Stjórnarfundir – 2. 2014-2015
03.06.2014
Annar stjórnarfundur Landssambands kúabænda 2014-2015, haldinn þriðjudaginn 3. júní 2014 kl. 11.00 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Fundargerð ritaði Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri.
Gestur undir lið 3 var Einar Sigurðsson, forstjóri MS. Gestir undir lið 4 voru Jóhanna Lind Elíasdóttir, búrekstrarráðunautur RML, Egill Sigurðsson, stjórnarformaður Auðhumlu og Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
Formaður setti fund og gekk til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð með lítils háttar breytingum.
2. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Formaður fór yfir fram komnar upplýsingar um þróun framleiðslu, sölu og innflutnings á nautakjöti. Að mati stjórnar er ljóst að spár samtakanna undanfarin misseri um þróun nautakjötsmarkaðarins eru að ganga eftir. Innflutningur nautakjöts fyrstu þrjá mánuði ársins 2014 er svipaður og allt árið í fyrra. Ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu hefur farið vaxandi frá haustdögum í fyrra, en sú aukning mun ekki koma fram í auknu framboði á kjöti fyrr en eftir rúmlega eitt ár. Óvíst er hver langtímaáhrif stöðugs innflutnings á nautakjöti verða á stöðu greinarinnar. Í ljósi stöðugt vaxandi eftirspurnar eftir nautakjöti, er sérstaklega mikilvægt að grípa til aðgerða sem skjóta styrkari stoðum undir innlenda framleiðslu. Formaður reifaði einnig helstu niðurstöður fundar hans og framkvæmdastjóra með ráðherra landbúnaðarmála, sem haldinn var 16. maí sl. um stöðu mála varðandi endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Helstu niðurstöður þess fundar voru að ráðherra er tilbúinn að kanna möguleika á að veita undanþágu vegna innflutnings á holdanautasæði til notkunar á fáeinum búum, gegn því að skilyrði um áhættuminnkandi aðgerðir séu uppfylltar. Jafnframt stefnir ráðherra á að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra á haustþingi. Einnig kom fram að allir þeir aðilar sem óskað var eftir að gæfu álit sitt á áhættumati MAST hefðu skilað niðurstöðu. Í kjölfar fundarins með ráðherra óskaði framkvæmdastjóri eftir samstarfi við holdanautabændur um að fá bú til þátttöku í verkefninu, sem hafi burði til að uppfylla þau skilyrði sem sett verða gagnvart notkun á innfluttu holdanautasæði. Fimm bú hafa lýst áhuga á þátttöku í slíku. Framkvæmdastjóri lagði fram drög að umsókn um heimild til innflutnings á holdanautasæði sem stjórn samþykkir að verði send til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
3. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Framleiðsla mjólkur er á góðri siglingu þessar vikurnar og væntir stjórn að sú staða haldist fram á sumar. Greinilegt að spár sem gerðar voru seint á síðasta ári, bæði um framleiðslu og sölu hafa verið vanáætlaðar. Dæmi um það er að sala á fitugrunni er nú þegar orðin nánast jafn mikil og greiðslumark yfirstandandi árs og fer enn vaxandi; sala á fitugrunni í maí 2014 var 2% meiri en í sama mánuði árið áður. Vikuinnvigtun mjólkur um 10% meiri en á sama tíma í fyrra og þá fer fituhlutfall mjólkurinnar hækkandi, eftir að hafa verið fremur lágt frá áramótum. Mjög hagstætt tíðarfar og aukinn fjöldi sæðinga gefa fyrirheit um aukningu framleiðslunnar næstu mánuði, sem er lykillinn að styrkari birgðastöðu þegar kemur fram á árið. Þrátt fyrir að ágætlega horfi með framleiðslu- og sölumál mjólkur á þessu ári, er stjórn þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að horfa til lengri tíma og vinna að þeim aðgerðum sem hún telur nauðsynlegar til að greinin dafni til framtíðar.
4. Undirbúningur að stefnumótun fyrir nautgriparæktina. Ákveðið hefur verið að ráða Jóhönnu Lind Elíasdóttur og Runólf Sigursveinsson, búrekstrarráðunauta RML, til að vinna úttekt á efnahagslegri stöðu greinarinnar. Stefnan er að sú úttekt liggi fyrir síðsumars, þegar gert er ráð fyrir að vinna starfshóps um endurnýjun búvörusamninga fari af stað. Fundarmenn sammála um að gera einnig átak í að safna búreikningagögnum frá bændum, til að styrkja grundvöll framangreindrar útttektar.
5. Opnir tollkvótar fyrir frosna, ógerilsneydda, lífræna mjólk. Formaður reifaði hugsanleg áhrif útgáfu slíkra tollkvóta á stöðu innlendra framleiðenda lífrænnar mjólkur, ásamt því hvernig hægt væri að uppfylla betur þarfir markaðarins fyrir lífrænar mjólkurafurðir. Það er mat þeirra sem gerst þekkja að framleiðsla hennar þurfi að aukast í 5-600.000 lítra á ársgrundvelli. Framkvæmdastjóra falið að kanna reglur um vottun á lífrænni mjólkurframleiðslu sem eru í gildi í nálægum löndum og bera þær saman við hliðstæðar reglur hér á landi.
6. Staða viðræðna um yfirtöku LK á starfsemi Nautastöðvar BÍ og endurskoðun á verkaskiptasamningi LK og BÍ. Forsvarsmenn LK og BÍ hafa átt einn fund um málið. Nú er rætt um að LK leigi rekstur stöðvarinnar, kaupi búnað og áhöfn en að BÍ eigi fasteignir áfram. Til lengri tíma er stefnt að því að stöðin stýri einnig ræktunarstarfi og skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar. Framkvæmdastjóri hefur farið yfir ársreikning og hreyfingalista Nautastöðvarinnar með tilliti til hugsanlegra leigugreiðslna til BÍ. Samhliða þessum breytingum er nauðsynlegt að endurskoða gildandi verkaskiptasamning milli LK og BÍ frá árinu 2006. Stjórn LK lýsir vilja til að ljúka þessu máli í haust.
7. Fundir með fjármálastofnunum. Formaður greindi frá fundi forsvarsmanna LK og mjólkuriðnaðar með Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum. Það er mat fulltrúa LK að með þessum fundum hafi náðst að koma á framfæri skýrum skilaboðum um breytta stöðu í greininni og þeim tækifærum sem við blasa varðandi fjárfestingar og fjármögnun greinarinnar.
8. Ráðstöfun þróunarfjár í nautgriparækt. Formaður reifaði drög að samkomulagi um málið. Núverandi staða gerir BÍ og LK illkleift að sækja um fjármuni í þróunarsjóð nautgriparæktarinnar, þar sem fagráði er ætlað að leggja mat á umsóknir og stjórn BÍ að afgreiða þær. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leggur til að afgreiðsla umsókna verði flutt í Framleiðnisjóð. Jákvæð umsögn fagráðs í nautgriparækt verði áfram forsenda allra styrkveitinga. Stjórn samþykkir fyrirliggjandi drög fyrir sitt leyti.
9. Ímyndar- og kynningarmál – stofnun landbúnaðarklasans. Stefnumörkun um ímyndar og kynningarmál byggir á ályktun búnaðarþings sem gerð var að frumkvæði Landssambands kúabænda. Að mati samtakanna er nauðsynlegt að stefnumörkunarhópnum verði stýrt af kjörnum fulltrúa úr hópi bænda og að búgreinarnar standi að honum. Stjórn veltir einnig fyrir sér hlutverki og stöðu hins fyrirhugaða landbúnaðarklasa.
10. Starf félagskerfisnefndar BÍ. Nefndin hélt fund í byrjun maí. Fram hafa komið hugmyndir að ráðningu ráðgjafa vegna starfsins, líkt og í aðdraganda stofnunar Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Sigurður Eyþórsson er starfsmaður nefndarinnar. Fyrirhugað er að leiða fram skoðanir bænda á málaflokknum með netkönnun sem framkvæmd verði síðsumars. Að mati formanns, sem er fulltrúi LK í nefndinni, er nauðsynlegt að fyrir liggi hvernig frumvarp stjórnvalda um breytingar á lögum um innheimtu búnaðargjalds lítur út, áður en lengra verði haldið í starfi nefndarinnar.
11. Aðalfundur og fagþing LK 2015. Setning aðalfundar og fagþing nautgriparæktarinnar fara fram í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8 í Reykjavík. Rætt var um breytta framsetningu á skýrslu stjórnar með það fyrir augum að gera hana líflegri. Stjórn og framkvæmdastjóri móti hugmyndir að dagskrá. Framkvæmdastjóra falið að hafa samband við fyrirtæki sem kynni vörur og þjónustu og styðji við bakið á þessum viðburðum.
12. Ársfundur NMSM. Samþykkt að veita Snorra Sigurðssyni styrk að upphæð kr. 39.500 kr. vegna þátttöku hans í ársfundi NMSM, sem haldinn verður í Hamra í Svíþjóð dagana 10.-12. júní n.k.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.53.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda