Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Stjórnarfundir – 11. 2014-2015

19.01.2015

Fundargerð ellefta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Fundur haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík mánudaginn 19. janúar 2015 kl. 11.25. Mætt voru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Guðrún Sigurjónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúi LK. Að auki höfðu Laufey Bjarnadóttir, fyrsti varamaður í stjórn LK og Jóhannes Jónsson búnaðarþingsfulltrúi LK verið boðuð á fundinn en þau komust ekki vegna veðurs og ófærðar.

 

Formaður setti fund og gekk því næst til dagskrár.

 

  1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerðin afgreidd og undirrituð. Verður birt á naut.is að loknum fundi.

 

  1. Staða samninga og fjármögnunar vegna kaupa á Nautastöð BÍ. Formaður reifaði málið og hugsanlega aðkomu annarra aðila, Auðhumlu og BÍ, að verkefninu. Tillaga síðasta aðalfundar LK fól stjórn að undirbúa málið en setti því ekki fjárhagsramma. Ákveðið að leggja málið fyrir aðalfund LK sem taki afstöðu til fjármögnunar verkefnisins. Í undirbúningi eru hugmyndir að breytingum á verkaskiptasamningi LK og BÍ, auk samstarfssamnings milli Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands (NautÍs) og RML. Þar er stefnt að aukinni ábyrgð og aðkomu greinarinnar sjálfrar að kynbótastarfinu. Einnig er stefnt að því að minnka skuldabyrði stöðvarinnar til að létta á rekstri hennar, þannig að unnt verði að fara í nauðsynlega endurnýjun á tækjabúnaði og gera stöðina enn betur í stakk búna til að takast á við framtíðina.

 

  1. Búnaðarþing 2015. Formaður ræddi tillögur félagskerfisnefndar BÍ. Fulltrúafjöldi á búnaðarþingi getur tekið miklum breytingum, þegar reyna fer á hversu margir greiða aðildargjaldið. Þessar tillögur eru lagðar fram sem málamiðlun breytilegra sjónarmiða um uppbyggingu Bændasamtakanna og hugsaðar til þess að tryggja samstöðu um BÍ við breyttar aðstæður. Aldrei má missa sjónar á því megin hlutverki samtaka bænda, að standa vörð um afkomu þeirra sem greinina stunda. Engar tillögur komnar fram til búnaðarþings frá LK enda liggja flest þau mál sem samtökin varða þegar fyrir þinginu.

 

  1. Kostnaðarskipting vegna félagskerfisnefndar BÍ. Formaður lagði fram tillögu um kostnaðarskiptingu milli BÍ og aðildarfélaga vegna starfs félagskerfisnefndar. Heildarkostnaður vegna nefndarinnar er tæplega 2,7 milljónir kr. Samkvæmt tillögunni er gert ráð fyrir að BÍ greiði helming kostnaðarins, búnaðarsamböndin fjórðung, búgreinafélögin fjórðung og er hlutdeild Landssambands kúabænda alls 264.406 kr. Stjórn samþykkir tillöguna.

 

  1. Vinna starfshóps um innflutning erfðaefnis holdanautagripa og útbúnað einangrunarstöðva. Formaður reifaði málið og fór yfir starf hópsins, sem er komið á nokkurn rekspöl. Málið bar einnig á góma á fundi með ráðherra 12. janúar sl. Þar kom fram að málið er í forgangi hjá ráðherra landbúnaðarmála.

 

  1. Stefnumótun í nautgriparækt, áherslur LK. Staða málsins var rædd á framangreindum fundi með ráðherra. Ekki hefur verið haldinn fundur í stefnumörkunarhópnum síðan í nóvember 2014. Skýrsla Hagfræðistofnunar ekki tilbúin enn og óljóst hvenær hún verður birt. Skipan fulltrúa vinnumarkaðarins í verðlagsnefnd snýr einnig að skýrslu Hagfræðistofnunar. Að mati LK er mikilvægt að áhrif þess að greiða eitt verð fyrir alla mjólk verði metin og aðalfundur taki afstöðu til málsins. Einnig er mikilvægt að setja upp líkan um mismunandi útfærslur á opinberum stuðningi og áhrif þeirra á hag greinarinnar.

 

  1. Félagsuppbygging og rekstur LK eftir niðurlagningu búnaðargjalds. Félagsleg uppbygging Landssambands kúabænda er fremur einföld: Samtökin samanstanda af svæðisskiptum aðildarfélögum kúabænda. Félagsgjöldin eru flóknara mál; innheimta veltutengdra félagsgjalda er mjög snúin í framkvæmd. Til muna einfaldara að hafa eitt aðildargjald, þrátt fyrir allt er töluverð einsleitni innan greinarinnar. Stjórn LK hyggst nýta gögn úr viðhorfskönnun varðandi greiðsluvilja félagsmanna og byggja tillögur um framtíðar fyrirkomulag á fjármögnun samtakanna á þeim.

 

  1. Aðalfundur LK og Fagþing nautgriparæktarinnar 12. og 13. mars n.k. Farið yfir drög að dagskrá og skipulagi fundanna.

 

  1. Ímyndar og kynningarmál, samningur við Aton. Formaður reifaði niðurstöðu fundar með BÍ um málið. Hugsað sem þriggja mánaða verkefni LK og BÍ. Formaður gerir tillögu um að þar verði látið staðar numið. Stjórn samþykkir tillöguna.

 

  1. Tilnefning fulltrúa LK í stjórn SAM. LK hefur rétt á að tilnefna fulltrúa í stjórn SAM fyrir 1. febrúar. Núverandi skipan er að Sigurður Loftsson er fulltrúi LK í stjórn SAM og Jóhann Nikulásson er varamaður hans. Stjórn samþykkir að halda þeirri skipan óbreyttri.

 

  1. Rannsóknastarf í nautgriparækt. Að mati stjórnar LK er staða málaflokksins alvarleg, t.d. er enginn starfsmaður LbhÍ ábyrgur fyrir stjórnun tilrauna á Stóra-Ármóti. Rannsóknaverkefni um efnainnihald mjólkur, með áherslu á fitu, sem fagráð hafði mælt með styrk til upp á 5 m.kr. úr þróunarsjóði nautgriparæktar, fer ekki af stað í vetur, sakir skorts á mannafla. Endurnýjun mannafla í landbúnaðarrannsóknum er sáralítil og slíkt er greininni mikið áhyggjuefni. Stjórn lýsir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem tilraunastarfsemi nautgriparæktarinnar er í og telur brýnt að aðalfundur láti málið til sín taka. Lagt til að næsti stjórnarfundur verði haldinn á Hvanneyri og fundað verði þá með yfirstjórn Landbúnaðarháskólans um framtíð rannsóknastarfs í landbúnaði. Jafnframt verði heimboð Landbúnaðarsafnsins til stjórnar LK þegið við þetta tækifæri.

 

  1. Upplýsingaöflun vegna kjötsölu á smásölumarkaði – erindi LS. Stjórn ákveður að hafna erindinu.

 

  1. Samanburður á rýrnun íslensks og innflutts hakks – erindi MATÍS. Stjórn ákveður að hafna erindinu.

 

  1. Önnur mál.

 

A. Tillaga til þingsályktunar um innflutning erfðaefnis í mjólkurkúastofninn. Óskað var upplýsinga hjá LK við undirbúning tillögunnar og voru þær veittar, aðra aðkomu hafa samtökin ekki haft að málinu. Mikilvægt að fara yfir hugsanlegt samspil þessa máls og fyrirhugaðra lagabreytinga vegna endurnýjunar á erfðaefni holdanautastofnanna með flutningsmönnum tillögunnar.

B. Áburðarmál. Framkvæmdastjóra falið að fara yfir verðþróun áburðar og samanburð á áburðarverði við nágrannalöndin.

C. Námskeið fyrir frjótækna. Framkvæmdastjóra falið að huga að fyrirkomulagi á námskeiðum fyrir frjótækna. Stjórn vill að kannað verði hvort bóklegur hluti námskeiðanna geti staði til boða í fjarnámi. Þar sem sæðingastarfsemin er einn af hornsteinum kynbótastarfsins, er að mati stjórnar LK mikilvægt að greinin láti sig þessi mál varða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.05

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda