Beint í efni

Stjórnarfundir – 2. 2013-2014

03.05.2013

Önnur fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda 2013-2014. Fundur haldinn föstudaginn 3. maí 2013 að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Guðný Helga Björnsdóttir varaformaður, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Varaformaður stýrði fundi undir liðum 1.- 4. í fjarveru Sigurðar Loftssonar formanns, þar til hann mætti til fundar kl. 13.30. Gestur fundarins undir lið 2 var Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri útgáfusviðs BÍ. Gestur fundarins undir lið 5 var Einar Sigurðsson, forstjóri MS.

 

Varaformaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 10.50. Því næst var gengið til dagskrár.

 

1. Fundagerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð, verður birt á vef samtakanna að loknum fundi.

 

2. Kynningarmál landbúnaðarins. Tjörvi rakti hugmyndir útgáfusviðs BÍ um aukna samvinnu og samþættingu meðal BÍ og aðildarfélaga þeirra um kynningarmál landbúnaðarins. Niðurstöður viðhorfskannana sýna jákvætt viðhorf almennings í garð landbúnaðarins, en jafnframt að mikilvægi greinarinnar er mjög vanmetið meðal landsmanna, auk þess sem sýnileiki hennar þyrfti að vera meiri. Stjórn tekur jákvætt í fram komnar hugmyndir og telur mikilvægt að samtökin taki virkan þátt í stefnumörkun og framgangi verkefnisins.

 

3. Staða mála í starfshópi um eflingu nautakjötsframleiðslunnar. Guðný Helga reifaði gang mála í vinnu starfshópsins. Hópurinn hefur fundað með nautakjötsframleiðendum,  sláturleyfishöfum og fulltrúum Matvælastofnunar. Þá er stefnt að fundi með kjötmatsformanni um miðjan maí og að kanna aðstöðu í einangrunarstöðinni í Hrísey. Ræddir möguleikar á því hvort hægt væri að nýta aðstöðu í gömlu nautastöðinni á Hvanneyri eða Þorleifskoti fyrir ræktunarbú/einangrunarbú, ef krafa verður gerð um slíkt vegna smitvarna.

 

4. Af vettvangi fagráðs í nautgriparækt. Á síðasta fundi kom fram það mat fagráðs að stuðningsfulltrúar þurfi að vera frá þeim stofnunum sem eiga fulltrúa í fagráðinu nú um stundir. Óskað verður eftir tilnefningu um fulltrúa frá viðkomandi stofnunum til næstu þriggja ára. Farið yfir afgreiðslu umsókna; ákveðið að óska eftir ítarlegri upplýsingum um framgang metanverkefnis og ákveðið að styrkja verkefni RML um nautaeldi. Ályktunum aðalfundar LK hefur verið komið á framfæri við fagráð. Fagráðið tók jákvætt í þá hugmynd að halda ársfund fagráðs samhliða aðalfundi Landssambands kúabænda 2014.

 

5. Útflutningur mjólkurafurða. Einar fór ýtarlega yfir gang mála í útflutningi á mjólkurafurðum. Útflutningur á skyri til Finnlands gengur vel og skilaverð er fremur hagstætt. Útflutningskvóti á skyri til aðildarlanda ESB er hins vegar takmarkaður og því þarf að sinna Finnlandsmarkaði að nokkru leyti með skyri sem framleitt er í Danmörku. Verið að vinna í aukningu á skyrkvótanum en skilmálar þar að lútandi eru með öllu óaðgengilegir að svo komnu. Fram kom að ýmsar hugmyndir að nýjum leiðum í útflutningi eru til athugunar. Jafnframt var rætt hvernig hentugast væri að verja sérleyfistekjum MS af skyrframleiðslu í öðrum löndum. Einnig var farið yfir framleiðslu mjólkur umfram greiðslumark; tiltölulega fáir bændur standa undir stærstum hluta umframmjólkurinnar sem fer til útflutnings. Ef útflutningurinn fer að skila arði, munu hins vegar allir framleiðendur njóta góðs af því.

 

6. Fundur með formanni BÍ. Formaður rakti helstu atriði fundar forsvarsmanna LK með nýkjörnum formanni Bændasamtaka Íslands. Á fundinum voru ályktanir aðalfundar LK ræddar, farið yfir verkskipulag og samskipti LK og BÍ og ræddir möguleikar á því hvernig bæta má nýtingu fjármuna og mannafla. Farið yfir breytingar á skipulagi félagssviðs BÍ og tengsl framkvæmdastjóra búgreinafélaga við það. Stefnt að því að þessir aðilar hittist reglulega og skipti með sér verkefnum. Verkaskiptasamningur LK og BÍ var ræddur stuttlega, yfir hann þarf að fara og athuga hvort formgera þurfi einstök atriði í honum betur en nú er. Eitt stærsta verkefni komandi mánaða er endurskoðun búvörusamninga samkvæmt bókun við þá frá sl. hausti. Mikilvægt að funda með atvinnuvegaráðherra um málið um leið og ný ríkisstjórn hefur verið mynduð.

 

7. Úrvinnsla ályktana aðalfundar LK. Stjórn samtakanna ákveður að unnið verði úr ályktunum aðalfundar LK 2013 með eftirfarandi hætti: Mengun  á landbúnaðarsvæðum. Senda á atvinnuvegaráðuneyti, umhverfisráðuneyti og samtökum sveitarfélaga. Verði fylgt eftir með BÍ. Leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Eru í vinnslu, búið að tilnefna í starfshóp vegna smíði reglugerða sem tengjast nýjum lögum um velferð dýra. Verði tekin fyrir á sameiginlegum fundi með stjórn Auðhumlu og kynnt fyrir BÍ. Öryggismál.  BÍ hafa þegar hafið átaksverkefni vegna þessa, mikilvægt að nýta hvert tækifæri sem gefst til að fylgja málinu eftir. Sæðingar. Frekara samstarf milli núverandi rekstraraðila í farvatninu. LK fylgist með gangi mála og hvetji til góðra verka. Efling kynbótastarfs. Hefur verið lagt fram í fagráði en ekki rætt. Breytt verðhlutfall milli próteins og fitu hefur verið rætt í stjórn SAM og er þar til skoðunar. Lokaverkefni við Lbhí. Hefur verið lögð fram í fagráði. Dýralæknaþjónustan. Senda til atvinnuvegaráðuneytis, Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands og Dýralæknafélags Íslands. Stefnt að fundi með dýralæknafélaginu þar sem farið verði yfir stöðu málaflokksins. Verði fylgt eftir í samstarfi við BÍ. Dýralyf. Hlýtur sömu afgreiðslu og ályktun um dýralæknaþjónustu. Nautakjötsmál. Er í farvegi. Fara yfir málið með nýjum atvinnuvegaráðherra við fyrsta tækifæri. Fyrning greiðslumarks. Bíður endurskoðunarvinnu vegna búvörusamninga. Kauptilboð greiðslumarks. Funda með Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og fagstjóra rekstrarleiðbeininga um málið. Halda áfram með endurskoðun reglugerðarinnar. Afkomumál. Til stjórnar LK. Tollar á innfluttar mjólkurafurðir. Hluti af stöðumati greinarinnar í aðdraganda búvörusamningagerðar. Vörusvik. Hefur þegar verið send til viðeigandi aðila. Jarðalög. Ólíklegt að frumvarpið verði lagt fram í núverandi mynd. Raforkudreifing og arðgreiðslukröfur. Verði sendar á forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnuvegaráðuneyti, RARIK ohf, Samband íslenskra sveitarfélaga og BÍ. Ræða frekari eftirfylgni við BÍ. Útflutningsmál. Þegar verið sent til Auðhumlu og MS. Senda einnig á KS. Kynning á nautgripaafurðum. Þegar verið sent til Auðhumlu og MS. Senda á sláturleyfishafa og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Skuldamál. Senda lánastofnunum og BÍ. Bændasamtökin hafa borið hitann og þungann af málinu. Funda með Landsbankanum og Arion banka. Ræða einnig fjármögnun í landbúnaði og nýliðun. Geðslag kúa. Verður tekin til umfjöllunar í fagráði. Er verið að þróa nýtt mat á þessum eiginleika.

 

8. Leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Málið er í vinnslu. Tenging við væntanlega aðbúnaðarreglugerð og aðrar gildandi reglugerðir ekki komnar inn. Mjólkuriðnaðurinn verður að taka afstöðu til nokkurra kafla er lúta beint að honum. Vangaveltur hafa komið fram hvort skuli skrá „Fyrirmyndarbúið“ sem vörumerki? Stjórn þeirrar skoðunar að kanna verði þann möguleika. Ljóst að verkið á nokkuð í land með að vera tilbúið.

 

9. Styrkumsókn Svavars Halldórssonar. Í ljósi takmarkaðra markaðsfjármuna ákveður stjórn að styrkja verkefnið um 150.000 kr. en sótt var um styrk að upphæð 1.000.000 kr.

 

Önnur mál.

A. Samráðsþing MAST. Guðný rakti helstu atriði frá samráðsþingi Matvælastofnunar sem haldið var á dögunum. Verið er að flokka búin í mismunandi áhættuflokka, sú flokkun búanna tekur langan tíma. Tíðni eftirlits mun taka mið af niðurstöðu þessarar áhættuflokkunar. Á þinginu komu einnig fram vangaveltur um hvaða upplýsingar á að birta? Gögn um lokuð bú voru birt á þeim forsendum að um fyrirtæki væri að ræða, sem verið væri að svipta framleiðsluleyfi.

 

B. Tilraunanefndarfundur á Stóra-Ármóti verður haldinn n.k. mánudag. Jóhann Nikulásson situr í nefndinni og óskaði eftir hugmyndum að gagnlegum rannsóknarverkefnum fyrir nautgriparæktina.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.25

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri LK