Stjórnarfundir – 1. 2014-2015
07.04.2014
Fyrsti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2014-2015, haldinn mánudaginn 7. apríl 2014. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri skrifaði fundargerð.
Formaður setti fund kl. 11.10 og gekk til dagskrár.
1. Kosningar. Guðný Helga Björnsdóttir kjörin varaformaður með fjórum atkvæðum. Einn seðill auður. Jóhann Gísli Jóhannsson kjörinn ritari með fjórum atkvæðum. Einn seðill auður. Verðlagsnefnd búvara. Formaður gerir tillögu um að halda áfram núverandi skipan, sem er að Sigurður Loftsson er fulltrúi LK í nefndinni og Þórarinn Pétursson, formaður LS er varamaður hans. Sindri Sigurgeirsson er fulltrúi BÍ og Guðný Helga Björnsdóttir er varamaður hans. Sú tillaga samþykkt. Samstarfsnefnd SAM og BÍ. Formaður gerir tillögu um að fulltrúi LK verði Jóhann Nikulásson og Jóhann Gísli Jóhannsson verði varamaður hans. Sú tillaga samþykkt. Framkvæmdanefnd búvörusamninga. Tillaga um að fulltrúi LK verði Sigurður Loftsson. Sú tillaga samþykkt. Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Tillaga um að fulltrúi LK verði Baldur Helgi Benjamínsson. Sú tillaga samþykkt.
2. Framkvæmd aðalfundar LK og fagþing nautgriparæktarinnar. Að mati stjórnar heppnaðist fagþingið vel og greinilegt að eftirspurn er eftir því meðal umbjóðenda samtakanna. Hepplegt að halda það í aðdraganda aðalfundar. Aðalfundur og árshátíð tókust einnig vel að mati stjórnar. Nauðsynlegt að auglýsa ársfund fagráðs samhliða fagþinginu, þar sem hann er opinn öllu áhugafólki um nautgriparækt. Bændablaðið sýndi samkomum þessum áberandi tómlæti að mati stjórnar.
3. Aðalfundur og fagþing 2015. Einróma álit stjórnar að halda eigi fagþingi áfram á næsta ári. Setning aðalfundar verði að morgni fimmtudagsins 19. mars og fagþing eftir hádegið. Stefnt að halda fagþing og aðalfund á fimmtudegi og föstudegi. Framkvæmdastjóra falið að útvega rúmgóða aðstöðu fyrir fagþingið og fá kostunaraðilar til að standa straum af henni, en hagkvæmari aðstöðu fyrir fundahöldin á föstudeginum. Ákveðið að fundurinn verði haldinn í Reykjavík meðan verið er að þróa hugmyndina um fagþingið. Fá þjónustuaðila sem snúa að fóðri, fjósbúnaði og þ.h. Fundarsetning verði á hefðbundnum tíma þann 19. mars, almennar umræður og ávörp gesta fyrir og um hádegið, fagþingið verði síðar um daginn og aðalfundi verði fram haldið á föstudeginum 20. mars. Árshátíð verði föstudagskvöldið 20. mars.
4. Umsögn vegna áhættumats MAST. LK skilaði umsögn vegna málsins til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins föstudaginn 4. apríl sl. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að funda með ráðherra um málið. Talsverðar umræður um framhald málsins og stöðu þess.
5. Staða mála við uppsetningu og innleiðingu EUROP kjötmats. Framkvæmdastjóri hefur innt MAST eftir gangi mála við innleiðingu á nýju kjötmati. Kostnaðaráætlun stofnunarinnar við innleiðingu á kjötmatinu hljóðaði upp á 4 milljónir kr. Ekki hafa fengist fjárveitingar til að standa straum af verkefninu. Framkvæmdastjóra falið að kanna hvernig var staðið að hliðstæðri innleiðingu í kindakjötsframleiðslunni á sínum tíma. Stjórn samþykkir svofellda ályktun um málið:
Landssamband kúabænda lýsir yfir miklum vonbrigðum með að vinna við upptöku á EUROP mati á nautakjöti skuli ekki vera hafin. Í skýrslu starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar sem skilað var til ráðherra í júlí 2013, var ein af megin niðurstöðunum að „Þegar verði hafinn undirbúningur að upptöku á nýju kjötmati, með það að markmiði að innleiðing þess geti hafist í ársbyrjun 2014. Yfirkjötmatið komi á fót samráðshópi reyndra kjötmatsmanna frá stærstu sláturleyfishöfunum. Nýtt kjötmat verði síðan framkvæmt samhliða eldra kjötmati fram til ársloka 2014 og þá taki EUROP kjötmat við.“ Það var skilningur forsvarsmanna Landssambands kúabænda að í kjölfar skýrslunar fyrirhugaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að hefja undirbúning að upptöku á nýju kjötmati árið 2014. Samtökin telja afar brýnt að tekið verði upp EUROP mat á nautakjöti og hvetja til að undirbúningur vegna þess hefjist hið allra fyrsta.
6. Úrvinnsla ályktana aðalfundar LK 2014.
A. Tímasetning ákvarðana varðandi framleiðsluumhverfi. Tilmæli til stjórnar LK.
B. Mikilvægi hráefnisframboðs. Ábending til kúabænda og fagstofnana. Senda til RML, LBHÍ, SAM og MS
C. Úrvinnsla hagtalna. Senda á Hagstofu Íslands, ásamt áminningu um að ljúka uppgjöri búreikninga 2012 nú þegar. Fá bókhaldsaðila í héraði til að senda inn gögnin. Byggja inn í dkBúbót. Mikilvægt að bæta gagnaskil.
D. Úttekt á stefnumörkun LK 2021. Ábending til stjórnar LK. Eðlilegt að vinna við þetta fari fram samhliða þeirri stefnumótun sem framundan er ásamt stjórnvöldum vegna búvörusamninga.
E. Sáttmáli um upprunamerkingar. Senda til BÍ. LK hefur sérstakar áhyggjur af stöðu nautakjötsins.
F. Útdeiling beingreiðslna og framleiðsluskylda. Tillagan kemur til framkvæmda með mjólkurreglugerð fyrir árið 2015, nauðsynlegt að mati stjórnar að koma henni vel á framfæri við bændur nú þegar. Framkvæmdastjóra falið að fylgja því eftir.
G. Búvörusamningar. Óskað hefur verið eftir tilnefningum í starfshóp vegna stefnumótunar í mjólkurframleiðslu og er sá frestur sem til þess var gefin runnin út fyrir nokkru. BSRB hafa ekki tök á að vera með. Nauðsynlegt að hefja nú þegar undirbúning að þessu starfi. Mikilvægt að þetta starf fari af stað sem allra fyrst.
H. Rannsóknir í nautgriparækt. Ályktun verði send til LBHÍ, BÍ, Menntamálaráðuneyti og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
I. Eftirlit með kúabúum. Ályktunin verði send til MAST. Hliðstæðar ályktanir hafa verið ræddar við stofnunina á undanförnum árum. Stofnunin hefur unnið að uppsetningu handbókar um verklagsreglur fyrir eftirlitsdýralækna sem þeim er gert að starfa eftir.
J. Ályktun um meiri mjólk. Ályktunin verði send til RML, hefur einnig verið rætt við mjólkuriðnaðinn. Afar mikilvægt að þróun framleiðslunnar næsta sumar verði hagfelld. Rannsóknir í nágrannalöndum hafa sýnt að innihaldslýsingar kjarnfóðurs standast ekki mál. Framkvæmdastjóra falið að kanna stöðu þessara mála hér á landi.
K. Fyrirmyndarbú. Starfshópur um málið er hvattur til að ljúka því sem fyrst.
L. Kynbótastarf. Verður tekið upp síðar á starfsárinu.
M. Kvíguskoðun. Ályktunin verði send fagráði í nautgriparækt.
N. Miðlun á kálfum. Hvetja aðildarfélögin til að miðla gripum. Framkvæmdastjóri útbúi póstlista sem þau geti hagnýtt sér í þessum tilgangi.
O. Veffræðsla. Er í farvegi.
P. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Er í farvegi.
Q. Samþykktabreytingar. Er frágengið mál.
R. Tillaga um frekari breytingar á samþykktum LK. Verði sent til aðildarfélaganna með aðalfundarboði 2015.
S. Nautastöð. Ákveðið að fulltrúar LK í þessu verkefni verði Sigurður Loftsson og Jóhann Nikulásson. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að það fari af stað hið allra fyrsta.
T. Búnaðargjald. Formanni og varaformanni LK er falið að smíða tillögur á grundvelli ályktunarinnar.
U. Fjármögnun félagskerfis og fagstarfs. Tillaga að félagsgjaldakerfi verði sett saman í samstarfi við aðildarfélögin á grundvelli ályktunarinnar.
V. Rekstur og fjármögnun Landssambands kúabænda. Ákveðið að Guðný Helga og Jóhann Nikulásson taki að sér að fylgja ályktuninni eftir.
7. Önnur mál.
A. Starfsskipulag stjórnar. Stefnt að næsta fundi mánudaginn 2. júní. Símafundir fram að því ef þörf er á. Næsti fundur þar á eftir verði haldinn föstudaginn 22. ágúst.
B. Fundur með bankamönnum. Trausti fór í stuttu máli yfir fund hans með forstöðumanni fyrirtækjasviðs Arionbanka á Akureyri. Hefur greint nokkurn fjölda búreikninga kúabúa og áhrif bústærðar á getu búanna til að standa undir skuldum.
C. Niðurstaða kvótamarkaðar 1. apríl sl. Að mati stjórnar LK vekur niðurstaðan nokkra athygli, eitt af aðal markmiðum markaðarins er að draga úr kostnaði við greiðslumarksviðskipti, það er að ganga eftir. Núverandi fyrirkomulag nær einnig að draga gríðarlegan samdrátt í eftirspurn eftir greiðslumarki fram með skýrum hætti.
D. Grein framkvæmdastjóri vegna skrifa Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors um landbúnað. Málið rætt stuttlega.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.51.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda