Beint í efni

Stjórnarfundir – 10. 2013-2014

24.03.2014

Fundargerð tíunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík, mánudaginn 24. mars 2014. Fundur settur kl. 11.05. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson og Jóhanna Hreinsdóttir 1. varamaður í forföllum Trausta Þórissonar. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Snorri Örn Hilmarsson formaður félags holdanautabændum var gestur undir lið 2.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Staðfest og birt að loknum fundi.

 

2. Áhættumat MAST vegna innflutnings á nautasæði og fósturvísum frá Noregi. Stjórn lýsir ánægju með að skýrsla Matvælastofnunar skuli vera komin. Athyglisvert er að sjá hversu lítill greinarmunur er gerður á sæði og fósturvísum, við innflutning, hvað áhættu varðar. Ráðuneytið hefur nú sett málið í umsagnarferli til 4. apríl n.k. og væntir stjórn þess að ákvörðun geti legið fyrir fljótlega eftir það, enda gríðarlega mikilvægt að fá nýtt blóð í stofnana í sumar. Sumar af þeim áhættuminnkandi aðgerðum sem lagðar eru til, telur stjórn æskilegt að taka upp í leiðbeiningar um góða búskaparhætti og viðráðanlegt er að bregðast við flestum þeirra. Mikilvægt er að kanna ástæður fyrir slöku fanghlutfalli hjá íslenskum holdakúm. Gera þarf leiðbeiningar fyrir holdanautabændur varðandi vinnubrögð og aðstöðu til sæðinga. Einnig þarf að gera ráðstafanir til að koma upp aðstöðu á þeim búum sem hyggjast nýta innflutt sæði. Samþykkt að leggja fram tillögu um innflutning erfðaefnis í holdanautastofnana fyrir aðalfund LK.

 

3. Starfshópur um stefnumótun í mjólkurframleiðslu. Stjórn fagnar því að þetta  starf sé að hefjast. Búið að tilnefna formann LK til setu í starfshópnum. SAM tilnefndi Egil Sigurðsson og Rögnvald Ólafsson til vara. BÍ tilnefna Sindra Sigurgeirsson og Guðnýju Helgu Björnsdóttur. Hópnum virðist ætlað heldur víðtækara hlutverk en kveðið var á um í mjólkursamningi frá 28. september 2012, en hann skal ljúka störfum í síðasta lagi 1. desember n.k. Í tengslum við þetta er nauðsynlegt að Landssamband kúabænda hafi forgöngu um að vinna stefnumótun fyrir greinina til næstu 10-20 ára. Samþykkt að leggja fram tillögu um málið fyrir aðalfund LK. 

 

4. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Salan er enn mjög mikil og jókst um milljón lítra á fitugrunni milli mánaða. Innvigtun á fitu var ívið minni í febrúar 2014 en í sama mánuði í fyrra. Birgðir á smjöri voru minni í lok febrúar en í upphafi mánaðarins. Rætt um átaksverkefni MS og mjólkureftirlits, sem og átaksverkefni RML um „Meiri mjólk“. Að mati stjórnarmanna virðist meiri hugur í stéttinni en áður og greinilegt er að vitundarvakning er að verða meðal bænda um stöðu mála. Mikilvægt að gefa út skilaboð varðandi greiðslumark og greiðslur fyrir umframmjólk árið 2015 sem fyrst. Gríðarlega mikilvægt að halda uppi framleiðslunni í sumar.

 

5. Framtíðarverkefni og fjármögnun LK. Formaður fór yfir stöðuna í fjármögnun samtakanna í ljósi þess að boðað hefur verið að innheimtu búnaðargjalds verði hætt í núverandi mynd. Mikilvægt að taka nú þegar tillit til gerbreyttra forsendna í þeim efnum. Talsverðar umræður um hvaða stefnu samtökin eigi að taka, hvers konar áherslur eigi að vera og hversu öflugu starfi verði hægt að halda úti. Skoða þarf allt skipulag og ábyrgð ræktunarstarfsins samhliða viðræðum um yfirtöku LK á Nautastöðinni. Mikilvægt að viðhalda félagslegri samstöðu á þessum umbrotatímum.

 

6. Stefnumörkun LK og SAM um fyrirmyndarbú. Formaður reifaði stöðu málsins, ákveðið að leggja stefnumörkunina fyrir aðalfund.

 

7. Aðalfundur LK 2014. Farið yfir starfsmannamál aðalfundar, búið að ráða flesta formenn og ritara nefnda, fundarstjóra og skrifstofustjóra. Fundarritari verður Runólfur Sigursveinsson. Skipan mála til nefnda:

 

a. Starfsnefnd 1. Breytingar á samþykktum LK. Ársreikningur LK 2013. Fjárhagsáætlun LK 2014. Tillaga nr. 21 um búnaðargjald. Tillaga nr. 22 um Nautastöð BÍ. Tillaga nr. 24 um búnaðargjald. Tillaga nr. 25 um félagskerfi kúabænda. Tillaga nr. 26 um Nautastöð BÍ.

 

b. Starfsnefnd 2. Leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Tillaga nr. 29 um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Tillaga nr. 28 um veffræðslu LK. Tillaga nr. 2. um rannsóknir í nautgriparækt. Tillaga nr. 3 um samræmingu eftirlits. Tillaga nr. 5 um byggingareiginleika. Tillaga nr. 10 um „Meiri mjólk“. Tillaga nr. 12 um leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Tillaga nr. 14 um RARIK. Tillaga nr. 15 um sæðingaáætlanir. Tillaga nr. 17 um sólarlagsákvæði básafjósa. Tillaga nr. 18 um kvíguskoðun. Tillaga nr. 20 um kvíguskoðun. Tillaga nr. 23 um nautaeldi.     

 

c. Starfsnefnd 3. Tillaga nr. 30 um búvörusamninga. Tillaga nr. 27 um skiptingu beingreiðslna. Tillaga nr. 1 um virðisaukaskatt á matvæli. Tillaga nr. 4 um ákvarðanir varðandi framleiðsluumhverfið. Tillaga nr. 6 um hráefnisframboð. Tillaga nr. 7 um Hagstofa og hagtölusöfnun. Tillaga nr. 8 um starfsumhverfi. Tillaga nr. 9 um stefnumörkun. Tillaga nr. 11 um búvörusamningur. Tillaga nr. 13 um upprunamerkingar matvæla. Tillaga nr. 16 um búvörusamninga. Tillaga nr. 19 um búvörusamninga.

 

8. Fagþing nautgriparæktarinnar. Farið yfir helstu atriði er varða framkvæmd fagþings.

 

9. Ársreikningur. Farið yfir niðurstöðu ársreiknings sem er þannig að afkoma Landssambands kúabænda á árinu 2013 var jákvæð sem nam kr. 7.219.370. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir félagsins kr. 53.644.244, bókfært eigið fé í árslok er kr. 48.918.421 og er eiginfjárhlutfall félagsins 91%. Ýtarlegar umræður um mögulega hagræðingu í rekstri samtakanna. Mikilvægt að hengja fagþingið saman við aðalfundinn í framtíðinni. Ársreikningur verðu undirritaður á næsta fundi stjórnar.

 

10.  Önnur mál.

a. Rætt um fyrirkomulag á uppgjöri fyrir verkefni Alta.

b. Málefni Hótels Sögu rædd stuttlega.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK