Beint í efni

Stjórnarfundir – 04. f. 2000/12001

29.11.2000

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda



Fjórði fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn miðvikudaginn 29. nóvember 2000 og hófst hann klukkan 11:00. Mættir voru Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig voru á fundinum Stefán Magnússon og Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til dagskrár:

1. Bactoscan
Formaður fór yfir stöðu málsins og með hvaða hætti nýja kerfinu verður komið á. Nokkur umræða varð um með hvaða hætti nýja kerfið eigi að taka við af hinu gamla. Samþykkt var að leggja til að bæði kerfin verði látin gilda í einn mánuð eftir gildistöku reglugerðarinnar og að besta flokkun gagnist viðkomandi innleggjanda þann mánuð. Eftir tímann verði niðurstöður bactoscan eingöngu látnar gilda.

2. Girðingarlög
LK hefur borist drög að nýjum girðingarlögum. Mikil umræða varð um málið og þá sérstaklega kröfur um kostnaðarhlutdeildir. Breytt landnýtingarform hlýtur að kalla á breyttar áherslur varðandi girðingar, sem drögin virðast ekki taka tillit til. Ákveðið var að formaður geri drög að áliti um málið fyrir hönd LK og sendi til stjórnarmanna til umsagnar áður en svar LK verði sent til landbúnaðarráðuneytisins.

3. NRF
Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir stöðu mála en búið er að ganga frá samkomulagi LK við GENO í Noregi um öflun fósturvísa. Verið er að framkvæma sjúkdómarannsóknir sem liggja munu fyrir fljótlega. Þá er hafin vinna við að afla fósturmæðra fyrir Hríseyjarstöðvarinnar. Þá gengur vinna NLK ehf við endurnýjun á fjósinu í Hrísey mjög vel.

4. Bjargráðasjóður
Farið var yfir tillögur frá Bjargráðasjóði með breyttum áherslum varðandi úthlutunarreglur. Tillögurnar voru samþykktar óbreyttar.

5. Önnur mál
Kúariða
Rætt var um kúariðu og það ástand sem orðið er í Evrópu. Málið er háalvarlegt og þá sér í lagi þau ofstækislegu viðbrögð almennings í Mið-Evrópulöndum. Fram kom að yfirdýralæknir er að móta enn virkara eftirlit á þessum sjúkdómi.

Nautakjötsmálefni
Rætt var um stöðu mála og ákveðið senda skoðanakönnun út til bænda með rafrænum hætti.

Fleira ekki bókað og fundi slitið kl. 12:15