Beint í efni

Stjórnarfundir – 10. 2012-2013

15.03.2013

Fundargerð 10. fundar stjórnar LK föstudaginn 15. mars 2013. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 10.40. Því næst var gengið til dagskrár. Gestir undir lið 3 voru Ólafur Þór Gylfason og Birkir Örn Grétarsson, starfsmenn Markaðs- og miðlarannsókna, MMR.

 

1. Fundargerð 8. og 9. fundar. Undirrituð og afgreidd án breytinga. Verði birtar á naut.is að loknum fundi.

 

2. Aðgerðahópur um eflingu nautakjötsframleiðslunnar. Formaður rakti gang mála í nýjum aðgerðahópi um eflingu nautakjötsframleiðslunnar sem atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið setti á fót með skipunarbréfi dags. 13. febrúar 2013. Formaður hópsins er Magnús B. Jónsson, Guðný Helga Björnsdóttir er fulltrúi BÍ, Sigurður Jóhannesson er fulltrúi Landssamtaka sláturleyfishafa og Sigurður Loftsson er fulltrúi Landssambands kúabænda. Þá vinnur framkvæmdastjóri LK með hópnum. Hópurinn hefur þegar haldið tvo fundi. Verkefni hans er að koma með tillögur varðandi eftirfarandi þætti: hvernig staðið verði að endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna, hvernig staðið skuli að kynbótaskipulagi þannig að innflutt erfðaefni komi að sem bestum notum, hvernig nýju kjötmati verði komið á og hvernig auka megi fagmennsku í greininni. Varðandi innflutning erfðaefnis stefnir hópurinn að því að leita umsagnar Matvælastofnunar um tvo megin valkosti: Annars vegar að fluttir verði inn kyngreindir fósturvísar á einangrunarbú, sem yrði stofnræktarbú sem myndi sjá fyrir stöðugum innflutningi erfðaefnis þannig að því verði haldið við. Hins vegar að flutt verði inn sæði beint til notkunar á búum bænda. Lagt verði mat á kostnað og áhættu við báðar leiðir, en fyrir liggur að fyrri leiðin er mun kostnaðarsamari og seinvirkari en sú síðari. Á fundi hópsins með fulltrúum sláturleyfishafa kom fram jákvætt viðhorf í garð EUROP kjötmatsins sem slíks, en vegna mikils vantrausts þeirra í garð Yfirkjötmatsins og getu þess til að samræma kjötmat milli einstakra sláturhúsa, treysta samtök sláturleyfishafa sér alls ekki til að mæla með upptöku á nýju kjötmati. Aðgerðahópurinn stefnir að því að funda með yfirkjötmatsmanni á næsta fundi hópsins. Hann hefur einnig fundað með faghópi LK um nautakjötsframleiðslu, en meðlimir þess hóps leggja ríka áherslu á að erfðaefni holdanautastofnanna verði endurnýjað þegar í stað. Talsverðar umræður um skýrsluhaldskerfi, aðstöðu til meðhöndlunar gripa og afkomu greinarinnar. Að lokum var farið yfir fund hópsins með fagstjóra búfjárræktar hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins. Það er mat félagsins að ráðast þurfi í átak í leiðbeiningum og fagmennsku í nautakjötsframleiðslunni og að nauðsynlegt sé að fá einn aðila innan þess til að halda utan um verkefnið. Talsverð þekking til staðar innan félagsins varðandi fóðrun og kynbætur, en á hana skortir á sviði framleiðsluaðstöðu og eldisskipulags. Það er mat stjórnar LK að grundvöllur þess að sátt ríki um kjötmatið sé að matsmenn verði starfsmenn Matvælastofnunar en ekki sláturhúsanna.

 

3. Niðurstöður viðhorfskönnunar. Starfsmenn MMR kynntu niðurstöður viðhorfskönnunar Landssambands kúabænda. Alls svöruðu 399 af 656 framleiðendum, svarhlutfall því 60,8% sem telst all gott. Ljóst að tekist hefur að afla mikils fróðleiks um viðhorf mjólkurframleiðenda til margvíslegra álitamála. Helst að sjá að munur sé á viðhorfum eftir bústærð, einnig er munur eftir landshlutum í stöku tilfellum. Farið yfir framkvæmd kynningar á aðalfundi og hvaða bakgrunnsbreytur sé áhugaverðast að taka með í henni.

 

4. Aðalfundur Landssambands kúabænda. Farið yfir tillögur að skipan

starfsmanna fundarins. Snorri Sigurðsson verður skrifstofustjóri, Guðfinna Harpa Árnadóttir fundarritari. Jóhannes Torfason og Elín Margrét Stefánsdóttir verði fundarstjórar. Valdimar Guðjónsson verði formaður kjörbréfa- og uppstillingarnefndar, aðrir nefndarmenn verði Jóhannes Jónsson og Laufey Bjarnadóttir. Tillaga stjórnar að Jóhanna Hreinsdóttir, Guðrún Lárusdóttir og Samúel Unnsteinn Eyjólfsson verði formenn starfsnefnda. Lagt til að Jón Gíslason, Steinþór Heiðarsson og Jórunn Svavarsdóttir verði ritarar starfsnefnda. Jafnframt ákvað stjórn að veita Magnúsi B. Jónssyni viðurkenningu fyrir störf hans í þágu nautgriparæktarinnar í hálfa öld. Fram kom að allir stjórnarmenn gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Farið yfir fram komnar tillögur frá aðildarfélögum og ákveðið að formaður geri tillögu að skipan í nefndir og skiptingu mála á þær. Þá var rætt um ímyndar og kynningarstarf á vettvangi samtaka bænda. Nýr formaður BÍ hefur viðrað möguleika á samstarfi við aðildarfélögin og að þau komi að því verkefni í auknum mæli. Ef LK kemur að slíku verkefni, verður að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun. Rætt um drög að ályktunum frá stjórn. Þá var ákveðið að bein útsending á heimasíðu samtakanna verði bara á föstudeginum.

 

5. Reikningar LK 2012. Farið yfir reikninga landssambandsins fyrir árið 2012. Niðurstaðan er sú að afkoma samtakanna er jákvæð um 635.725 kr. Bókfært eigið fé var í árslok 41.699.051 og heildar eignir þess eru 48.220.495 kr. Frávik frá fjárhagsáætlun eru óveruleg varðandi flesta liði rekstrarins.

 

6. Aðbúnaður nautgripa og leiðbeiningar um góða búskaparhætti. Formaður rakti vinnu á vegum MS og SAM um endurskipulagningu á mjólkureftirliti. Þeim möguleika hefur verið velt upp að ráða dýralækni sem verði mjólkureftirlitsmönnum til fulltingis og er það mál í athugun. Einnig kom fram að staða á smíði leiðbeininga um góða búskaparhætti er þannig á vegi stödd að ekki reynist mögulegt að afgreiða málið á næsta aðalfundi LK, en það verði lagt þar fram til kynningar og umfjöllunar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda