Stjórnarfundir – 05. f. 2000/2001
11.01.2001
Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda
Fimmti fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn fimmtudaginn 11. janúar 2001 og hófst hann klukkan 11:00. Mættir voru Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig sat fundinn Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:
1. Ályktun stjórnar um innflutning á kjöti
Formaður fór yfir stöðu málsins, en miklar umræður hafa orðið um innflutning til landsins á nautalundum frá Írlandi, og með hvaða hætti ætti að senda viðbrögð frá LK. Fundarmenn voru sammála um að senda eftirfarandi ályktun til umhverfisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra:
„Síðustu vikur hefur orðið nokkur umræða um eftirlit með innflutningi matvæla, m.a. hvernig eftirliti með innflutningi á kjöti, hráu eða unnu, er háttað. Vegna þessa hvetur stjórn Landssambands kúabænda yfirvöld til að huga sérstaklega að innflutningi á öllum vörum sem innihalda kjöt og kjötafurðir, þar með talið nautgripaafurðir. Til viðbótar hráu kjöti er slíkar afurðir er að finna í ýmsum unnum matvælum svo sem pizzum, kjötrúllum, fylltu pasta, tilbúnu lasagna, kjötkrafti, kjötsósum og fleiru. Stjórn Landssambands kúabænda leggur áherslu á að eftirlit með þessum vörum sé tekið til endurskoðunar og fyllstu varkárni sé gætt við þann innflutning sem leyfður er með hagsmuni neytenda í huga. Þá skorar stjórn Landssambands kúabænda á stjórnvöld að nýta þær leiðir sem færar eru til að bregðast við ef upp koma vafaatriði varðandi innflutt matvæli.“
2. Mál fyrir búnaðarþing
Mikil umræða varð um hugsanleg áherslumál LK fyrir komandi búnaðarþing og farið var yfir stöðu fyrri mála sem LK hefur lagt fram. Fram kom að ákveðinn framgangur er í málefnum Hótel Sögu en þó óleyst ýmis mál s.s. hvað ætti að gera við hugsanlegan tekjuafgang af sölu hótelsins, ef af þeim hugmyndum verður. Fram komu hugmyndir um sjúkrasjóð, endurgreiðslu hluta tekna til þeirra bænda sem greiddu fyrir hótelið á sínum tíma, hugsanlega tengingu við lækkun búnaðargjalds, sölu á hluta eignarinnar með dreifingu hlutabréfa til bænda, tengingu við lífeyrisréttindi bænda og þá sérstaklega þá bændur sem voru skattlagðir þegar hótelið var byggt. Einnig þurfi að skilgreina hlut hverrar búgreinar í hugsanlegum söluhagnaði hótelsins. Ákveðið var að afla gagna um fyrrgreindan hlut og fá fagmann til að skoða möguleika á lífeyrisleiðinni. Auk ofangreindra áherslumála var rætt um að gera vatnsveitumál í sveitum eitt að áhersluatriðum LK.
3. Umsögn um frumvarp til laga um búfjárhald og forðagæslu
Ofangreint frumvarp var rætt og skoðun fundarmanna að frumvarpið til bóta að því leyti að skerpt er á úrræðum til að taka á vandamálum er upp koma og tengjast meðferð og umhirðu búfjár. Stjórnin gagnrýndi hinsvegar fyrirséðan kostnaðarauka vegna ákvæða frumvarpsins, annarsvegar vegna leyfisveitingu búfjárhalds og hinsvegar eftirlitskostnaður. Einnig er sjáanleg skörun við fyrirhugaða reglugerð um skildumerkingar búfjár og ákveðna sjálfvirkni þar við eftirlit með búfé. Þá veltu fundarmenn upp sameiningu eftirlitsþátta, s.s. vegna mjólkursöluleyfis og forðagæslu. Einnig þarf að bæta í texta um gæðavottun í 13. grein þar mætti bæta við: „…af Bændasamtökum Íslands eða öðrum viðurkenndum vottunaraðila.„
Formanni og framkvæmdastjóra falið að senda umsögn stjórnar til nefndarinnar.
4. Gæðastýringarmál
Formaður fór yfir stöðu þessara mála og kynnti sænska gæðastýringarkerfið, sem LK hafði fengið víðtækar upplýsingar um. Kristín Linda kynnti einnig hvernig staðið hefur verið að þessum málum á Norðurlandi, en verið er að vinna að miklum krafti í þessum málum. Einnig kom fram að á Suðurlandi er verið að vinna að sambærilegu kerfi á Stóra-Ármóti.
Fundarmenn voru sammála um að við að koma á gæðastjórnun þurfi að gera það í ákveðnum ferlum sem ekki eru of umfangsmiklir..
5. Lyfjareglugerðin
Framkvæmdastjóri kynnti hvað unnist hefur í breytingum frá síðasta stjórnarfundi LK. Fram kom að nýsett reglugerð gengur miklu lengra en sú Evrópusambandsreglugerð sem hún er sögð byggja á og því þar um verulegt ósamræmi að ræða. LK hefur einnig borist upplýsingar um það með hvaða hætti er staðið að úthlutun lyfja víða í löndum Evrópusambandsins. Þar kemur fram að mjólkurframleiðendur þorra landa Evrópusambandsins búa við mun ódýrara kerfi hvað snertir lyfjagjöf og eftirlit með notkun lyfja. Áfram verður unnið að farsælli lausn málsins og breytingum á reglugerðinni.
6. Dýralæknaþjónusta
LK stóð fyrir skömmu fyrir skoðanakönnun meðal félagsmanna, með tölvupósti, þar sem farið var yfir þjónustu dýralækna við félagsmenn og kostnað við lyf. Niðurstöður liggja ekki fyrir enn sem komið er. Þá var rætt um vandamál sem komið hafa upp á Austurlandi varðandi dýralæknaþjónustu og ákveðið að ræða málið við yfirdýralækni.
7. Merki og ímynd LK
Þann 4. apríl n.k. verður LK 15 ára og var ákveðið að minnast þess með einhverjum hætti. Málið verður tekið fyrir síðar.
8. Skyldumerkingar nautgripa
Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu reglugerðasmíði um málið og eru allar líkur á að reglugerðin verði komin fram fyrir páska.
9. Hugsanlegar takmarkanir á notkun fiskimjöls í kúafóður
Formaður fór yfir málið, en á vegum Evrópusambandsins hefur verið rætt um að banna eða takmarka verulega notkun á próteingjöfum sem hugsanlega innihalda díoxín. Rætt var um það með hvaða hætti eigi að bregðast við ef fiskimjöl verður bannað í notkun fóðurs fyrir jórturdýr. Ákveðið var að fá upplýsingar um mögulegar leiðir til að bregðast við slíku banni og hvort slíkt bann gæti haft veruleg áhrif á próteinfóðrun mjólkurkúa hérlendis.
10. Framleiðsluspá og mjólkurreglugerð
Formaður fór yfir stöðu framleiðslunnar og þá færslu sem orðið hefur yfir á C-tímabilið. Rætt var um leiðir til að sporna við þessari þróun og nefndar ýmsar leiðir s.s. breytingar á C-greiðlum. Málið verður frekar rætt síðar.
11. Nautakjötsmál
Framkvæmdastjóri fór yfir sölutölur og skýrði frá söluátaki sem stóð fyrir áramótin. Þá var rætt um mögulega afsetningu á K-III, en mjög mikið magn af þessu kjöti er á markaðinum. Ákveðið var að birta reglulega í Bbl. verð á nautakjöti til bænda frá sláturleyfishöfum og einnig að birta heimtökukostnað sláturleyfishafanna. Rætt var um aukningu á slátrun ungkálfa og fækkun kúa á landsvísu. Líklegt má telja að framleiðsla á nautakjöti muni fara minnkandi á komandi misserum vegna þessa.
12. Innflutningur á mjólkurdufti
Framkvæmdastjóri fór yfir málið, en undanfarið hefur verið flutt inn til landsins mjólkurduft til notkunar fyrir smákálfa. Mikill verðmunur er á innflutta fóðrinu og hinu innlenda, auk þess sem innlenda fóðrið virðist henta verr fyrir kálfafóstrur. Áfram verður fylgst náið með þessum málum.
13. Þjónusta BÍ við nautgriparæktina
Ekki hafði unnist tími til að taka saman upplýsingar er varða þetta mál.
14. Önnur mál
· Egill spurði um kostnað við þróun og hönnun forritsins Ískýr og óskaði upplýsinga um það fyrir næsta fund. Einnig um notendafjölda forritsins og skýrsluskil þess við BÍ. Fram kom í máli framkvæmdastjóra að í tengslum við Ískúna hefur verið stofnaður vinnuhópur um breytingar á notendaviðmóti. Þar sitja tveir fulltrúar kúabænda, fulltrúi tölvudeildar og ráðgjafasviðs BÍ.
· Kristín spurði um skyldur dýralækna til að gefa upp verðskrá. Leitað verður upplýsinga um þetta fyrir næsta fund.
· Kjarnfóðurmál. Nú liggja fyrir upplýsingar um kjarnfóðurverð í nágrannalöndunum og var ákveðið að birta tölurnar í Bbl.
· Bactoscan. Formaður fór yfir stöðu mála. Fram kom hjá fundarmönnum að flokkunarmörg væru of illa kynnt og var ákveðið að birta þau í Bbl. á næstunni.
· Umsókn frá Argentínu steikhúsi um styrk. Fyrir fundinum lág umsókn um styrk til kynningarátaks á nautakjöti á vegum Argentínu steikhúsi. Samþykkt var að veita veitingastaðnum viðurkenningu fyrir það starf sem forsvarsmenn þess hafa unnið á liðnum árum við markaðssetningu á nautakjöti. Ákveðið var að styrkja fyrirtækið um kr. 200.000,- og veita því þá viðurkenningu í byrjun febrúar.
· Umsókn um styrk til nemenda LBH. Fyrir fundinum lág umsókn um styrk til nemendafélags LBH vegna útskriftarferðar þeirra. Samþykkt var að styrkja félagið um kr. 15.000,-
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 17:00
Næsti fundur haldinn 5. febrúar 2001 kl. 10:00
Snorri Sigurðsson
Næsti fundur haldinn 5. febrúar 2001 kl. 10:00
Snorri Sigurðsson