur haft samband við bókhaldsskrifstofur búnaðarsambanda til að fá drög að afkomutölum fyrir árið 2014.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.50

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda