Stjórnarfundir – 10. 2014-2015
18.12.2014
Fundargerð tíunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn á Bitruhálsi 1 fimmtudaginn 18. desember 2014 kl. 11.30. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
Þetta var gert.
1. Fundargerðir síðustu funda. Fundargerðir síðustu funda afgreiddar og undirritaðar.
2. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Samkvæmt nýjustu tölum er sala mjólkurafurða sl. 12 mánuði rúmlega 128 milljónir lítra á fitugrunni, horfur eru á að hún verði 129 milljónir lítra í árslok. Sala á próteingrunni losar 120 milljónir lítra. Innvigtun mjólkur undanfarna 12 mánuði er 132,3 milljónir lítra. Fjósin víða fullnýtt og svigrúm til frekari aukningar þar með takmarkað. Í yfirliti SAM um framleiðslu og sölu mjólkurafurða, er salan á stöðluðu formi hvað varðar fitu og prótein. Æskilegt að tölur um innvigtun væru það einnig til að auðvelda samanburð. Að mati stjórnar er eðlilegast að miðað verði við grundvallarmjólk eins og hún er á hverjum tíma. Lagt til að málið verði tekið upp á vettvangi SAM. Talsverð óvissa er uppi varðandi skilaverð á útfluttu próteini, í ljósi ört lækkandi heimsmarkaðsverð á mjólkurafurðum. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um að breyta greiðsluhlutfalli fyrir fitu og prótein, en stjórn er þeirrar skoðunar að við núverandi aðstæður þurfi að örva fituframleiðslu. Formaður rakti helstu niðurstöður verkefnis um samanburð á vélrænni sýnatöku og hefðbundnum belgsýnum. Megin niðurstaðan er sú að vélræn sýnataka gefur mun stöðugri niðurstöður en belgsýnin. Efnahagsleg áhrif þess að skipta um aðferð við sýnatöku eru minniháttar. Áhugaverð nemendaverkefni gætu falist í frekari úrvinnslu á sýnatökugögnum. Að mati stjórnar er orðin knýjandi nauðsyn að verðlagsnefnd búvara komi saman, til að fara yfir stöðu verðlagningar mjólkur. Stjórn samþykkir svofellda bókun: Stjórn Landssambands kúabænda lýsir miklum áhyggjum af stöðu verðlagsnefndar. Í 7. gr. laga nr. 99/1993 segir að „Tilnefningu fulltrúa í verðlagsnefnd skal lokið 15. júní ár hvert“. Engin verðlagsnefnd hefur verið að störfum frá því um mitt ár 2014, þrátt fyrir að skýrt sé kveðið á um hvernig skuli skipa nefndina. Þessi staða er óviðunandi að mati Landssambands kúabænda og skorar stjórn samtakanna á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að nefndin komi saman hið fyrsta. Starf vinnuhóps um endurnýjun á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar gengur hægt og er beðið eftir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um mat á starfsumhverfi greinarinnar. Að mati samtakanna er afar brýnt að sú skýrsla komi út sem allra fyrst.
3. Framleiðslu- og sölumál nautakjöts. Framleiðsla og sala 3.450 tonn sl. 12 mánuði, á sama tíma mælist aukning á ásetningi nautkálfa 9,1% frá fyrra ári. Framboð á kúm til slátrunar virðist vera að vaxa lítillega. Reglugerð um opna tollkvóta á nautavöðvum rann út 30. nóvember, en hún gildir til 31. desember n.k. hvað hakkefni varðar. Að mati stjórnar LK eru mjög miklir möguleikar til aukinnar markaðssetningar á nautakjöti og mjög slæmt að geta ekki sinnt vaxandi eftirspurn með innlendri framleiðslu.
4. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppismála í máli MS. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála kvað upp úrskurð sinn í máli MS 16. desember sl. þar sem ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er vísað frá og sekt felld niður. Áfrýjunarnefndin fer einnig fram á að skjal sem felur í sér grundvallar málsvörn fyrir MS verði rannsakað betur að hálfu Samkeppniseftirlitsins. Landssamband kúabænda fagnar þeirri niðurstöðu sem komin er, en lýsir vonbrigðum yfir að málinu sé ekki endanlega lokið. Samtökin taka undir með MS að grundvallarnauðsyn sé að gera allt sem hægt er til að greiða fyrir lyktum málsins.
5. Stefna LK og SAM um Fyrirmyndarbú. Búið er að setja upp og myndskreyta bækling með stefnu LK og SAM um fyrirmyndarbú. Stjórn samþykkir að bæklingurinn sé gefinn út eins og hann stendur nú.
6. Reglugerð um velferð nautgripa. Reglugerðin gefin út 11. desember sl. Tekið hefur verið tillit til ábendinga LK í margvíslegu tilliti en þó standa nokkur veigamikil atriði útaf, t.d. sólarlagsákvæði um básafjós. Einnig eru komin fáein ný atriði í reglugerðin sem ekki voru inni þeim drögum sem send voru inn til umsagnar. Stjórn lýsir ánægju með að reglugerðin skuli vera komin fram. Þó eru nokkur atrið sem þarfnast frekari skýringa, t.d. ákvæði um tilkynningu samdægurs vegna förgunar gripa, einnig er nauðsynleg að fá fram kostnaðarmat vegna sólarlagsákvæðis um básafjós og skilgreiningu á því hvað telst vera skýli sem tekur mið af þörfum einstakra gripa.
7. Vinna starfshóps um innflutning erfðaefnis holdanautgripa og útbúnað einangrunarstöðva. Vinna starfshópsins er farin af stað og búið að skilgreina verkefnið. Ákveðið að miða reglur við innflutning frá Geno í Noregi. Að mati LK er áhættumat Veterinærinstituttet grundvallargagn í vinnu hópsins. Næsti fundur hópsins er fyrirhugaður 9. janúar og fyrir þann tíma verði búið að fara ítarlega yfir fyrirliggjandi áhættumat, umsagnir um það og þær vangaveltur sem þar koma fram.
8. Staða dýralæknaþjónustu á strjálbýlli svæðum. Að mati LK hafa þessi mál verið í ólestri um nokkurt skeið. Þjónustusvæði eru allt of stór m.v. þær fjárveitingar sem eru til reiðu. Vaktafyrirkomulag dýralæknaþjónustu og fjármögnun þess í uppnámi víða um land. Stjórn LK lýsir vilja sínum til umræðu við DÍ um þjónustusaminga við dýralækna, aðgengi að lyfjum, þjónustu og forvarnir. Einnig er nauðsynlegt að fá fram sjónarmið dýralæknafélagsins varðandi vaktsvæði.
Fundi frestað kl. 15.00. vegna stofnfundar Nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands ehf og fram haldið að honum loknum kl. 15.50.
9. Fjárhagsáætlun og framtíðar rekstur LK. Farið yfir ýmsar sparnaðaraðgerðir í rekstri samtakanna og hverju þær hafa skilað. Fyrir liggur að tekjustofn samtakanna af búnaðargjaldi verður með núverandi formi út árið 2015 en líkur standa til að innheimtu búnaðargjalds verði þá hætt. Rætt um starfskostnað stjórnar og skrifstofu og ferðakostnaður aðalfundarfulltrúa; stjórn LK leggur til að þeir fulltrúar sem eiga þess kost að fara með flugi til aðalfundar, fái greiddan akstur að flugvelli og andvirði flugfargjalds. Stjórn leggur til að kauptilboð LK á Nautastöð BÍ verði lagt fyrir aðalfund.
10. Ímyndar- og kynningarmál. Formaður reifaði samstarf LK við kynningarfyritækið Aton.
11. Frá síðasta fundi Fagráðs í nautgriparækt. Guðný reifaði helstu atriði frá síðasta fagráðsfundi. Niðurstaða kynbótamats á fyrsta hluta nautaárgangsins 2009 veldur vonbrigðum. Ein umsókn í þróunarsjóð nautgriparæktarinnar vegna þróunar á Huppu var afgreidd. Guðmundi Jóhannessyni, ábyrgðarmanni nautgriparæktar hjá RML og Baldri H. Benjamínssyni, framkvæmdastjóra LK var falið að setja upp ræktunarmarkmið nautgripa. Einnig fjallað um verkefnalista fagráðs fyrir nemendur og var Gunnfríði E. Hreiðarsdóttur, forstöðumanni búfjárræktar hjá RML falið að setlja saman slíkan lista. Í framhaldi af umræðum um fagráðsfundinn, var velt upp möguleika á að koma á beinni tengingu gagnaflutnings milli sjálfvirks mjaltabúnaðar og skýrsluhaldskerfis og lagt til að umræða um slíkt verði tekin á vettvangi fagráðs.
12. Búnaðarþing 2015. Málum til búnaðarþings skal skilað inn fyrir 20. janúar n.k. Helstu mál þingsins verða samþykktabreytingar og framtíðar fjármögnun félagskerfisins. Ákveðið að búnaðarþingsfulltrúar LK sitji næsta reglulega fund stjórnar, sem fyrirhugaður er um miðjan janúar n.k.
13. Önnur mál.
a. Aðgengi að gagnagrunni Lbhí vegna efnagreininga. Stjórn LK telur grundvallar atriði að aðgengi að grunninum sé jafnt fyrir alla sem vilja stunda efngreiningar. Framkvæmdastjóra falið að senda erindi á Landbúnaðarháskólann vegna þessa.
b. Fagþing nautgriparæktarinnar 2015. Framkvæmdastjóra falið að setja saman drög að dagskrá fagþings fyrir næsta fund stjórnar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.15.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda