Stjórnarfundir – 6. 2013-2014
15.10.2013
Fundargerð sjötta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014. Fundur haldinn í húsakynnum MS á Selfossi þriðjudaginn 15. október 2013 og var hann settur kl. 13.45. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Trausti Þórisson. Fundinn sat einnig Jóhannes Ævar Jónsson, búnaðarþingsfulltrúi LK. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK ritaði fundargerð. Gestur undir lið 6 var Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk því næst til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar. Samþykkt. Undir þessum lið var rætt stuttlega um fagþing nautgriparæktarinnar, ásamt hugmynd að ráðstefnuferð LK til Herning í febrúar 2014 en borist hefur jákvætt svar frá BÍ um að fallið hafi verið frá fyrirætlunum um að setja búnaðarþing 2014 þann 23. febrúar n.k.
2. Framleiðslu- og sölumál mjólkur. Afurðastöðvar hafa gefið yfirlýsingu um greiðslu á fullu afurðastöðvaverði fyrir alla mjólk út þetta verðlagsár. Stjórn LK fagnar þessari ákvörðun, en telur að yfirlýsingar mjólkuriðnaðarins hefðu frá upphafi þurft að vera jafn afdráttarlausar. Samdráttur í vikuinnvigtun er 2,3% samkvæmt síðustu tölum en innvigtunin þó farin að aukast sunnan heiða líkt og á þessum tíma undanfarin ár. Í ljósi þeirra miklu neyslubreytinga sem eru að eiga sér stað, vill stjórn kanna hvort mjólkuriðnaðurinn sjái ástæðu til að gera viðhorfskönnun meðal almennings gagnvart neyslu mjólkurafurða. Ákveðið að senda erindi þess efnis til stjórnar MS. Sala mjólkurafurða er áfram mjög mikil, 119,3 milljónir lítra á fitugrunni og 117,3 milljónir lítra á próteingrunni. Á undanförnum áratug hefur neysla á fitugrunni aukist um 30 lítra á mann, úr 338 lítrum í 368 lítra. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er salan síst ofmetin um þessar mundir. Í ljósi óvenjulegrar stöðu í framleiðslu- og sölumálum hefur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins verið fengin til að vera með kynningu á þjónustu sinni á haustfundunum, til að vekja athygli á möguleikum kúabænda til arðbærrar framleiðsluaukningar. Stjórn telur ljóst að í núverandi stöðu felist óvenjuleg tækifæri fyrir ráðgjafaþjónustuna. Við þessar aðstæður verður einnig fróðlegt að fylgjast með þróun á verði greiðslumarks í mjólk. Að mati stjórnar er ljóst að bændur geta með framleiðsluaukningunni einni saman náð til sín helftinni af þeim fjármunum sem þeir myndu ná með greiðslumarkskaupum, þegar greitt er fullt afurðastöðvaverð fyrir mjólk umfram greiðslumark, eins og horfur eru á að gert verði á næsta ári. Afar mikilvægt að koma skýrum skilaboðum á framfæri á haustfundunum varðandi þessa hluti, til að auðvelda bændum ákvarðanatöku um greiðslumarksviðskipti. Það er mat stjórnar að greinin megi illa við að missa góða aðstöðu og jarðnæði úr mjólkurframleiðslunni, því er ástæða að hvetja bændur til að íhuga þann valkost að leigja frá sér búreksturinn, frekar en að selja gripi og greiðslumark af jörðunum. Í því gætu falist veruleg tækifæri fyrir nýliða, til að koma undir sig fótunum í mjólkurframleiðslu. Undir þessum lið var einnig talsverð umræða um fyrirkomulag stuðningsgreiðslna; skiptingu þeirra milli A-, B- og C-hluta og hvort auka ætti hlutdeild C-greiðslna á kostnað A-hlutans. Jafnframt er það áleitin spurning hvort ekki eigi að auka framleiðsluskylduna við núverandi aðstæður. Það er einnig mat stjórnar að mjög veigamiklar breytingar á þessu sviði þurfi að fá umfjöllun og samþykki aðalfundar LK. Mikilvægt er að framleiðsluumhverfið dragi ekki úr viðbragðsflýti greinarinnar þegar auka þarf framleiðsluna.
3. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Reglugerð um opna tollkvóta á hakkefni úr nautakjöti tók gildi 7. október sl. Innflutningur það sem af er ári hefur verið minni en á sama tímabili í fyrra, en stefnir í verulega aukinn innflutning nautgripakjöts á næstu mánuðum vegna mun minna framboðs sláturgripa, sérstaklega mjólkurkúa. Í veffræðsluerindi Þóroddar Sveinssonar, sem aðgengilegt er á vef samtakanna, kemur skýrt fram að mikill breytileiki er í ýmsum þáttum nautakjötsframleiðslunnar hér á landi, sem er skýr vísbending um að veruleg sóknarfæri er að finna í greininni. Jafnframt er mikilvægt að huga betur að steinefnagjöf eldisgripa, til að koma í veg fyrir skortseinkenni, ásamt því að bæta aðbúnað og fóðrun þeirra. Formaður og framkvæmdastjóri hafa unnið mikið að framgangi endurnýjunar á erfðaefni holdanautastofnanna, en það hefur verið eindreginn vilji LK að látið verði reyna á hvort beinn innflutningur sæðis sé mögulegur. Talsverðar samræður hafa átt sér stað milli LK og BÍ um hvernig best sé að standa að málinu án sameiginlegrar niðurstöðu. Á fundi forsvarsmanna LK og BÍ með Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um málið þann 26. september, tók síðan ráðherra ákvörðun um að láta gera áhættumat á fósturvísainnflutningi í gegnum einangrunarstöð annars vegar og beinum sæðisinnflutningi hins vegar. Matvælastofnun var falið að ljúka verkinu fyrir næstu áramót, en fram hefur komið að stofnunin treystir sér ekki til að vinna verkið á svo skömmum tíma. Málið var rætt á síðasta fundi fagráðs í nautgriparækt sem afgreiddi málið með svofelldri bókun: Fagráðið telur að innflutningur erfðaefnis sé forsenda þess að hægt sé að halda uppi sjálfbæru ræktunarstarfi í holdanautastofninum þannig að möguleiki sé á að auka magn, gæði og hagkvæmni íslenskrar nautakjötsframleiðslu og leggur því áherslu á að holdanautastofninn í landinu verði kynbættur með innflutningi erfðaefnis svo fljótt sem kostur er. Í ljósi þessa felur stjórn formanni og framkvæmdastjóra að kanna möguleika á að LK láti framkvæma eigið áhættumat á innflutningi holdanautasæðis, enda afar brýnt að vandað verði til þessa verks eins og kostur er þó mikið liggi við.
4. Aðbúnaðarreglugerð. Varaformaður fór yfir drög að aðbúnaðarreglugerð. Mikilvægt að huga að fyrirkomulagi þessara mála í nágrannalöndunum og hafa þau til hliðsjónar. Stjórn telur ljóst að fyrirliggjandi drög þarfnist talsverðra endurbóta þar sem fjöldamörg atriði þurfi athugunar við. Ákveðið að fá Snorra Sigurðsson ráðunaut hjá Videncenter for Landbrug í Danmörku til að lesa drögin yfir.
5. Stefna LK og SAM um fyrirmyndarbú. Staða málsins kynnt fyrir stjórn en talsvert hefur verið unnið í því að undanförnu. Ákveðið að kynna fyrirliggjandi drög á haustfundunum. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að stefnan verði komin í endanlegt horf tímanlega fyrir næsta aðalfund LK, um það leyti sem fulltrúakosning liggur fyrir.
6. Haustfundir. Farið ítarlega yfir kynningarefni haustfunda og það fært í endanlegt horf.
7. Önnur mál.
a. Tryggingar búfjár. Einn stjórnarmanna hafði rætt tryggingamál búfjár við sinn tryggingaráðgjafa. Vantar fyrirmyndir að slíkum tryggingum hér á landi. Þær gæti verið að finna í nágrannalöndunum, t.d. mætti leita í smiðju tryggingafélagsins Gjensidige í Noregi sem býður viðskiptamönnum sínum búfjártryggingar. Ákveðið að koma viðkomandi tryggingaráðgjafa í samband við framkvæmdastjóra LK til að vinna að framgangi málsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.30.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK