Stjórnarfundir – 5. 2014-2015
11.09.2014
Fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015. Símafundur haldinn fimmtudaginn 11. september 2014. Fundur settur kl. 10.05. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Trausti Þórisson og Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri, sem ritaði fundargerð.
Þetta var rætt:
1. Samkomulagsgrunnur að kaupum á Nautastöð BÍ. Formaður fór yfir stöðu viðræðna við BÍ um kaup á Nautastöðinni og kynnti innihald minnisblaðs sem stjórnarmönnum hafði verið sent fyrir fund vegna málsins. Málið var ítarlega rætt og lagðar áherslur gagnvart næstu skrefum. Gangi kaupin eftir mun Nautgriparæktarmiðstöð Íslands taka við stöðinni um áramót, en niðurstaðan verður þó lögð fyrir búnaðarþing 2015, sem þarf að taka afstöðu til þeirra. Stjórn samþykkir að ljúka málinu á þeim forsendum sem liggja fyrir, náist um það samkomulag. Framkvæmdastjóra falið að vinna að stofnun félagsins. Viðræður um breytingar á verkaskiptasamningi eru ekki langt á veg komnar, en LK leggur áherslu á að Nautgriparæktarmiðstöðin fá húsbóndavald yfir framkvæmd einstakra þátta kynbótastarfsins.
2. Frágangur og útgáfa á „Stefna LK og SAM um Fyrirmyndarbú“. Stjórn SAM hefur samþykkt fyrirliggjandi drög. Tillaga fram komin um að stefnan verði gefin út í hefti, LK sjái um og kosti uppsetningu en SAM greiði fyrir prentun og útgáfu. Sú tillaga samþykkt og ákveðið að framkvæmdastjóri fái aðila til að sjá um uppsetninguna.
3. Kvótamarkaðsreglugerð. Formaður vísaði til umræðu á síðasta stjórnarfundi og velti upp spurningu um hvort ástæða væri til að gera kvótamarkaðinn óvirkan tímabundið. Atburðarás undanfarinna mánaða er sterkasta röksemdin fyrir breytingum á viðskiptaumhverfinu; aðstæður og forsendur fyrir kvótaviðskiptum eru gerbreyttar frá því að markaðurinn var settur á laggirnar og engar líkur á að þær breytist í næstu framtíð. Vegna þess hversu lítil hreyfing hafi verið á kvótamarkaði hafa komið fram óskir um að gerðar verði undnaþágur frá gildandi fyrirkomulagi, sem heimili m.a. flutning greiðslumarks milli jarða við sérstakar aðstæður. Slíkt fæli hinsvegar alltaf í sér hættu á að upp komi álitamál og eðlilegra sé aða allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Þá grafi allar undanþágur sem gerðar eru undan virkni núverandi fyrirkomulags og því eðlilegra að það sé að fullu tekið úr sambandi meðan þetta ástand varir. Miklar umræður urðu um málið, en stjórn samþykkti að því loknu tillögu formanns um að reglugerð um greiðslumarksviðskipti verði gerð óvirk árið 2015. Að mati stjórnar gefast nú áður óþekkt tækifæri fyrir nýliða til að koma inn í greinina og gagnast tilfærsla fjármuna úr A-hluta beingreiðslna yfir í C-hluta sérstaklega vel fyrir nýja aðila sem hyggja á uppbyggingu. Fjármögnun búrekstrar einnig rædd undir þessum lið, en LK hefur fundað með fjármálafyrirtækjum um stöðu greinarinnar að undanförnu.
4. Fundur með stjórn Auðhumlu. Formaður Auðhumlu hefur óskað eftir að fá stjórn LK til fundar um málefni greinarinnar síðar í mánuðinum, þar sem m.a. verði farið yfir aðbúnaðarmál og stöðu framleiðslumála. Þeir stjórnarmenn sem tök hafa á, hyggjast mæta til þessa fundar.
5. Önnur mál.
A. Sæðingar. Rætt um fyrirkomulag á pöntun sæðis úr einstökum nautum, þar sem bændum stendur til boða takmarkaður fjöldi stráa. Frjótæknar sjá um útdeilinguna og halda utan um hana, hver á sínu svæði.
B. Gróffóðurgæði. Framkvæmdastjóra falið að kalla eftir fleiri niðurstöðum heysýna. Afar mikilvægt að kortleggja stöðu gróffóðurgæða náið.
C. Búnaðarþættir á ÍNN. Framkvæmdastjóri fundaði með forsvarsmönnum sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN vegna þátta um landbúnað sem stöðin er með í vinnslu. Hún hefur óskað eftir stuðningi frá LK við gerð þeirra. Lagt hefur verið til að málið verði rætt við mjólkuriðnaðinn og verði afgreitt á næsta formlega fundi stjórnar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.54.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK