Beint í efni

Stjórnarfundir – 11. 2013-2014

27.03.2014

Ellefti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn á Hótel Sögu fimmtudaginn 27. mars 2014 kl. 19.00. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.

 

1. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Formaður fór yfir stöðu málsins og fjallaði um ræðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Fagþingi nautgriparæktarinnar fyrr um daginn. Í henni kom fram að ráðherra er tilbúinn að flýta umfjöllun um áhættumat í ráðuneytinu og er almennt mjög jákvæður í málinu. Stjórn LK leggur til að sótt verði um heimild til innflutnings inn á ákveðin bú, og að málinu verði fylgt eftir í samvinnu við BÍ.  

 

2. Framleiðsluskylda og útdeiling beingreiðslna. Farið yfir breytingar á framleiðsluskyldu, útdeilingu beingreiðslna og tollamál.

 

3. Fagþing nautgriparæktarinnar 2014. Það er mat stjórnar að Fagþingið hafi tekist mjög vel, auk þess sem aðsókn fór langt fram úr björtustu vonum. Almenn ánægja var með erindi en stjórn leggur engu að síður áherslu á að erindin eigi að snúa að bændum. Hún telur einnig mikilvægt að farið verði í að undirbúa Fagþing 2015 sem fyrst og auglýsa eftir erindum. Að mati stjórnar ætti Fagráð að skilyrða styrkveitingar úr þróunarsjóði nautgriparæktarinnar því, að niðurstöður þeirra verkefna hljóti kynningu á fagþingi. Stjórn leggur einnig áherslu á að þjónustuaðilum greinarinnar verði gefinn kostur á aðkomu að fagþinginu og þeir greiði fyrir hana. Aðstaða Fagþings verði því að taka mið af slíku.

 

4. Aðalfundur LK 2014. Farið yfir helstu atriði í lokaundirbúningi fundarins.

5. Ársreikningur LK 2013. Stjórn og framkvæmdastjóri staðfestir reikninginn með undirritun sinni.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19.50.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda.