Beint í efni

Stjórnarfundir – 03. f. 2000/2001

14.11.2000

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabændaÞriðji fundur stjórnar LK starfsárið 2000/2001 var haldinn sem símafundur, þriðjudaginn 14. nóvember 2000 og hófst hann klukkan 11:15. Á línunni voru Þórólfur Sveinsson, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Birgir Ingþórsson, Egill Sigurðsson og Sigurgeir Pálsson. Einnig var á línunni Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, og ritaði hann fundargerð.

Formaður bauð fundarmenn velkomna til fundar og því næst var gengið til eina málsins á dagskránni, verðlagsmálum:

Þórólfur kynnti stöðu mála í verðlagsnefnd og fór yfir helstu atriði sem nefndarmenn eru að vinna með þessa dagana. Fram kom í máli hans að formaður verðlagsnefndar væri erlendis fram í lok nóvember og á meðan nýttu aðrir nefndarmenn tímann til að ná saman um einstaka liði grundvallarins. Taldi hann að möguleikar á hækkun grundvallarins myndu liggja á milli gamla grundvallarins og þeirrar almennu verðlagsþróunar sem orðið hefur í landinu á árinu.

Fundarmenn tjáðu sig um málið og kom fram í máli þeirra að væntanlega væri erfitt fyrir bændur að fara fram á meiri hækkun en almenn verðlagsþróun gefur tilefni til. Bent var þó á að í hinu nýja líkani væri byggt á mun stærra búi en meðalbú landsins er í dag og því gæti raunveruleg hækkunarþörf verið hærri. Þá kom einnig fram í tengslum við hækkun á grundvellinum einu sinni á ári, að verðbólgan sé nokkuð há um þessar mundir og ýmsar breytingar hafi orðið í þjóðfélaginu s.s. olíuverðshækkanir sem augljóslega muni hafa áhrif á kostnað búa á komandi ári, og sér í lagi fóðuröflunarkostnað. Einnig var bent á að mikil skuldaaukning kúabænda, samhliða vaxtahækkun, myndi setja pressu á enn meiri hækkun en nú stefndi í.

Formaður benti á að nýji grundvöllurinn næði mun betur að fanga raunveruleikann en gamli grunvöllurinn s.s. vægi vaxta.
Fleira ekki bókað og fundi slitið kl.13:20
Snorri Sigurðsson