Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. 2014-2015

03.09.2014

Fundargerð fjórða fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015, haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1, miðvikudaginn 3. september 2014 kl. 11.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Gestur undir lið 2. var Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar.

 

Formaður setti fund og var því næst gengið til dagskrár.

 

1. Afgreiðsla fundargerða síðustu funda. Fundargerðir samþykktar og undirritaðar.

 

2. Framleiðslu- og sölumál mjólkur, greiðslumarksreglugerð 2015. Farið yfir horfur í framleiðslu og eftirspurn mjólkurafurða árið 2015. Líkur standa til að fitusala 2014 verði 8,5 milljón lítrum meiri en 2013 og er söluaukningin í ár meiri en í fyrra. Talsverð aukning er í innvigtun mjólkur, en þrátt fyrir það er farið að ganga á birgðir. Verði innvigtunin í svipuðum takti út þetta ár, eins og hún hefur verið undanfarnar 6 vikur, duga núverandi birgðir til að mæta eftirspurn eftir mjólkurfitu. Söluspá fyrir árið 2015 gerir ráð fyrir 3,5% söluaukningu á fituhluta. Miðað við óbreytt fituhlutfall og um þriggja milljón lítra birgðamyndun, þarf greiðslumark næsta árs að vera 140 milljónir lítra. Ef salan heldur áfram með sama hætti og í ár og ekki gert ráð fyrir birgðamyndun, er niðurstaðan sú sama. Athygli vekur að þegar horft er til síðustu 10 ára, kemur í ljós að mun meiri breytileiki er í fituhlutfalli en próteinhlutfalli. Þá hefur komið fram að um fjórðungur bænda skapar 70% þeirrar framleiðsluaukningar sem orðið hefur það sem af er ári. Sú staðreynd vekur spurningar um hversu mikil virk framleiðslugeta er til staðar í greininni.

 

Af öllum sólarmerkjum að dæma er greinin nú að fara inn í annað árið með mestu söluaukningu mjólkurafurða sem orðið hefur í áratugi og því þurfi ekki minni kraft til að mæta því en gert var á liðnu ári. Því telur stjórn mikilvægt að virkja stoðkerfið enn betur og að skilaboð verði út um það sem framundan er nú þegar. Það er einnig mat stjórnar að í þessu ljósi sé ástæða til að halda haustfundi fyrr en áður og virkja alla efnahagslega hvata sem til staðar eru innan gildandi kerfis. Framkvæmdastjóra var falið að safna upplýsingum um niðurstöður heysýna, enda eru gæði þeirra heyja sem aflað var á nýliðnu sumri lykilstærð varðandi framleiðsluhorfur komandi vetrar. Þá var framkvæmdastjóra falið að afla upplýsinga hjá RML um aðgengi sjálfstætt starfandi ráðgjafa að NorFor og jafnframt að taka saman áætlaðan fjölda burðardaga á komandi mánuðum.

 

Að mati stjórnar er talsvert svigrúm til aukningar á fituinnihaldi mjólkur, en ljóst er að sumar þær kjarnfóðurblöndur, sem bændum hefur verið ráðlagt að kaupa, hafa ekki skilað tilætluðum árangri í því efni. Á því þarf að leita skýringa. Síðasti aðalfundur LK samþykkti að auka framleiðsluskyldu vegna A-greiðslna í 100% og jafnframt breytta skiptingu beingreiðslna, þar sem hlutur C-greiðslna er aukinn einkum á kostnað A-greiðslna. Mun stjórn fylgja þeim tillögum eftir með viðeigandi hætti. Rætt hefur verið innan stjórnar SAM að ganga lengra en nú er í verðhlutfalli fitu og próteins, jafnvel í 25% fyrir prótein og 75% fyrir fitu. Að mati stjórnar LK eru þessar greiðslur öflugasti hvatinn til aukningar á fituhlutfalli mjólkur og styður hún því eindregið umræddar breytingar.

 

Rætt var um fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta og þá stöðu sem skapast hefur á kvótamarkaði samhliða fordæmalausrar aukningar í sölu mjólkurafurða. Það sem af er ári hefur eftirspurn eftir greiðslumarki til mjólkurframleiðslu nær algerlega horfið. 1. september sl. sendi einn aðili tilboð um kaup á 16.666 lítrum og 1. apríl sl. sendu tveir aðilar inn tilboð um kaup á 71.784 lítrum. 1. apríl 2013 sendu hins vegar 57 aðilar inn tilboð um kaup á 2.624.697 lítrum. Þegar horft er til þess útlits sem er í framleiðslu og sölu mjólkurafurða næstu misseri og ár, bendir flest til að lítil sem engin viðskipti verði með greiðslumark undir gildandi fyrirkomulagi og þar með lokist að mestu fyrir nauðsynlegar tilfærslur framleiðsluheimilda milli bænda. Þetta er einkum bagalegt fyrir aðila sem eru að hefja búskap og hafa lítið sem ekkert greiðslumark, þeim mun að óbreyttu lítið sem ekkert nýtast þær breytingar sem lagðar eru til á fyrirkomulagi beingreiðslna. Þá verður mjög snúið í þessari stöðu að flytja greiðslumark milli lögbýla, til að nýta betri húsakost og jarðnæði. All nokkrar umræður urðu um með hvaða hætti væri unnt að bregðast við þessari stöðu, en ljóst er að allar undanþágur sem gerðar yrðu á fyrirkomulagi kvótamarkaðarins munu enn frekar draga úr skilvirkni hans og tilgangi. Því væri betra að gera markaðinn óvirkan tímabundið til að bregðast við þessari stöðu fremur en flækja kerfið með einhverskonar undanþágum. Ákveðið að gera engar tillögur um þetta efni að svo komnu. Að lokum var nokkur umræða um viðskipti með lífgripi og fyrirkomulag gripagreiðslna.

 

3. Verðlagskönnun ASÍ. Í nýlegri verðlagskönnun Alþýðusambandsins kom fram að talsverðar hækkanir hefðu orðið á smásöluverði mjólkurafurða milli ára, talsvert meiri en sem nemur hækkunum á heildsöluverði 1. október 2013. Staða verðlagsmála er í uppnámi þar sem verðlagsnefnd hefur enn ekki verið skipuð; BÍ, LK og SAM hafa tilnefnt sína fulltrúa en aðrir ekki. Verið að vinna í að skipa nefndina en óvíst er sem stendur um málalok í þeim efnum. Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna og birta samantekt á verðþróun í heildsölu og smásölu. 

 

4. Málefni lífrænnar mjólkurframleiðslu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur með reglugerð heimilað innflutning á frosinni, lífrænni mjólk til að uppfylla þarfir vinnsluaðila fyrir slíka vöru. Vísbendingar eru um að túlkanir á reglum í lífrænum búskap séu þrengri hér á landi en í nágrannalöndunum, sem standi framgangi hennar fyrir þrifum. Dæmi um það eru hérlendar kröfur um að 70% af gróffóðri skuli vera heimaaflað, meðan sambærilegt hlutfall er 60% í Danmörku. Helsta hindrunin í vegi lífrænnar framleiðslu er aðgengi að lífrænum áburði. Þar hefur komið til tals að kanna möguleika á notkun á lífrænum úrgangi úr sjávarútvegi og hefur Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum sýnt slíku verkefni áhuga. Fjallað var um málið í skýrslu Atvinnuþróunarfélags Suðurlands frá 2012: Slegist um slógið – Slóg sem lífrænn áburður. Formanni falið að fylgja málinu eftir.    

 

5. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Mikill samdráttur í innlendri framleiðslu á undanförunum mánuðum og er hún komin niður í 3.600 tonn á ársgrundvelli. Innflutningur tæplega 700 tonn til og með júlímánuði, af beinlausu kjöti. Mikil fjölmiðlaumræða um stöðuna í allt sumar. Möguleikarnir fyrir framleiðsluna eru til staðar en bændur vantar hagkvæmari gripi til uppeldis. Miðað við óbreytt ástand í þeim efnum, er líklegt að innflutningur verði viðvarandi. Innanlandsframleiðsla þyrfti að vera amk. 4.500-5.000 tonn til að uppfylla þarfir markaðarins.

 

6. Stefnumótun fyrir nautgriparæktina. Tekið af dagskrá.

 

7. Fyrirmyndarbú LK og SAM. Síðasta útgáfa af stefnumörkuninni hefur verið send til stjórnar, athugasemdir hafa f.o.f. verið gerðar við orðalag. Handbókin verður mun ítarlegri og mikilvægt að hefja gerð hennar sem fyrst. Að mati stjórnar verður slík stefnumörkun mikilvægt innlegg í umræðu um aðbúnað nautgripa. Stjórn samþykkir fyrirliggjandi drög með áorðnum breytingum.  

 

8. Staða viðræðna um Nautastöð BÍ og breytingar á verkaskiptasamningi. Farið var yfir stöðu viðræðana milli LK og BÍ um kaup þess fyrrnefnda á Nautastöð BÍ. Engin stórfelld atriði hafa komið upp sem hamla ættu því að samningar náist, enn er þó rætt um endanlegt verð á stöðinni. Þá var farið yfir viðræður um breytingar á verkaskiptasamningi LK og BÍ, en nokkur atriði þar þarfnast frekari yfirlegu. Það er mat stjórnar LK að með stofnun nautgriparækarmiðstöðvarinnar verði hægt að gera skipulag kynbótastarfsins skilvirkara en nú er. Framkvæmdastjóra falið að undirbúa stofnun á Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf.

 

9. Félagskerfisnefnd BÍ. Verið að vinna að málinu og velta fyrir sér hvernig rekstri félagskerfisins verði fyrir komið. Nokkuð róttækar hugmyndir komnar fram um stjórnarkjör, framkvæmdastjórn og fyrirkomulag búnaðarþings. Rætt hefur verið um skyldur og aðkomu einstakra aðildarfélaga að heildarsamtökunum og möguleika einstaklinga á að gerast aukaaðilar. Félagar greiði félagsgjöld og aðildarfélögin greiða fyrir staðfestingu á aðild. Félagsgjöldin miðist við veltu í búvöruframleiðslu. Verkaskiptasamningar milli búgreinafélaga og BÍ eru grundvöllurinn að samskiptum aðildarfélaganna við BÍ, heildarsamtökin verða að laga sig að þörfum aðildarfélaganna, eigi þau síðarnefndu að sjá hag sínum borgið innan slíkra samtaka.

 

10. Rekstur og fjármögnun LK. Gerð stuttlega grein fyrir framgangi málsins. Búið að segja upp leigusamningi vegna skrifstofuaðstöðu í Búgarði og nýtt mun hagstæðari afsláttarkjör hjá Flugfélagi Íslands. Félagið hefur undanfarin ár stutt lítillega við bakið á ýmis konar samtökum en því hefur alfarið verið hætt.

 

11. Sýnatökur vegna kúariðu. Undanfarin ár hafa ekki fengist nægjanlega mörg vefjasýni úr sjálfdauðum nautgripum, til að landið geti sýnt fram á að vera með öllu laust við kúariðu. MAST hefur óskað eftir samstarfi við LK um að koma upplýsingum um málið á framfæri við umbjóðendur samtakanna. Mun dýralæknir nautgripasjúkdóma senda erindi til LK þar að lútandi.

 

12. Haustfundir. Í ljósi þess sem rætt var undir lið 2, er fyrirhugað að hefja fundina í byrjun október. Megin áhersla verði lögð á stöðu framleiðslumála og aðbúnaðarmál nautgripa. Framkvæmdastjóra falið að setja upp drög að skipulagi og senda á stjórn.

 

13. Styrkbeiðnir.

a. Snorri Sigurðsson. Styrkur kr. 21.000, vegna fundar tæknihóps NMSM í Finnlandi. Stjórn samþykkir erindið.

b. Beiðni frá sjónvarpsstöðinni ÍNN kr. 250.000 vegna sjónvarpsþátta um landbúnað. Stjórn ákveður að skoða málið frekar og kanna samstarf við mjólkuriðnaðinn.

c. Beiðni frá Ara Trausta Guðmundssyni kr. 100.000 vegna sjónvarpsþátta um nýsköpun og umhverfismál. Stjórn ákveður að hafna erindinu, þar sem LK hefur enga aðkomu að verkefninu.

 

14. Önnur mál.

A. Framkvæmdastjóra falið að taka saman verðþróun á aðföngum til kjarnfóðurframleiðslu.

B. Fyrirhugað er að vinna myndband um mjaltatækni – frá handmjöltum til mjaltaþjóna, á næstu vikum. Gísli Einarsson fréttamaður ríkisútvarpsins mun vinna verkefnið og hefur orðið að samkomulagi að það afurð þess verði gerð aðgengileg fyrir Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri. LK mun ekki bera kostnað af verkinu.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.52.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda