Beint í efni

Stjórnarfundir – 3. 2014-2015

16.07.2014

Fundargerð þriðja fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015, símafundur haldinn miðvikudaginn 16. júlí 2014 kl. 10.00. Á línunni voru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Þetta var rætt:

 

1. Svar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna umsóknar LK um undanþágu til innflutnings á holdanautasæði frá Geno Global Ltd. Ráðuneytið hafnaði umsókn Landssambands kúabænda með bréfi dags. 9. júlí sl.  Byggir höfnunin á neikvæðri umsögn yfirdýralæknis um málið. Svar ráðuneytisins er samtökunum gríðarleg vonbrigði og að mati formanns vekur umsögn yfirdýralæknis og túlkun hans á lögum um innflutning dýra mikla furðu. Að mati formanns er einboðið fyrir framhald málsins að fá lögfræðlegt álit á svari ráðuneytisins, en einkum á umsögn yfirdýralæknis. Stjórn tekur einhuga undir þessa skoðun formanns og samþykkir að leita eftir slíku áliti. Framkvæmdastjóri hafði fyrir fundinn kannað möguleika hjá Lögmönnum Suðurlandi um að stofan myndi sjá um álitsgerðina og var honum falið að fylgja málinu eftir. Frestur til að skila athugasemdum vegna afgreiðslu ráðuneytisins á umsókn LK er til 31. júlí n.k.

 

2. Staða viðræðna um yfirtöku LK á Nautastöð BÍ. Formaður fór yfir stöðu málsins. Megin markmið samtakanna í þessu verkefni er að yfirtakan leiði ekki af sér auknar álögur á greinina. Sá möguleiki hefur verið ræddur að LK leigi nautastöðina, kaupi gripi og lausafé, auk þess að sjá um viðhald fasteignarinnar. Að mati forsvarsmanna LK sem komið hafa að málinu eru hugmyndir BÍ um leigugjald of háar; á hálfum öðrum áratug yrði búið að greiða í leigu sem næmi núvirði stöðvarinnar, án þess að nokkur eignamyndun ætti sér stað. Því hefur verið fallið frá slíkum hugmyndum. Nú er til skoðunar að stofna einkahlutafélag í meirihlutaeigu Landssambands kúabænda, auk annarra félaga og samtaka sem tengjast nautgriparæktinni. Hugmyndir LK um kaupverð eru um 107 m.kr., eða sem nemur langtímaláni stöðvarinnar við BÍ, að frádregnu virði gömlu stöðvarinnar á Hvanneyri. Að mati LK stendur stöðin undir 50-60 m.kr. skuld að hámarki. Stjórn LK fellst á að leitað verði eftir samningum á þessum grunni, en leggur ríka áherslu á að félagið verði vel rekstrarhæft frá upphafi og í meirihlutaeigu LK. Stjórn leggur áherslu á að með nautastöðinni fylgi einnig öll samskipti við sæðingastöðvarnar og forsvar fyrir kynbótastarf nautgriparæktarinnar og jafnvel til lengri tíma litið einnig skýrsluhaldinu. Samhliða þessum breytingum þarf einnig að gera talsverðar breytingar á verkaskiptasamningi LK og BÍ og er unnið að undirbúningi þeirra.

 

3.      Önnur mál.

i. Formaður fór yfir starf félagskerfisnefndar BÍ. Formaður BÍ er tekinn við formennsku í nefndinni. Næsti fundur er fyrirhugaður síðari hluta ágústmánaðar og þá er gert ráð fyrir að búið verði að setja upp drög að framtíðarskipan félagskerfis bænda. Í kjölfarið verði þau drög að fyrirkomulagi rædd við forystumenn aðildarfélaganna.

 

ii. Staða framleiðslumála og fóðuröflunar var rædd stuttlega.

                                                         

iii. Fundargerð fyrsta fundar á þessu starfsári var afgreidd á öðrum fundi stjórnar 3. júní sl. en hefur ekki verið sett á heimasíðuna. Framkvæmdastjóra falið að bæta úr því.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda