Stjórnarfundir – 8. 2013-2014
23.01.2014
Fundargerð áttunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn á Bitruhálsi 1 í Reykjavík fimmtudaginn 23. janúar 2014. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Einnig sátu fundinn búnaðarþingsfulltrúar LK, Guðrún Sigurjónsdóttir og Jóhannes Ævar Jónsson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk síðan til dagskrár.
Fundur var settur kl. 11.14.
1. Afgreiðsla fundargerðar síðasta fundar. Fundargerðin samþykkt án athugasemda. Birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.
2. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Samkvæmt yfirliti SAM um sölu mjólkurafurða, var sala nýliðins árs 117,6 milljónir lítra á próteingrunni og 120,8 milljónir lítra á fitugrunni. Vísbendingar eru um að breyta þurfi nýtingarstuðlum, vegna ívið lægra efnahlutfalls í innleggsmjólk. Salan á árinu 2014 fer af stað af miklum krafti og gera nýjustu söluspár ráð fyrir 125 milljón lítra sölu á fitugrunni á árinu. Þar að auki þarf að byggja upp birgðir, þannig að innvigtunin þarf að aukast talsvert frá því sem hún er nú. Formaður gerir tillögu um að settur verði á fót aðgerðahópur sem skipaður verði fulltrúum LK, BÍ, RML og SAM sem hafi það hlutverk að koma með tillögur að víðtækum aðgerðum sem stuðli að aukningu framleiðslunnar. Sú tillaga samþykkt samhljóða. Stjórnin leggur auk þess til að gerð verði greining á áhrifum þess að jaðarverð sem kúabændur fá fyrir framleiðslu sína er nær tvöfalt hærra nú en fyrir ári síðan, og leggur áherslu á að sú greining verði kynnt fyrir framleiðendum. Jafnframt er mikilvægt að greina hver jaðarkostnaður mjólkurframleiðenda er um þessar mundir, með hliðsjón af þróun aðfangaverðs. Stjórn leggur einnig til að bændavefur Auðhumlu svf. verði nýttur betur en verið hefur í að koma upplýsingum um framleiðslu og sölu mjólkurafurða á framfæri við bændur. Einnig verði tekin viðtöl við bændur sem hafa náð góðum árangri í að auka framleiðsluna, og þau birt á naut.is. Fram kom að forsvarsmenn BÍ og LK hafa komið að máli við ráðgjafafyrirtækið Alta í Grundarfirði um að fyrirtækið meti framleiðslugetu nautgriparæktarinnar, bæði hina líffræðilegu hlið sem og hina tæknilegu. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 1,6 milljónir kr. Ákveðið að senda erindi til SAM þar sem þess verði óskað að samtökin taki þátt í verkefninu.
3. Mál til Búnaðarþings 2014. Stjórn LK ákveður að senda eftirtalin mál til Búnaðarþings 2014: Útgáfu- og kynningarmál BÍ. Mótuð verði skýr stefna og framtíðarsýn í útgáfu- og kynningarmálum Bændasamtaka Íslands. Ríkisjarðir og nýliðun. Bændasamtök Íslands hafi atbeina að því að farið verði yfir forsendur á útleigu ríkisjarða og með hvaða hætti megi koma þeim í landbúnaðarnot. Kannað verði hvort nýta megi slíkar jarðir til að auðvelda nýliðun í landbúnaði, t.d. með tímabundnum ábúðarrétti og kauprétti að ákveðnum tíma liðnum. Nautastöð BÍ. Snýr að stofnun sérstaks rekstrarfélags um nautastöðina. Málið hefur verið rætt við forsvarsmenn BÍ. Nokkrar umræður um undirbúning og framkvæmd þingsins.
4. Merkingar matvæla. Þessi málaflokkur hefur verið mikið til umræðu á undanförnum vikum. Ljóst að fjölmörg álitamál munu koma upp í því samhengi, t.d. hvernig merkja eigi afurðir sem samsettar eru úr margs konar aðföngum, eða hversu strangar kröfur á að gera um hlutfall erlendra aðfanga til þess að þær geti talist íslenskar. Minnisblað formanns BÍ „Hver framleiðir matinn minn“ lagt fram til kynningar. Stjórn fagnar þessu framtaki og telur það löngu tímabært. Stjórn LK telur einnig mikilvægt að koma á fót samráðsvettvangi búgreinanna um merkingar matvæla.
5. Stöðumat fyrir nautgriparæktina. Samkvæmt bókun við framlengingu mjólkursamnings frá 28. september 2012 átti stöðumati nautgriparæktarinnar að vera lokið eigi síðar en 31. desember sl. LK hefur ítrekað gengið eftir efndum í þeim efnum, m.a. með bréfi 28. ágúst sl. og nú síðast um miðjan janúar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem frá ráðuneytinu hafa borist má gera ráð fyrir að verkið fari af stað á næstu vikum. Mikilvægt að hefja undirbúning vegna þessa nú þegar. Afla þarf upplýsinga um skuldastöðu greinarinnar og fjárfestingaþörf. Teikna upp mögulegar sviðsmyndir af næsta samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og kanna afleiðingar, kosti og galla sem breytingar á einstökum þáttum starfsumhverfisins kunna að hafa í för með sér.
6. Nautastöð BÍ og skipulag sæðingastarfseminnar. Ákveðið á síðasta fundi stjórnar að senda erindi til BÍ varðandi framtíðarskipulag Nautastöðvarinnar. Forsvarsmenn LK og BÍ funduðu um málið fyrr í janúar. Þeirri hugmynd var varpað fram að setja stjórn yfir stöðina og stofna um hana sérstakt rekstrarfélag. BÍ fjármögnuðu uppbyggingu stöðvarinnar og skuldar hún samtökunum nálægt 140 milljónum kr vegna þess. Samtökin hafa stillt ávöxtunarkröfu í hóf. Fram kom að rekstur sæðingaþjónustunnar á Austurlandi er mjög erfiður en viðræður standa yfir milli Búnaðarsambands Austurlands og Kynbótastöðvar Suðurlands, um að síðarnefndi aðilinn taki við sæðingastarfseminni eystra. Þeirri hugmynd hefur verið hreyft hvort unnt sé að nýta fjármuni úr búnaðarlagasamningi sem ætlaðir voru til þjálfunar staðbundinna verktaka í sæðingunum, til að stuðla að frekari sameiningu í sæðingastarfseminni þar sem vilji til þess er fyrir hendi. Varðandi ræktunarstarfið sjálft er stjórn þeirrar skoðunar að Fagráð í nautgriparækt eigi að hafa meiri áhrif á val nautkálfa á Nautastöð en nú er. Það sjónarmið kom einnig fram að endurskoða þyrfti ræktunarmarkmið í kjölfar breytinga á verðhlutföllum fitu og próteins í mjólk.
7. Framgangur ályktana aðalfundar LK 2013. Formaður reifaði afdrif ályktana aðalfundar Landssambands kúabænda 2013. Framkvæmdastjóra falið að kanna stöðu ályktana stjórnar undanfarið ár með sama hætti.
8. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Niðurstaða áhættumats MAST þar að lútandi skal liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar n.k. Niðurstaðna Veterinærinstituttet er að vænta í mars. Stjórn leggur áherslu á að málið verði rætt við ráðherra þegar niðurstaða liggur fyrir. Teljist beinn sæðisinnflutingur fær leið, þarf að undirbúa breytingar á lögum um innflutning dýra. Ef svo er ekki, er komin upp algerlega ný staða í málinu.
9. Ný reglugerð um aðbúnað nautgripa. Starfshópur hefur skilað af sér og verða drög að reglugerðinni send til umsagnar á næstunni. Að mati stjórnar eru fjölmörg atriði í núverandi drögum sem þarfnast gagngerrar endurskoðunar við.
10. Veffræðsla LK. Var lagt upp sem tilraunaverkefni til tveggja ára. Almenn ánægja ríkir meðal umbjóðenda samtakanna með verkefnið og þátttaka í því er framar vonum. Stjórn ákveður að leggja til við aðalfund að verkefninu verði haldið áfram næstu tvö ár. Kannað verði hvort fleiri aðilar vilja nýta þennan farveg til að koma fróðleik og fagefni á framfæri.
11. Tilnefning fulltrúa í stjórn SAM. Núverandi fulltrúi er Sigurður Loftsson, til vara er Jóhann Nikulásson. Formaður lýsir sig reiðubúinn til áframhaldandi þátttöku. Ákveðið að tilnefna Sigurð Loftsson sem aðalmann og Jóhann Nikulásson sem varamann hans.
12. Styrkbeiðni frá Meistarafélagi kjötiðnaðarmanna. MFK óskar eftir 350.000 kr stuðningi við fagkeppni meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Stjórn ákveður að verða við beiðni félagsins um stuðning.
13. Ferð LK á KvægKongres í Danmörku. Framkvæmdastjóri reifaði stöðu málsins. 16 manns hafa staðfest þátttöku. Búið að ganga frá flugi og gistingu. Framkvæmdastjóri velti upp hvort framlag samtakanna til ferðarinnar yrði að leigja bíla undir hópinn og var það samþykkt. Honum falið að leita tilboða í það.
14. Önnur mál
a. Fagþing nautgriparæktarinnar. Stjórn ákveður að bæta við einni málstofu um mjólkurframleiðsluna og lengja dagskrána til kl. 18. Áhersla verði lögð á fóðrun og fituinnihald mjólkur, ásamt aðbúnaði og framleiðsluaðstöðu.
b. Nokkrar umræður urðu um stuðning þróunarsjóðs við nemendaverkefni, stöðu grunnnámsins og starfsumhverfið að námi loknu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.38
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK