Stjórnarfundir – 12. 2014-2015
24.02.2015
Fundargerð tólfta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Haldinn á Hvanneyri þriðjudaginn 24. febrúar 2015 kl. 11.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Jóhann Gísli Jóhannsson forfallaðist vegna veðurs og ófærðar en var í síma undir lið 2 til 10. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri. Gestir fundarins undir lið 1 voru Björn Þorsteinsson, rektor, Áslaug Helgadóttir og Jón Hallsteinn Hallsson.
1. Kennsla og rannsóknarstarf í nautgriparækt. Fundur með forsvarsmönnum LbhÍ. Formaður reifaði sjónarmið samtakanna varðandi stöðu rannsókna- og kennslumála í nautgriparækt. Í máli forsvarsmanna skólans kom fram að fjárframlög hafa dregist saman um nærri þriðjung á undanförnum áratug. Sá samdráttur hefur mest bitnað á mannahaldi stoðsviða og þætti rannsókna. Eigið fé stofnunarinnar er einnig verulega neikvætt. Fram komu áhyggjur hjá stjórn LK af stöðu rannsókna í nautgriparækt og forgangsröðun fjármuna sem skólinn viðhefur. Fram kom að rannsókn á Stóra-Ármóti um fituinnihald í mjólk fór ekki af stað vegna skorts á mannafla, jafnframt liggur fyrir að mikið er tiltækt af heimildum um áhrif fóðrunar á efnainnihald mjólkur, sem ástæða er til að verði kannaðar frekar. Þeim möguleika velt upp hvort unnt væri að búa til doktorsverkefni um slíka rannsókn, það myndi gefa af sér bæði nýjar upplýsingar og nýtt rannsóknafólk, sem mikil þörf er á. Á fundinum var farið stuttlega yfir samstarfssamning RML og skólans um aðgengi að fagþekkingu og kennslukröftum og farið yfir skipan og hlutverk fagráðs í nautgriparækt. Einnig var farið yfir hina miklu gerjun sem á sér stað í háskólasamfélaginu; hugmyndir um sameiningu stofnana, breytingar á rekstrarformi og upptöku skólagjalda. Fram kom að ekki er einhugur meðal bænda um afstöðu samtaka bænda varðandi framangreind mál. Þá var fjallað um umfang og úthlutun rannsóknastyrkja og aukna samkeppni um náms- og rannsóknafólk, sem er fyrirsjáanleg. Undir lok þessa liðar kom LK því sjónarmiði samtakanna á framfæri að gagnagrunnur vegna fóðurefnagreininga sem byggst hefur upp í áranna rás, verði aðgengilegur fyrir þá aðila sem hyggjast stunda slíkar greiningar.
2. Fundagerð síðasta fundar. Fundargerðin afgreidd án athugasemda, verður birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.
3. Kaup Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands á Nautastöð BÍ. Formaður fór yfir stöðu málsins. Samningaviðræðum er enn ekki lokið og standa einkum þrjú atriði útaf: 1. Rekstrarafgangur nautastöðvarinnar var talsverður á sl. ári. Hluti hans var greiddur inn á lán BÍ til stöðvarinnar og hefur skuldastaðan batnað sem því nemur. Lagt hefur verið til að innágreiðslan stækki eignarhlut BÍ í félaginu um 6,5 milljónir kr. 2. Ekki hefur tekist að ljúka samstarfssamningi NautÍs og RML. 3. Enn er rætt um orðalag bókunar vegna sæðingastarfseminnar. Formenn LK og BÍ stefna að fundi miðvikudaginn 25. febrúar, þar sem freistað verður að ná loka niðurstöðu í málinu fyrir Búnaðarþing.
4. Fundur samráðshóps um kynningarmál. Formaður fór yfir helstu atriði sem fram komu á fundinum. Þar var rædd hugmynd að kynningarverkefninu „Bændur segja allt gott“ sem er í vinnslu hjá útgáfu- og kynningarsviði BÍ og er verkefninu ætlað að ná frá miðju ári 2015 fram á mitt ár 2016. Hugmyndin er að draga fram margvíslega skírskotun landbúnaðar og bænda. Drög að kostnaðaráætlun eru upp á 19 milljónir kr. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að aðalfundur LK taki afstöðu til verkefnisins; hvort og þá í hvaða mæli samtökin eru tilbúin til að taka þátt í því, bæði hvað varðar áherslur og kostnað. Samstarf við afurðastöðvar bænda er lykilatriði. Í markaðsstarfi afurðastöðvanna er sífellt aukin áhersla lögð á tengsl þeirra við bændur. Vilji stjórnar LK stendur til að halda áfram að þróa verkefnið, þó er grundvallaratriði að niðurstaða fáist í fjármögnun samtaka bænda í framtíðinni, til að ljóst verði hvaða bolmagn þau muni hafa til að standa í verkefnum af þessu tagi.
5. Tilnefning í samráðshóp um EUROP kjötmat. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hefur falið Matvælastofnun að innleiða EUROP mat á nautgripakjöti hér á landi fyrir árslok 2015. Af því tilefni hefur verið settur á fót samráðshópur um verkefnið og hefur MAST óskað eftir að LK tilnefni fulltrúa í hópinn. Stjórn ákveður að tilnefnda framkvæmdastjóra LK til setu í starfshópnum. MAST mun greiða ferðakostnað fulltrúa í starfshópnum. Auk MAST og LK eiga Landssamtök sláturleyfishafa, Matís ohf og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins fulltrúa í starfshópnum
6. Staða mála frá aðalfundi LK 2014. Farið yfir stöðu og framgang ályktana aðalfundar LK 2014.
7. Aðalfundur LK 2015. Farið yfir helstu atriði er varða undirbúning aðalfundar. Fulltrúakjör allra aðildarfélaga liggur nú fyrir, framkvæmdastjóra falið að kanna kjörgengi fulltrúa með tilliti til ákvæða samþykkta LK. Gerð tillaga að starfsmönnum fundar, formönnum og riturum starfsnefnda og framkvæmastjóra falið að hafa samband við þessa aðila. Þá hefur Helgi Eyleifur Þorvaldsson óskað eftir að vera með stutt innlegg á aðalfundi um markaðssetningu á mjólkurafurðum erlendis. Stjórn leggur til að aðalfundur taki afstöðu til slíkrar beiðni.
8. Styrkbeiðni frá ÍNN. Sjónvarpsstöðin ÍNN óskar eftir stuðningi frá LK við gerð sjónvarpsþátta um landbúnað. Stjórn tekur ekki afstöðu til erindisins í ljósi þess að fjárhagsáætlun ársins 2015 liggur ekki fyrir. Framkvæmdastjóra falið að ræða við forsvarsmenn stöðvarinnar um kynningarstarf og aðkomu afurðastöðva í framtíðinni.
9. Styrkbeiðni vegna nautakjöts við setningu Búnaðarþings. Stjórn tekur ekki afstöðu til erindisins í ljósi þess að fjárhagsáætlun ársins 2015 liggur ekki fyrir.
10. Önnur mál.
a. Verkfærið „Betri bústjórn“ hefur verið í smíðum um langt skeið. Framkvæmdastjóra falið að kanna hvar það verkefni stendur.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.02.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK