Beint í efni

Stjórnarfundir – 7. 2014-2015

04.11.2014

Fundargerð sjöunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Haldinn á Bitruhálsi 1, þriðjudaginn 4. nóvember 2014 kl. 11.00. Mætt voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður setti fund og gekk því næst til dagskrár.

 

1. Fundargerðir síðustu funda. Ákveðið að afgreiða þær síðar.

 

2. Framleiðsla og sala mjólkurafurða. Sala mjólkurafurða sl. 12 mánuði er rúmlega 127 milljónir lítra á fitugrunni og 119,4 milljónir lítra á próteingrunni. Haldist innvigtunin í svipuðu fari út árið og hún er nú, dugar það vel til að mæta vaxandi eftirspurn. Ágæt sala var á mjólkurafurðum í nýliðnum október og nóvember fer vel af stað. Frá síðasta stjórnarfundi hefur LK fengið niðurstöður á þriðja hundrað heysýna víðs vegar að af landinu. Í ljósi mikilvægis málsins telur stjórn nauðsynlegt að afla enn frekari upplýsinga um heygæði. Einnig hafði verið aflað upplýsinga um hvernig aðgengi sjálfstætt starfandi ráðgjafa væri að fóðurmatskerfinu NorFor. Staða þess máls er sú að ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvernig því skuli háttað. Að mati stjórnar LK er sú staða ekki viðunandi og leggur hún áherslu á að þar sem uppbygging kerfisins var að hluta kostuð með þróunarfé greinarinnar, eigi aðgengi að kerfinu að vera eins fyrir alla.

 

3. Framleiðsla og sala nautakjöts. Sala á ársgrunni 3.500 tonn. Innflutningur er 830 tonn af beinlausu kjöti að andvirði 700 m.kr. fyrstu níu mánuði ársins og stefnir í að verða 1.000 tonn á árinu. Ásetningur kálfa fer vaxandi og víða eru tækifæri til framfara og betrumbóta í aðbúnaði og uppeldi. Engu að síður er staðan sú að ásetningur allra lifandi fæddra kálfa dugar ekki til að mæta eftirspurn eftir nautakjöti. Við því þarf að bregðast með róttækum hætti.

 

4.  Greiðslumarksreglugerð 2015. Í fyrirliggjandi reglugerðardrögum eru upphæðir í samræmi við frumvarp til fjárlaga 2015. Reglugerðin verður þó ekki gefin út fyrr en fjárlög hafa verið samþykkt. Tillaga að greiðslumarki 2015 er 140 milljónir lítra. Helstu breytingar frá reglugerð yfirstandandi árs eru ákvæði um ráðstöfun beingreiðslna, sem taka á þeirri stöðu sem upp kemur ef framleiðsla ársins verður minni en heildargreiðslumark, ásamt kröfu um 100% framleiðsluskyldu vegna A-greiðslna. Þá er nýlunda að reglugerðinni fylgja viðaukar með verklagsreglum um útdeilingu á óframleiðslutengdum/minna markaðstruflandi stuðningi. Að mati stjórnar eru þessar breytingar til bóta og auka gegnsæi í útdeilingu stuðningsgreiðslna. Niðurstöður tilboðsmarkaðar með greiðslumark 1. nóvember sl. gefa ekki tilefni til breytinga á þeirri afstöðu stjórnar að kvótamarkaðurinn skuli hvíldur í eitt ár.

 

5. Holdanautasæði, staða málsins. Tekið fyrir bréf frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um skipun á fulltrúa LK í starfshóp vegna innflutnings á erfðaefni holdagripa og útbúnað sóttvarnastöðva. Að mati stjórnar er erindi ráðuneytisins fremur óljóst og nauðsynlegt að fá nánari skýringar á hvað í því felst. Óskað hefur verið eftir fundi með ráðherra vegna málsins og verður hann haldinn 6. nóvember n.k.

 

6. Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu. Hópurinn hefur fundað tvisvar og farið yfir þróun stuðnings, framleiðslu, bústærðar o.þ.h. Beðið er eftir niðurstöðu starfshóps sem hefur það hlutverk að meta framkvæmd tollverndar. Einnig er beðið eftir matsskýrslu Hagfræðistofunar Háskóla Íslands á starfsumhverfi greinarinnar. Að mati stjórnar er mikilvægt að bændur marki skýra stefnu um hvert skal haldið. Slík stefnumörkun þarf að taka á þeim fjölmörgu áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir.

 

7. Frá síðasta fundi fagráðs. Formaður fagráðs fór yfir helstu atriði  sem farið var yfir á síðasta fundi fagráðs í nautgriparækt.

 

8. Úrskurður Samkeppniseftirlitsins í máli Mjólkursamsölunnar. Að mati LK snýst málið í grunnin um að Samkeppniseftirlitið er að láta reyna á ákvæði búvörulaga um samstarf í mjólkuriðnaði. Farið var ítarlega yfir málið á haustfundum. Stjórn LK lýsir áhyggjum af þeirri umræðu sem orðið hefur vegna málsins og hugsanlegum áhrifum þess á starfsumhverfi greinarinnar.

 

9. Ímyndar og kynningarmál. Farið yfir samstarfið við kynningarfyrirtækið Aton og hvernig nýta megi það til að koma sjónarmiðum búgreinarinnar á framfæri og skýra mikilvægi starfsumhverfisins fyrir bændur og neytendur.  

 

10. Tillögur félagskerfisnefndar.  Formaður fór yfir fyrirliggjandi tillögur um breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands. Ákvæði um greiðslu félagsgjalda taka ekki gildi fyrr en innheimtu  búnaðargjalds verður hætt. Tillaga er um að hefðbundið Búnaðarþing verði haldið annað hvert ár og ársfundur BÍ, með afgreiðslu reikninga og endurskoðun fjárhagsáætlunar verði haldinn annað hvert ár. Stefnt er að kynningu málsins á formannafundi aðildarfélaga BÍ í lok nóvember.

 

11. Aðalfundur LK og Fagþing nautgriparæktarinnar 2015. Stjórn ákveður að halda fundinn 12. og 13. mars 2015, í stað 19. og 20. mars eins og áður hafði verið stefnt að. Fyrri dagur aðalfundar og Fagþing nautgriparæktarinnar fer fram í sal Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík, en síðari dagur aðalfundar á Grand Hótel Reykjavík. Framkvæmdastjóra falið að ljúka undirbúningi aðalfundar. Rætt um skipan árshátíðarnefndar og Guðnýju Helgu og Jóhanni Nikulássyni falið að fylgja því eftir. Stjórn ákveður enn fremur að gefa rannsóknaraðilum kost á að kynna niðurstöður rannsóknarverkefna á fagþingi. Stjórn leggur til að umfjöllun fagþingsins verði um uppeldi ungviðis, frjósemi nautgripa og hagkvæmari fjósbyggingar.

 

12. Reglugerð um aðbúnað nautgripa. Guðný Helga fór yfir drög að nýrri aðbúnaðarreglugerð en vinna við hana er langt á veg komin.

 

13. Styrkbeiðni ÍNN vegna þáttanna Frá Haga til Maga. Stjórn samþykkir að styrkja verkefnið um 250 þús. kr.

 

14. Haustfundir LK. Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir helstu málefni sem rædd voru á haustfundum LK, en á þá mættu á milli 330 og 340 manns.

 

15. Stofnun nautgriparæktarmiðstöðvar Íslands. Framkvæmdastjóri fór yfir drög að samþykktum félagsins. Stjórn telur mikilvægt að samningum verði lokið sem fyrst, þannig að miðstöðin geti tekið til starfa um áramót.    

 

16. Önnur mál.

A. Veffræðsla. Framkvæmdastjóra falið að gera átak í að kynna veffræðslu LK fyrir nemendum við Landbúnaðarháskólann.  

 

B. Heimboð Landbúnaðarsafns Íslands. Stjórn þakkar gott boð og leggur til að safnið verði sótt heim við fyrsta tækifæri.

 

C. Ræktunarmarkmið íslenska kúastofnsins. Stjórn LK er þeirrar skoðunar að ræktunarmarkmið íslenska kúastofnsins eiga eingöngu að snúa að þáttum sem hafa efnahagslega þýðingu.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.36.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda