Stjórnarfundir – 5. 2013-2014
19.09.2013
Fundargerð fimmta fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn að Bitruhálsi 1 í Reykjavík, fimmtudaginn 19. september 2013. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Gestur fundarins undir lið 2 var Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Fundur var settur kl. 11.00. Formaður bauð fundarmenn velkomna og var síðan gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerðin afgreidd og undirrituð, birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.
2. Staða í framleiðslu- og sölumálum mjólkur. Formaður rakti ákvarðanir mjólkuriðnaðarins og framkvæmdanefndar búvörusamninga um greiðslu á fullu afurðastöðvaverði fyrir þrjár milljónir lítra mjólkur umfram greiðslumark, sem markaðsfærðar verði á innanlandsmarkaði. Mikil söluaukning mjólkurafurða skapar tvenns konar áskoranir fyrir kúabændur; annars vegar hvernig henni verður mætt á næstu mánuðum, hins vegar hvernig söluaukningunni verður fylgt eftir á næstu árum. Að mati samtakanna hafa skilaboð mjólkuriðnaðarins til framleiðenda ekki verið nægjanlega skýr; afdráttarlaus skilaboð eru forsenda þess að þeir bregðist við stöðunni sem uppi er. Í máli forstjóra MS kom fram að söluáætlanir mjólkuriðnaðarins hafa til þessa verið unnar til næstu 12-16 mánaða, mikilvægt að horfa til lengri tíma í þeim efnum. Undanfarin ár hefur sala á próteini haldist nær algerlega í hendur við þróun mannfjölda, þróun í fitusölu hefur verið allt önnur. Fram til 2003 var samdráttur í sölu á fitu en frá árinu 2004 fram að bankahruni jókst sala á fitu tvöfalt hraðar en sala á próteini. Lítils háttar bakslag kemur í fitusöluna í kjölfar þess, en frá árinu 2011 hefur þróunin haldið áfram með sama hætti. Virðist herða á söluaukningunni á fitunni að undanförnu. Sala á fitu er því orðin meiri en á próteini, 118,1 milljón lítra á móti 116,5 milljónum lítra á próteingrunni. Horfur næstu ár benda til þess að útflutningur verði takmarkaður og þá nær eingöngu á próteini. Að mati stjórnar LK felur vöxtur innanlandsmarkaðar í sér veruleg sóknarfæri fyrir kúabændur. Hún telur einnig afar mikilvægt að Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins taki virkan þátt í að nýta þau sóknarfæri sem við blasa. Þá er mikilvægt að fara yfir innbyrðis skiptingu beingreiðslna, lágmarks framleiðslu gagnvart A-greiðslum og skiptingu C-greiðslna milli mánaða á komandi haustfundum LK og í kjölfarið á aðalfundi. Jafnframt verði hugað að breytingum á verðhlutfalli milli fitu og próteins.
3. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Formaður hefur rætt málið ítarlega við hagsmunaaðila. Framkvæmdastjóri aflaði umfangsmikilla gagna í Noregi í ágúst, m.a. frá Geno Global, Mattilsynet (norsku matvælastofnuninni) og Norsvin, sem flytur djúpfryst svínasæði til Íslands. Þá hefur hann verið í sambandi við Veterinærinstituttet, varðandi hugsanlega aðkomu að gerð áhættumats. Fram hefur komið að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur nauðsynlegt að því berist umsókn um innflutning á holdanautasæði, svo mögulegt sé að framkvæma áhættumat á henni. Á grunni áhættumats verði hugsanlegar lagabreytingar byggðar. Farið yfir drög að umsókn Landssambands kúabænda til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um heimild til innflutnings á holdanautasæði, ásamt heilbrigðiskröfum samtakanna gagnvart innflutningi holdanautasæðis. Til vara er sótt um heimild til að flytja inn fósturvísa í einangrunarstöð, ásamt því að óska eftir stuðningi við slíkt verkefni, þar sem ljóst er að rekstur slíkrar stöðvar er greininni ofviða. Það er skilningur stjórnar LK að gerð áhættumats komi í hlut ráðuneytisins og að það eigi að bera kostnað af gerð þess. Stjórn leggur ríka áherslu á að ítarlegar kröfur um búfjárheilbrigði verði gerðar varðandi þennan innflutning. Ákveðið að ganga frá umsókn og heilbrigðiskröfum og að hún verði send til ráðherra í næstu viku, að loknu samráði við forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands.
4. Fyrirmyndarbúið – leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Formaður reifaði stöðu málsins, talsvert verið unnið í málinu á haustdögum af Bjarna Ragnari Brynjólfssyni, skrifstofustjóra SAM. Ljóst er að leiðbeiningar sem ná yfir feril mjólkurframleiðslunnar í heild sinni, þar sem vísað er í reglur og lög, verður mjög umfangsmikið skjal. Lagt er til að unnin verði Stefna Landssambands kúabænda og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði um fyrirmyndarbú, sem verði samandregin meginatriði úr Leiðbeiningum um góða búskaparhætti. Stefna LK og SAM verði lögð fyrir á haustfundum en Leiðbeiningar um góða búskaparhætti verði lögð fyrir aðalfund LK 2014. Stjórn telur afar mikilvægt að unnið verði af krafti í málinu á næstu vikum. Jafnframt er mikilvægt að nýráðinn dýralæknir mjólkureftirlitsins verði fenginn að gerð þessara leiðbeininga.
5. Haustfundir. Að mati stjórnar LK er staða framleiðslu- og sölumála mjólkur, málefni nautakjötsframleiðslunnar í heild sinni og fyrirmyndarbúið mikilvægustu viðfangsefni haustfundanna. Farið yfir skipulag haustfunda. Stjórn leggur ríka áherslu á að fá ráðherra landbúnaðarmála á fyrsta haustfund samtakanna vegna þeirrar stöðu sem uppi er í framleiðslumálunum. Búið að færa fyrsta haustfundinn yfir á þriðjudaginn 15. október. Ráðgert að halda næsta fund stjórnar þann dag. Jafnframt ákveðið að fá fulltrúa mjólkuriðnaðarins til að taka þátt í framsöguerindum á fundunum, vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.
6. Styrkumsóknir. Nýsköpunarkeppni Fjölbrautarskóla Suðurlands og Matís ohf. í matvælaframleiðslu óskar eftir stuðningi um 65 þús. kr. Hafnað á grundvelli verklagsreglna sem stjórn setti sér á stjórnarfundi þann 16. ágúst sl.
7. Fagþing nautgriparæktarinnar 2014. Formaður reifaði möguleg efnistök og ábyrgðaraðila. Mikilvægt að hefja undirbúning sem fyrst og að fagráð í nautgriparæk leggi línur varðandi efnistök. Grundvallaratriði að allir ráðstefnugestir geti fylgst með dagskránni í heild sinni. Fagþing af þessu tagi veitir meira svigrúm varðandi dagskrá aðalfundar, og telur stjórn mikilvægt að fá sem flesta aðalfundarfulltrúa til að mæta á fagþingið. Ákveðið að formaður LK og formaður fagráðs hafi umsjón með undirbúningi, ásamt framkvæmdastjóra. Málið verði rætt á næsta fundi fagráðs sem fyrirhugaður er í byrjun október.
8. Önnur mál.
a) NBC fundur og heimsókn á Centrovice. Formaður og framkvæmdastjóri fóru yfir helstu atriði úr afar upplýsandi ferð til Danmerkur á fund Nordens Bondeorganisationers Centralråd, heimsókn á ráðgjafamiðstöðina Centrovice á Fjóni og heimsókn á kúabúið Freerslev Kotel á Norður-Sjálandi.
b) Fundaskipulag. Formaður reifaði fundaskipulag stjórnar og hvort heppilegt væri að hafa fasta fundartíma. Næsti fundur stjórnar er fyrirhugaður 15. október, þá síðari hluta nóvember og síðan aftur í janúar. Ákveðið að bjóða búnaðarþingsfulltrúum og 1. varamanni stjórnar að sitja næsta stjórnarfund, sem haldinn verður á undan fyrsta haustfundinum.
c) Ferð á Kongres Dansk kvæg. Framkvæmdastjóri reifaði hugmynd um að stofna til ferðar forsvarsmanna samtaka bænda og annars áhugafólks um nautgriparækt á fagráðstefnu Dansk kvæg, sem haldin verður í Herning 24. og 25. febrúar 2014. Stjórn BÍ hefur ákveðið að stefna að setningu Búnaðarþings 23. febrúar 2014. Formanni falið að senda erindi til formanns BÍ um mögulega tilfærslu Búnaðarþings svo ráðstefnuferð þessi geti orðið að veruleika.
d) Tryggingamál. Ákveðið að hver og einn stjórnarmaður ræði við sinn tryggingaráðgjafa vegna stóráfalla- og búfjártrygginga.
e) Nautgriparæktarstarfið. Rætt um mikilvægi þess að veittar séu viðurkenningar fyrir góðan árangur í ræktunarstarfinu, þar sem slíkt ýtir undir metnað og þáttöku bænda í skýrsluhaldinu. Afar misjafnt er hinsvegar hvernig staðið hefur verið að slíku eftir einstökum héruðum eða sveitum. Að mati stjórnar ætti verðlaunaafhending af þessu tagi að vera samræmd, í kjölfar sameiningar á ráðgjafaþjónustunni.
g) Leiðarar. Rætt um leiðaraskrif stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Ákveðið að hætta myndbirtingu af leiðarahöfundum á heimasíðu samtakanna.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.10.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK