Stjórnarfundir – 4. 2013-2014
16.08.2013
Fundargerð fjórða fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2013-2014, haldinn föstudaginn 16. ágúst 2013 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Fundur settur kl. 11.00. Formaður bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.
Þetta var gert.
1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerð undirrituð og birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.
2. Skýrsla starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar. Formaður fór yfir helstu niðurstöður skýrslunnar sem starfshópurinn skilaði til ráðherra á fundi þann 3. júlí sl. Skýrslan fékk jákvæðar viðtökur og er það mat fulltrúa LK í hópnum að mikill áhugi sé hjá ráðherra og innan ráðuneytisins á framgangi málsins. Ráðuneytið hefur ákveðið að hefja undirbúning að upptöku á EUROP kjötmati, þannig að ný reglugerð um mat á sláturafurðum geti tekið gildi 1. janúar 2015. Á fundinum var einnig vakið máls á möguleika að gera þróunarsamning fyrir hönd nautakjötsframleiðslunnar, en bætt aðstaða til meðhöndlunar gripa, merkinga og sæðinga er grundvöllurinn að aukinni fagmennsku meðal nautakjötsframleiðenda. Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna er ein mikilvægasta aðgerðin sem nautakjötsframleiðslan stendur frammi fyrir. Í skýrslunni kemur fram að beinn innflutningur á sæði er skilvirkasta leiðin til þeirrar endurnýjunar, sú ódýrasta og lang fljótlegasta. Stjórn leggur áherslu á að tekið verði tillit til efnahagslegs umfangs greinarinnar við val á aðferðafræði við endurnýjun erfðaefnisins, þannig að mögulegt verði að sinna vaxandi markaði með innlendri framleiðslu á skilvirkan hátt. Formaður hefur rætt stöðu málsins við formann, framkvæmdastjóra og forstöðumann félagssviðs BÍ. Stjórn Bændasamtakanna hefur tekið jákvæða afstöðu til málsins. Framkvæmdastjóri fer til Noregs í næstu viku til að afla gagna sem nauðsynleg eru til að undirbúa umsókn um innflutning á holdanautasæði. Hann hyggst m.a. funda með ræktunarfélagi norskra holdanautabænda, Geno Global, norsku Matvælastofnuninni, Veterinærinstituttet og Norsvin. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að senda inn formlega umsókn, sem hægt verði að vinna áhættumat á. Lykilatriði að nýtt erfðaefni standi nautakjötsframleiðendum til boða næsta vor. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram þannig að hægt verði að afgreiða umsókn um innflutning á holdanautasæði á næsta stjórnarfundi.
3. Verðlagsmál mjólkur. Formaður reifaði stöðu verðlagsmála. Ekki náðist samstaða á síðasta fundi nefndarinnar í lok júní að fara í verðbreytingar. Formaður fór yfir þróun verðlagsgrundvallar frá 1. júní 2012 til 1. júní 2013. Hann sýnir hlutfallslega hækkun kostnaðar 2,75%, samsvarandi hækkun á lágmarksverði mjólkur væri 2,21 kr/ltr. Næsti fundur nefndarinnar er fyrirhugaður í september. Að mati stjórnar er brýnt að nýta sérleyfistekjur mjólkuriðnaðarins til að styrkja innviði, með það að langtímamarkmiði að auka samkeppnishæfni innlendra mjólkurafurða á hérlendum markaði.
4. Framleiðsla og sala mjólkurafurða. Sala mjólkurafurða gengur mjög vel, sala á fitu eykst mun hraðar en á próteini. Að óbreyttu ætti greiðslumarkið 2014 að hækka í að minnsta kosti 117 milljónir lítra. Að mati stjórnar er staða framleiðslumál áhyggjuefni, stefnir í að framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark verði aðeins fáeinar milljónir lítra innan nokkurra missera. Stjórn telur bagalegt hversu litla yfirsýn er að hafa um væntanlega framleiðslu mjólkur á næstu mánuðum. Framkvæmdastjóra falið að kanna möguleika á að nýta skýrsluhaldsgögn til að gera framleiðsluspár og yfirlit yfir væntanlega burði. Stjórn er einnig þeirrar skoðunar að mikil þörf sé á aukinni ráðgjöf um beitarmál, í ljósi þess hve ört framleiðslan minnkar þegar komið er fram á mitt sumar.
5. Verklagsreglur vegna nýliðunarstyrkja í mjólkurframleiðslu. Formaður reifaði stöðu málsins en verklagsreglurnar hafa verið til endurskoðunar í sumar. Í eldri reglum var ekki nægjanlega skýrt kveðið á um hvaða kröfur væru gerðar til gagna sem krafist er af umsækjendum, sérstaklega hvað varðar kröfur um eignarhald. Að mati stjórnar þarf að taka tillit til þess ef það tekur nokkurn tíma fyrir umsækjendur að uppfylla þau skilyrði sem sett eru gagnvart styrkveitingu. Stjórn veltir fyrir sér hvort jafnræðis sé gætt í verklagsreglunum milli aðila sem annars vegar ganga inn í einkahlutafélag og hins vegar félagsbú, en gríðarlegur munur er á þeim skuldbindingum sem umsækjendur þurfa að taka á sig í hvoru tilfellinu. Að mati stjórnar er nauðsynlegt að athuga ákvæði um tilskilinn eignarhlut, m.v. árskúafjölda. Hennar tillaga er að miðað verði við helmings hlutdeild í meðalbúi skv. skýrsluhaldi eins og það er á hverjum tíma.
6. Málefni heimavinnsluaðila í mjólkurframleiðslu. Formaður fór yfir erindi samtakanna Beint frá býli til framkvæmdanefndar búvörusamninga, þess efnis að heimavinnsluaðilar fengju að selja sem næmi 15.000 ltr umfram greiðslumark á innanlandsmarkað. Slíkt er ekki talið gerlegt skv. búvörulögum. Að mati stjórnar er grundvallaratriði að ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkað verði tryggt, ef gera á aðrar breytingar á rekstrarumhverfi mjólkurframleiðslunnar.
7. Kvótamarkaður. Farið yfir drög framkvæmdastjóra að bréfi til atvinnuvegaráðuneytis varðandi lagfæringar á reglugerð um kvótamarkað. Bréf þetta er ítrekun á hliðstæðu erindi frá fyrra ári sem ekki hefur enn verið tekið til meðferðar í ráðuneytinu. Að mati stjórnar verður að fást niðurstaða í málið fyrir áramót, þannig að hægt verði að gefa út nýja reglugerð um viðskipti með greiðslumark í mjólk, fyrir upphaf næsta verðlagsárs.
8. Starfshópur um stöðumat í mjólkurframleiðslu. Samkvæmt bókun við breytingar á mjólkursamningnum frá 28. september 2012 þarf að skipa starfshóp um stöðumat í mjólkurframleiðslu. Málið var rætt stuttlega á fundi með ráðherra 3. júlí sl. Samkvæmt bókuninni var fyrirhugað að hópurinn lyki störfum fyrir næstu áramót, þannig að nauðsynlegt er að hafist verði handa sem fyrst. Nokkrar umræður um tilnefningar í starfshópinn. Framkvæmdastjóra falið að senda ítrekun á atvinnuvegaráðuneytið um nauðsyn þess að þetta starf hefjist sem fyrst.
9. Styrkumsóknir. Stjórn ákveður það sem meginreglu að styrkja ekki viðburði eða verkefni sem samtökin taka ekki beinan þátt í og óljóst er um gagnsemi af fyrir greinina á hverjum tíma.
· Ugla Hauksdóttir – stuttmynd. Stjórn ákveður að hafna erindinu vegna óljósrar gagnsemi fyrir nautgriparæktina.
· Matur-inn 2013. Hafnað, þar sem samtökin taka ekki beinan þátt í verkefninu.
· Íslenskur matur ehf. Í ljósi takmarkaðra markaðsfjármuna og mjög mikillar ásóknar áþekkra verkefna og verklagsreglna sem settar hafa verið, ákveður stjórn að hafna erindinu.
10. Undirbúningur vegna langtíma fjárhagsáætlunar LK. Formaður reifaði málið. Tilgangur með gerð slíkrar áætlunar er að leggja grunn að því, hvernig ráðstafa eigi fjármunum sem samtökin fá af búnaðargjaldi og eftir öðrum leiðum, þannig að þeir nýtist greininni sem best. Að mati stjórnar er mikilvægt að hafa frumkvæði í málinu. Samþykkt að tilnefna stjórnarmanninn Jóhann Nikulásson, félagskjörna skoðunarmenn Pétur Diðriksson og Elínu B. Sveinsdóttur í þetta starf. Hlutverk þeirra verði að móta ramma utan um útgjöld samtakanna til lengri tíma. Ólafur Helgason bókhaldari samtakanna verði til aðstoðar í þessu máli.
11. Önnur mál.
a) Haustfundir LK. Eru möguleikar á sameiginlegum fundum LK og BÍ? Stjórn metur fundina einn mikilvægasta þáttinn í starfsemi samtakanna og að tæplega sé rými fyrir fleiri aðila á einum fundi. Ákveðið að LK skuli standa eitt að þeim. Eitt skuli yfir öll aðildarfélög ganga í þeim efnum. Meðal efnisatriða verði: Aðbúnaður og reglur um góða búskaparhætti. Stöðumat mjólkurframleiðslunnar. Nautakjötsmál og endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna. Stefnt að fyrsta haustfundinum fimmtudagskvöldið 17. október n.k. Framkvæmdastjóri hefji undirbúning þeirra.
b) Júgurbólgurannsóknir. Greining júgurbólgusýna er með misjöfnum hætti eftir landshlutum. Dýralæknar hafa ekki lengur aðgengi að petriskálum frá RM til að sá sýnum út á. Bændur misjafnlega sáttir við núverandi fyrirkomulag. Formaður fylgi málinu eftir.
c) Ráðning dýralæknis í mjólkureftirlit. Að mati stjórnar er mjög jákvætt að dýralæknir sé kominn til starfa á þessum vettvangi. Afar sérstakt að starfið skuli ekki hafa verið auglýst. Stjórn samþykkir svofellda bókun um málið: Stjórn Landssambands kúabænda fagnar að dýralæknir skuli hafa verið ráðinn til að hafa yfirumsjón með mjólkureftirliti. Telur hún að slík ráðning efli mjög hinn faglega hluta þessa mikilvæga málaflokks. Stjórn undrast þó að starfið skuli ekki hafa verið auglýst opinberlega.
d) Sumarlokanir samtaka starfsmanna bænda. Niðurstaða endurútreiknings erlendra lána Landsbankans liggur nú fyrir. Ekki hefur reynst mögulegt að nálgast upplýsingar um hvaða kjör bændum standa til boða hjá RML vegna sumarlokana. Gagnrýnivert að augljósir kostir sameiningar skuli ekki hafa verið nýttir með því að dreifa sumarfríum starfsmanna, til að koma í veg fyrir að starfsemi liggi niðri um lengri tíma.
e) Nautaskrá sumarið 2013. Að mati stjórnar er mjög miður að svo lítið skuli hafa verið lagt í hana sem raun ber vitni. Aftenging landsráðunautar og Nautastöðvar BÍ eftir að RML tók til starfa sýnir enn fram á nauðsyn þess að skipa faglega stjórn yfir Nautastöðina.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.50
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK