Stjórnarfundir – 8. 2014-2015
07.11.2014
Fundargerð áttunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Símafundur haldinn 7. nóvember 2014 kl. 16.00. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var rætt:
1. Fundur með ráðherra um innflutning á holdanautasæði. Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir helstu atriði sem fram komu á fundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um innflutning á holdanautasæði og starfshóp um útbúnað einangrunarstöðva 6. nóvember sl. Ráðherra hyggst tilnefna fulltrúa frá Landssambandi kúabænda, Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum í starfshóp, sem hafi það hlutverk að móta reglur um meðferð á innfluttu holdanautasæði. Ráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra á þessu haustþingi, þannig að hægt verði að heimila innflutning á sæði vorið 2015. Eftir nokkrar umræður um skipan hópsins var það samhljóða niðurstaða stjórnar að tilnefna formann LK til setu í hópnum.
2. Staða framleiðslumála og kvótamarkaður. Á fundinum með ráðherra var einnig farið yfir stöðu framleiðslu- og sölumála mjólkurafurða og ítrekuð afstaða stjórnar LK um að kvótamarkaður skuli gerður óvirkur árið 2015.
3. Kynningarmál. Formaður greindi frá helstu atriðum sem fram komu á fundi með kynningarfyrirtækinu Aton um ýmis málefni greinarinnar.
4. Önnur mál:
a. Tilboð í undirbúning og umsjón árshátíðar 2015. Guðný Helga kynnti fram komið tilboð í umsjón með árshátíð LK 2015.
b. Fjármögnun búrekstrar. Stjórn telur nauðsynlegt að kynna stöðu greinarinnar og breytingar í framleiðsluumhverfi enn frekar fyrir fjármálafyrirtækjum.
c. Lyfjamál. Undanfarna þrjá mánuði hefur geldstöðulyfið Benestermycin ekki verið fáanlegt hjá innflutningsaðila. Að mati stjórnar er það alvarleg staða. Rætt um hugsanlega aðkomu yfirdýralæknis að málinu, til að stuðla að öruggu framboði nauðsynlegra dýralyfja á hverjum tíma. Það er jafnframt áhyggjuefni að mati stjórnar hversu lítinn áhuga lyfjainnflytjendur virðast sýna markaðssetningu dýralyfja.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 16.43.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda