Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Stjórnarfundir – 7. 2013-2014

05.12.2013

Fundargerð sjöunda fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn fimmtudaginn 5. desember 2013 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Gestur undir lið 2 var Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd með einni breytingu. Verður birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.

 

2. Sameiginleg málefni LK og BÍ. Formaður Bændasamtakanna fór yfir nokkur sameiginleg málefni sem snerta bæði LK og BÍ: Endurfjármögnun Hótels Sögu ehf. Formaður BÍ fór ítarlega yfir gang málsins. Endurfjármögnuninni er lokið og að mati forsvarsmanna félagsins er reksturinn þar með kominn á réttan kjöl. Endurskipulagning félagskerfisins. Að mati formanns BÍ er hér um að ræða mikilvægasta viðfangsefni stjórnar og búnaðarþingsfulltrúa á yfirstandandi kjörtímabili. Málið hefur verið mjög lengi á dagskrá og því orðið afar brýnt að ná fram breytingum. Markmið þeirra er að auka skilvirkni, tryggja félagslega þátttöku og spara fjármuni. Talsverð óvissa ríkir um innheimtu búnaðargjaldsins, sem stendur undir meginhlutanum af rekstri félagskerfis bænda. Verði grundvallar breytingar á innheimtu þess, mun slíkt leiða til allsherjar uppstokkunar á félagskerfinu. Því er afar mikilvægt að móta stefnu um framtíðar fjármögnun þess. Að mati stjórnar LK er drifkraftur félagskerfisins í gegnum búvöruframleiðsluna og í gegnum þann farveg er líklegast að bændur séu tilbúnir að greiða þann kostnað sem því fylgir. Þá er einnig nauðsynlegt að mati stjórnar að mynda búgreinaráð, sem skipað verði formönnum búgreinafélaganna og verði í nánu samstarfi við formann BÍ. Stjórnin telur einnig brýnt að breyta skipulagi Búnaðarþings. Framtíðarskipan á rekstri Nautastöðvar BÍ. Formaður BÍ fór yfir rekstrarform stöðvarinnar í kjölfar breytinganna sem orðið hafa með tilkomu RML. Að hans mati er nauðsynlegt að skýra ábyrgð á rekstri og faglegri stjórnun stöðvarinnar til framtíðar, einnig ætti bein aðkoma búgreinarinnar að vera mun meiri að rekstri stöðvarinnar en hún er í dag. Mikilvægt að greinin formi hugmyndir um hvernig sú aðkoma eigi að vera. Framkvæmdastjóra falið að senda formlegt erindi til BÍ, þar sem óskað verði eftir viðræðum um málið. Kvíguhótel. Víða erlendis þekkist það að uppeldi á kvígum fer fram annars staðar en á kúabúunum sjálfum. Landssamband kúabænda leggur til að kannað verði hvort í slíku fyrirkomulagi felist stækkunarmöguleikar fyrir þá bændur sem vilja auka mjólkurframleiðsluna, einnig hvort með þessu sé hægt að nýta þegar uppbyggða framleiðsluaðstöðu sem fallið hefur úr mjólkurframleiðslunni. Jafnframt er ljóst að víða er geymslurými fyrir búfjáráburð takmarkandi þáttur. Formaður BÍ tekur jákvætt í hugmyndina og lýsir áhuga á að hún verði útfærð í samstarfi LK og BÍ. Samskipti úrvinnslufyrirtækja við samtök bænda um grundvallarmál. Ákveðið að LK og BÍ sendi sameiginlega ályktun um málið.

 

3. Fagþing nautgriparæktarinnar. Málið var tekið fyrir á fundi fagráðs í nautgriparækt 2. desember sl. og hlaut þar jákvæðar undirtektir. Unnur Salome Árnadóttir, ráðunautur hjá Nortura í Noregi mun halda erindi um húsvist, fóðrun og aðbúnað holdagripa þar í landi. Einnig lagt til að gerð verði grein fyrir stöðu átaksverkefnis RML um stöðu innlendrar nautakjötsframleiðslu. Verkefnisstjóri er Þórður Pálsson, ráðunautur á Blönduósi. Fagþingið verði skipulagt í samráði við BÍ en verði á ábyrgð LK. Formanni og framkvæmdastjóra falið að fá bakhjarla að þinginu. Búið að ganga frá aðstöðu og beinni útsendingu á naut.is.

 

4. Ferð KvægKongres 2014. Samtökin stefna að ráðstefnuferð á KvægKongres 2014, fagráðstefnu danskra kúabænda sem haldin verður í Herning á Jótlandi dagana 24. og 25. febrúar n.k. Framkvæmdastjóri reifaði stöðu málsins en búið er að setja upp drög að dagskrá ferðarinnar og gera lauslega kostnaðaráætlun. Ferðin verði auglýst á heimasíðu samtakanna hið fyrsta, auk þess sem hún verði kynnt fyrir helstu aðilum. Áætluð brottför er sunnudaginn 23. febrúar og heimkoma miðvikudagskvöldið 26. febrúar.

 

5. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Sala mjólkurafurða áfram mikil. Ljóst að framleiðslan 2014 þarf að vera 126-7 milljónir lítra ef á að takast að anna ört vaxandi markaði og koma birgðastöðu í viðunandi horf. Afar mikilvægt að mati stjórnar að vinna spár um mjólkurframleiðsluna, annars vegar til skemmri tíma og hins vegar til næstu ára. Gríðarlega mikilvægt að ástand á borð við það sem skapaðist í haust komi alls ekki fyrir aftur. Að mati stjórnar eru nánast allir framleiðsluhvatar komir fram sem færir eru; aukning á greiðslumarki, aukin framleiðsluskylda og fullt afurðastöðvaverð fyrir umframmjólk. Stjórn telur afar mikilvægt að bændur rói öllum árum að aukningu mjólkurframleiðslunnar.

 

6. Beingreiðslur, viðskipti með greiðslumark og greiðslumarksreglugerð 2014. Megin breytingin á greiðslumarksreglugerðinni frá fyrra ári er að framleiðsluskylda hefur verið aukin úr 90% í 95%. Á fundi með ráðherra í nóvember sl. var ákveðið að fara í viðræður á nýju ári um mögulegar breytingar á vægi A, B og C greiðslna. Stjórn telur nauðsynlegt að færa á milli þessara flokka, einkum að auka vægi C-greiðslna á kostnað A-hlutans. Framkvæmdastjóra falið að stilla upp mismunandi sviðsmyndum í þeim efnum. Sú vinna geti orðið upptaktur að frekari stefnumótunarvinnu inn í framtíðina. Vonir standa til að ný kvótamarkaðsreglugerð verði gefin út um miðjan desember, þar sem markaðsdögum verði fjölgað í þrjá.   

 

7. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Formaður reifaði stöðu málsins, það var rætt á fundi með ráðherra í lok nóvember. Að mati stjórnar þarf að vera hægt að leggja áhættumat norska VeterinærInstituttet til grundvallar við frekari ákvarðanatöku í málinu. Liggur mjög á að fá svar við því hvort beinum innflutningi á holdanautasæði fylgi áhætta fyrir heilbrigði búfjár á Íslandi. Stjórn ákveður að láta Veterinærinstituttet gera sjálfstætt áhættumat, áætlaður kostnaður við slíkt er 220.000 NOK. Framkvæmdastjóra falið að senda formlegt erindi til BÍ og ANR, þess efnis að stjórn LK hafi ákveðið að láta VeterinærInstituttet í Noregi gera áhættumat á innflutningi holdasæðis.

 

8. Ný aðbúnaðarreglugerð fyrir nautgripi. Varaformaður, sem er fulltrúi LK í starfshópi um smíði á nýrri aðbúnaðarreglugerð, reifaði stöðu málsins. Flest ágreiningsefni komin fram, en að mati stjórnar eru enn fjölmörg atriði í núverandi drögum óásættanleg. Fjós sem ekki standast núverandi kröfur, fái aðlögunartíma. Snorra Sigurðssyni, mjólkurgæðaráðunaut í Danmörku verði falið að lesa reglugerðardrögin yfir og koma með ábendingar um úrbætur.

 

9. Stefna LK og SAM um fyrirmyndarbú. Formaður fór yfir stöðu málsins, en nokkuð hefur verið unnið í því undanfarinn mánuð. Mikil vinna er þó eftir við handbókina. Kafli um umhverfismál stendur útaf í heild sinni, framkvæmdastjóra LK hefur verið falið að skrifa hann. Stjórnarmenn hvattir til að gera athugasemdir við verkefnið.

 

10. Fagráðsfundur 2. desember. Formaður fagráðs fór yfir helstu niðurstöður á fagráðsfundi sem haldinn var í Nautastöðinni á Hesti 2. desember sl. Niðurstöður kynbótamats voru kynntar, eru orðnar aðgengilegar á Nautaskra.net. Ákveðið að taka í notkun þrjá nýja nautsfeður, Húna 07037, Topp 07046 og Bláma 07058. Þá var kynnt minnisblað um nýjar skilgreiningar á kynbótamat fyrir frjósemi, og rætt um hvort að eigendur ættu að greiða beint fyrir skoðun á kvígum undan heimanautum. Ályktun SUB um að tekið verði tillit til hæðar í kynbótamati var kynnt. Farið yfir stöðu Átaksverkefnis RML í mjólkurframleiðslu. Verkefni LbhÍ um Hámarks vaxtargetu íslenskra nauta var sömuleiðis reifað og farið yfir svar Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til BÍ, varðandi þróunarsjóð nautgriparæktarinnar.

 

11. Sýning um íslenskt atvinnulíf. Háskólinn á Bifröst hyggst standa fyrir veggspjaldakynningu um íslenskt atvinnulíf næstu tvö ár, frá maí 2014 til maí 2016 og hefur boðið Landssambandi kúabænda að taka þátt. Áætlaður kostnaður er 300-500 þús. kr. Stjórn tekur jákvætt í erindið en setur sem skilyrði fyrir þátttöku að annað hvort BÍ eða mjólkuriðnaðurinn taki einnig þátt í sýningunni.

 

12. Frá haustfundum LK 2013. Formaður rakti helstu atriði úr haustfundaferð samtakanna. Þátttaka var óvenjulega góð, eða um 370 manns. Að mati samtakanna var mjög æskilegt í ljósi stöðu mjólkurframleiðslunnar, að iðnaðurinn tæki einnig þátt í fundunum. Athygli vakti hversu mikill munur var á þeim sjónarmiðum sem fram komu í máli manna milli landsvæða.

 

13. Önnur mál.

A. Birting fundargerða BÍ. Nýjasta fundargerðin er frá því í júní sl. Hvatt til að flýta birtingum.

B. Hvernig snúa úrlausnir ríkisstjórnarinnar á skuldavandanum að bændum. Mikilvægt að greina stöðuna í ljósi nýjustu aðgerða stjórnvalda í þessum efnum.

C. Kvíguhótel og gripamiðlun. Taka saman efni um hvernig hægt er að standa að þessu og hvernig slíkt megi auka hagkvæmni í íslenskri mjólkurframleiðslu.

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.49.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK