Stjórnarfundir – 9. 2012-2013
14.02.2013
Fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda, fimmtudaginn 14. febrúar 2013. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund kl. 12.40.
1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreiðslu fundargerðar frestað til næsta fundar.
2. Nautakjötsframleiðsla. Formaður rakti fund formanns, varaformanns og framkvæmdastjóra með atvinnuvegaráðherra vegna skýrslu um nautakjötsframleiðsluna og stöðu holdanautastofna hér á landi. Þar sem skýrslan hafði borist ráðuneytinu skömmu fyrir fund, var ljóst að lítill tími hafði gefist fyrir starfsmenn ráðuneytisins til að fara yfir skýrsluna. Þó kom fram að nefndin hafði ekki gert neinar tillögur að því hvernig skyldi standa að endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna, eins og gert var ráð fyrir í erindisbréfi hennar. Á þessum fundi lagði LK fram eftirfarandi áherslur í málinu, sem samþykktar voru í bókun stjórnar á fundi 17. janúar sl.:
· Að endurnýja erfðaefni holdanautastofnanna nú þegar, með skilvirkum, hagkvæmum og öruggum hætti.
· Koma á EUROP mati fyrir nautakjöt svo fljótt sem verða má.
· Móta leiðir til að bæta afkomu og nýta þau sóknarfæri sem blasa við, m.a. með aukinni fagþekkingu í greininni.
Á fundinum kom einnig fram að vilji ráðherra stendur til að setja á stofn aðgerðahóp, þar sem LK eigi fulltrúa, sem komi með tillögur um nauðsynlegar aðgerðir til að skjóta styrkari stoðum undir greinina. Landssambandi kúabænda hefur nú þegar borist beiðni frá ráðuneytinu um tilnefningu í aðgerðahópinn. Stjórn er einhuga um að tilnefna formann samtakanna í hann. Málið hefur einnig verið rætt í stjórn Bændasamtaka Íslands og hefur hún lagt til að formaður fagráðs verði tilnefndur til setu í hópnum, þegar beiðni um tilnefningu berst til BÍ. Talsverðar umræður um eflingu á fagstarfi og fagþekkingu í nautakjötsframleiðslunni. Stjórn LK er þeirrar skoðunar að í þessum málaflokki felist margvísleg tækifæri fyrir nýstofnaða Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, hún telur mikilvægt að einum aðila innan miðstöðvarinnar verði falið að halda utan um verkefnið. Það er mat LK að sérstökum sjónum þurfi að beina að aðbúnaði, fóðrun og eldi gripanna. Einnig telur hún mikilvægt að unnið verði að því að auka svigrúm mjólkurframleiðenda til eldis hálfblendinga til kjötframleiðslu. Einnig kom fram að þegar litið er yfir sögu holdanautabúskapar hér á landi undanfarna áratugi, er áhugaleysi stoðkerfisins áberandi hvað þessa framleiðslugrein áhrærir, sem skýrast kemur fram í hversu erfiðlega hefur gengið að koma upp öflugum stofnum til nautakjötsframleiðslu. LK er í raun eini aðilinn sem einhverju hefur áorkað í þeim efnum síðustu áratugi.
3. Mjólkuruppgjör 2012. Heildarframleiðsla mjólkur árið 2012 var 125.159.990 lítrar, umframmjólk því 10,6 milljónir lítra. Skráð heimavinnsla 37.272 lítrar. Fram kom að svo er að sjá sem Vesturmjólk hafi ekki skilað fullnægjandi upplýsingum um afsetningu mjólkur á innanlandsmarkaði, einnig virðist þurfa að skerpa á skýrsluskilum heimavinnsluaðila og eftirfylgni með henni. Stjórn þeirrar skoðunar að þessi mál þurfi að taka upp á vettvangi Framkvæmdanefndar búvörusamninga.
4. Sæðingamál. Framkvæmdastjóri rakti gang mála í starfi nefndarinnar. Útdeiling fjármuna úr mjólkursamningi til sæðingastarfseminnar er á hendi samningsaðila, þeirri skipan verður ekki breytt á vettvangi Búnaðarþings. Kynbótastöð Suðurlands er að taka yfir sæðingastarfsemina í Austur-Skaftafellssýslu að beiðni heimamanna. Starfshópurinn skoðar kosti og galla þriggja valkosta; að rekstraraðilum fækki vegna sameininga einstakra héraða; að sæðingastarfsemin sameinist undir einu félagi; að rekstur nautastöðvarinnar og sæðinganna verði sameinaður í einu félagi. Grundvallaratriði að einhugur ríki meðal kúabænda um slíka sameiningu. Því velt upp hvort kúabændur vilji að ákvörðun um þessa starfsemi sé tekin á öðrum vettvangi en þeirra eigin, vísbendingar um það fást vonandi í niðurstöðum viðhorfskönnunar. Jafnframt er ljóst að ekki er hægt að fara framfyrir þá aðila sem hafa málið með höndum í dag. Endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar er ekki lokið og ýmsir lausir endar ennþá hvað varðar framtíðar verkefni búnaðarsambandanna. Undir lok umræðu um þennan lið komu fram vangaveltur um hvort mögulegt væri að sæðingar stæðu bændum til boða alla daga ársins.
5. Búnaðarþing 2013. Fram kom að stjórn BÍ hefur afgreitt mál inn til þingsins og munu þau væntanlega berast fulltrúum eftir næstu helgi. Nokkur umræða var um þinghaldið, stjórnarkjör og starfsemi BÍ næstu ár.
6. Staða ályktana frá aðalfundi LK 2012. Unnið hefur verið að framgangi eftirtaldra ályktana frá síðasta aðalfundi LK: Efling ræktunarstarfs. Er til meðferðar í fagráði. Erfðaefni nautakjötsframleiðslu er að komast í eðlilegan farveg eftir að hafa lent í ógöngum. Lbhí. Formaður og varaformaður hittu forsvarsmenn skólans og fylgdu málinu eftir. Staða rannsókna í nautgriparækt er mikið áhyggjuefni. Nautakjöt. Er í farvegi. Kúasæðingar. Starfshópur um það mál lýkur brátt störfum. Tilraunaniðurstöður, var fylgt eftir við Landbúnaðarháskólann. Aðgengi að nemendaverkefnum verði bætt. Eftirlitsmál. Var fylgt eftir á fundi með MAST. Eftirlitsþættir hafa verið sameinaðir og tíðni eftirlits skal byggjast á áhættumati. Handbók eftirlitsaðila er í vinnslu. Úttekt á MAST. Er væntanlega á lokastigi. LK tók þátt í viðhorfskönnun Ríkisendurskoðunar vegna stofnunarinnar. Dýralæknaþjónusta og lyf. Fylgt eftir við MAST. BÍ hefur átt fund með atvinnuvegaráðuneytinu um málið. Hrein náttúra. Sent til stjórnvalda. Innflutningur á hráu kjöti. LK fylgist með þróun þessara mála. Veffræðslu hefur verið mjög vel tekið. Varasjóður LK var stofnaður í desember sl. Hönnun vörumerkis. Hefur verið rætt við BÍ. Feiknalegur kostnaður sem fylgir slíkum vörumerkjum. Mat stjórnar að eina raunhæfa niðurstaðan sé að leyfilegt verði að nota íslenska fánann. Breyting á búvörulögum. Tekin umræða í kringum búvörusamningagerð. Fer ekki í gegn á yfirstandandi kjörtímabili. Búvörusamningar. Hafa verið framlengdir. RML. Er komið til framkvæmda, stefna LK að dregið verði úr vægi búnaðargjalds. Betri bústjórn. Prófun á verkfærinu virðist engan enda ætla að taka. Formaður ræði málið við sviðsstjóra rekstrar og hlunninda hjá RML. Söfnun hagtalna. Málið í þokkalegum farvegi. Hagstofan er að byggja upp grunn að úrvinnslu hagtalna sem geri hana sambærilega við nágrannalöndin. Hagsmunagæsla. Er veganesti stjórnar. Álögur á eldsneyti. Fylgt eftir við stjórnvöld. Staðan sú að álögur á eldsneyti hafa sjaldan eða aldrei verið hærri en nú. Kvótamarkaður. Fylgt ítrekað eftir við ráðuneytið, sem er að vinna að tillögum að breytingum. Bólar lítið á niðurstöðum. Innheimta búnaðargjalds. Ekki hefur verið unnið að endurskoðun á innheimtu gjaldsins. Lánamál bænda hafa lítið verið á borði LK. Hittum viðskiptabankana sl. vor vegna málsins. Biðlán falla á gjalddaga á vordögum. Uppbygging og fjármögnun félagskerfisins. Markmiðssetning fyrir samtökin, verður mikilvægt á næsta búnaðarþingi og næstu stjórnar BÍ. ESB, sent til stjórnvalda. Jarðalán. Verður lagt fyrir búnaðarþing 2013.
7. Aðalfundur LK 2013. Kynnt drög að dagskrá og erindum. Formanni falið að ræða við yfirdýralækni um að vera með erindi smitvarnir og dýravelferð. Snorri Sigurðsson verði með kynningu á leiðbeiningum um góða búskaparhætti. Skipað verði í starfsnefndir fundarins á stjórnarfundi sem fyrirhugaður er 14. mars n.k. Stjórn gerir tillögu um að farið verði í mótun framtíðaráherslna á nýtingu fjármuna LK í kjölfar aðalfundar. Farið verði í ítarlegri greiningu en fram kemur í ársreikningi og fjárhagsáætlun. Að því verki myndu koma félagskjörnir skoðunarmenn, bókari samtakanna og einn stjórnarmaður.
8. Verðþróun aðfanga. Gengi krónunnar er nú sem fyrr afgerandi áhrifaþáttur á verðlag lykilaðfanga til mjólkurframleiðslu. Tveir áburðarsalar hafa kynnt áburðarverð 2013, hjá öðrum þeirra er áberandi innbyrðis ósamræmi í verðþróun einstakra tegunda frá síðasta ári. Vangaveltur um hvort innistæða sé fyrir þessum hækkunum. Áhugaverð þróun framundan í vinnslu setlagagass, gæti haft veruleg áhrif á verðþróun á köfnunarefnisáburði. Fremur litlar verðsveiflur erlendis á helstu aðföngum til kjarnfóðurgerðar, hveiti, maís og soja.
9. Önnur mál.
a. Tryggingamál. Mikilvægt að ljúka vinnu við endurskoðun á búfjártryggingum bænda. Megin vandamálið er að gögn til að undirbyggja áhættumat tryggingarfélaganna eru rýr, bæði skýrsluhaldsgögn og gögn Bjargráðasjóðs varðandi bætur vegna gripatjóna.
b. Athugasemdir við orkuinnihald kjarnfóðurs. Málið verði rætt við aðfangaeftirlit Matvælastofnunar.
c. Salmonella í hitameðhöndluðu fóðri. Stjórn LK lítur málið mjög alvarlegum augum.
d.Pistill. Skorað á stjórnarmenn að skrifa nýjan pistil hið fyrsta.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.05.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda