Beint í efni

Stjórnarfundir, 13. 2016 – 2017

04.11.2016

Stjórnarfundir, fundur nr. 13. 2016-2017

Dags. 4.11.2016

13. fundur stjórnar Landssambands kúabænda haldinn 3. og 4. nóvember 2016 kl. 16:00.

Símafundur

Mætt eru Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson varaformaður, Elín Heiða Valsdóttir ritari, Bessi Vésteinsson, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson og Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri.

Formaður setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var rætt:

1. Tillögur og upplýsingar vegna reglugerðar um stuðning við nautgriparækt.
Framkvæmdastjóri fer yfir tillögur að framleiðsluskyldu, frávikum í greiðslum beingreiðslna og stuðningi við nautakjötsframleiðslu, sem óskað var eftir af hálfu atvinnuvegaráðuneytis. Stjórn LK leggur til að framleiðsluskylda verði aukin uppí 90%. Með því erum við að auka skylduna úr 80% í það horf sem hún var frá 2006 allt til ársins 2013 þegar skylduhlutfallið fór að sveiflast. Stjórn telur að sú prósentutala muni veita greininni ákveðinn stöðugleika. Á sama tíma veitir þetta bændum svigrúm frá 100% skyldu ef afföll verða.
Stjórn leggur til að stuðningsgreiðslur miðist við 250 kg lágmarksþyngd í nautakjötsframleiðslu. Meðalþyngd kjötflokks UN1A hefur verið um 230 kg og með þessu eru bændur hvattir til að þyngja gripina um sem nemur 8,6% sem skilar sér í aukinni framleiðslu. Með nýju EUROP kerfi eru P flokkar lægstu gæðaflokkar. Með því að miða við að ekki sé greitt fyrir P og P- flokka hvetur það bændur til að framleiða betri vöru. Í dag eru gripir verðfelldir þegar þeir hafa náð 30 mánaða aldri. Því telur stjórn LK eðlilegt að ekki sé greitt út á gripi eldri en 30 mánaða. Stjórn LK ræddi nokkuð um framkvæmd stuðningsgreiðslna við nautakjötsframleiðslu og telur eðlilegt að skoðað verði að greiða á ársfjórðungsgrundvelli. Þannig væri hvatt til meiri stöðugleika á framboði nautakjöts yfir árið. Stjórn samþykkir tillögur og felur framkvæmdastjóra að fylgja eftir.

2. Skipun fulltrúa í vinnuhóp BÍ fyrir samráðshóp um búvörusamninga.
Stjórn LK felur formanni  að sitja fyrir hönd samtakanna í hópnum.

3. Félagsgjöld BÍ og formannafundur.
Framkvæmdastjóri fer yfir tillögur BÍ að breyttu félagskerfi sínu og innheimtu. Miklar umræður um félagsgjaldakerfi BÍ og búgreinafélaganna. Formaður og framkvæmdastjóri munu sitja formannafund BÍ.

4. Haustfundir LK, efnistök og framkvæmd.
Framkvæmdastjóri fer yfir tillögu að efnistökum haustfunda, skipulag, kynningu og utanumhald. Tillaga samþykkt af stjórn.

5. Kvótamarkaður.
Borist hafa óskir til LK um að skoða möguleikann á því að þeir sem vilja kaupa og selja en náðu ekki að gera svo á markaðnum, fái tækifæri til að versla með greiðslumark á sama verði og fékkst á markaðnum. Auk þess hafa fyrirspurnir borist um að gefa viðskiptin frjáls til áramóta. Stjórn LK telur ekki eðlilegt að boða til nýs kvótamarkaðar á föstu verði né að fara fram á frjáls viðskipti fram að áramótum. Slíkar aðferðir geta ekki tryggt jafnræði meðal bænda. Þessi má geta að lengi leit út fyrir að nóvembermarkaðurinn yrði ekki haldinn og fór stjórn LK fram á breytingar á því til að veita bændum  tækifæri til að versla með greiðslumark fyrir árið 2017.

6. Önnur mál
a.
 Tilraunir um íblöndun þangs í fóður jórturdýra. Framkvæmdastjóri fer yfir nýjar ástralskar rannsóknir um notkun þörunga til að draga úr metangasmengun jórturdýra. Ekki hafa slíkar rannsóknir verið gerðar hér á landi. Stjórn felur framkvæmdastjóra að fylgjast með framgangi mála.

 

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17.15
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda