Beint í efni

Stjórnarfundir – 8. 2012-2013

17.01.2013

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda, haldinn á Bitruhálsi 1 fimmtudaginn 17. janúar 2013 kl. 11. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson, Trausti Þórisson og Jóhanna Hreinsdóttir, 1. varamaður. Einnig sátu fundinn Jóhannes Ævar Jónsson og Guðrún Sigurjónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúar Landssambands kúabænda.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund og gekk til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Fundargerðin afgreidd með einni breytingu.

 

2. Búnaðarþing 2013. Rætt var um þá uppstokkun sem framundan er á starfsemi Bændasamtakanna í kjölfar endurskipulagningar ráðgjafaþjónustunnar. Ákveðið að senda eftirtalin mál inn á þingið: Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins; form félagsaðildar að BÍ; málefni dýralækna, lyfjaþjónusta, aðgengi bænda að dýralyfjum og lyfsöluleyfi dýralækna; lánsfjármögnun í landbúnaði; kynningu á innlendum matvælum fyrir ferðamenn; slysavarnir og öryggismál í landbúnaði.

 

3. Aðbúnaður nautgripa og ímynd greinarinnar. Tekið fyrir í kjölfar afturköllunar framleiðsluleyfa á tveimur kúabúum í desember sl. Mat stjórnar að traust neytenda á greininni sé gífurlega mikilvægt atriði sem ekki verði metið til fjár. Rætt var  um leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti, sem verið er að vinna, slíkar leiðbeiningar geti orðið grundvöllur fyrir innleggi afurða í sameiginlegar afurðastöðvar. Einnig kom fram að verið er að vinna í endurskipulagningu á mjólkureftirliti og viðskiptaskilmálum afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Það er mat stjórnar að skilvirk úrræði gagnvart brotalömum þurfi að vera fyrir hendi. Ákveðið að senda inn mál til búnaðarþings um úrræði gagnvart óviðunandi aðbúnaði búfjár.

 

4. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og ráðstöfun búnaðargjalds. Landssambandi kúabænda hefur borist erindi frá BÍ um að hluti af búnaðargjaldi LK renni til Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. Verið er að vinna að gerð fjárhagsáætlunar hins nýja félags, þar sem þeirri hugmynd hefur verið velt upp að það fái hlutdeild í búnaðargjaldi búgreinafélaganna. Einnig kom fram að skipuriti félagsins hefur verið breytt í grundvallaratriðum frá því sem kynnt var á formannafundi í lok september 2012. Sú afstaða Landssambands kúabænda að kostnaður við ráðgjafaþjónustu skuli í auknum mæli borin uppi með seldri þjónustu og stefnt skuli að lækkun búnaðargjalds, hefur margsinnis verið ítrekuð á aðalfundum samtakanna undanfarin ár. Því er það er mat stjórnar að framangreind ráðstöfun á búnaðargjaldi samtakanna komi ekki til greina. Einnig verði að líta til þess að lagt var af stað í sameiningu rágjafaþjónustunnar með það að markmiði að bæta nýtingu fjármuna.

 

5. Viðhorfskönnun meðal kúabænda. Umfang könnunarinnar hefur vaxið mjög mikið frá upphaflegum hugmyndum, tilboð MMR hefur verið aðlagað að því og hljóðar upp á 965.000 kr, án vsk. Farið ýtarlega yfir spurningalistann og honum komið í endanlegt horf. Fyrirhugað að gagnasöfnun geti farið af stað um næstu mánaðamót.

 

6. Aðalfundur LK 2013 og 7. Framleiðsla, sala og verðlagning mjólkur. Frestað.

 

8. Málefni nautakjötsframleiðslunnar. Landssambandinu hafa borist drög að skýrslu um stöðu nautakjötsframleiðslunnar og holdanautastofnanna. Að sögn formanns nefndarinnar stendur ekki til að gera frekari efnislegar breytingar á fram komnum drögum. Að mati stjórnar LK er málið í algerum ógöngum og hefur framkvæmdastjóra þegar verið falið að fá fund með ráðherra vegna alvarlegrar stöðu málsins. Í skýrslunni eru engar tillögur um hvernig standa skuli að endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna, sem var megin verkefni nefndarinnar samkvæmt erindisbréfi hennar dags. 15. september 2011. Stjórn samþykkir svofellda bókun vegna málsins:

 

Ástæða er til að fagna því að vinnu starfshóps um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna sé um það bil að ljúka, þótt seint sé. Það veldur hins vegar miklum vonbrigðum að í skýrslu hópsins eru engar tillögur um hvernig megi standa að því að endurnýja og styrkja holdanautastofnana hér á landi, sem þó var megin verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi. Þó er viðurkennt í skýrslunni að „ekki er möguleiki að stunda sjálfbært ræktunarstarf í holdakynjunum þremur því skyldleiki gripa er of mikill“. Þá eru í skýrslunni beinar rangfærslur, sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir ef upplýsinga hefði verið leitað. Það er því mat samtakanna að því miður hafi umrætt nefndarstarf misheppnast. Landssamband kúabænda hefur þegar farið fram á fund með atvinnuvegaráðherra vegna málsins, þar sem farið verði yfir þá alvarlegu stöðu sem nautakjötsframleiðslan er í og ræddar tillögur að næstu skrefum í málinu. Að mati samtakanna eru þau eftirfarandi:

 

·         Að endurnýja erfðaefni holdanautastofnanna nú þegar, með skilvirkum, hagkvæmum og öruggum hætti.

·         Koma á EUROP mati fyrir nautakjöt svo fljótt sem verða má.

·         Móta leiðir til að bæta afkomu og nýta þau sóknarfæri sem blasa við, m.a. með aukinni fagþekkingu í greininni.

 

Þessum atriðum mun Landssambandið fylgja eftir af þunga, hér eftir sem hingað til.

 

9. Skipan fagráðs í nautgriparækt við breyttar aðstæður. Formaður fagráðs greindi frá að breyta þurfi skipan fagráðs í nautgriparækt, í kjölfar endurskipulagningar ráðgjafaþjónustunnar.

 

10. Starfshópur um fyrirkomulag kúasæðinga. Framkvæmdastjóri rakti gang mála í vinnu starfshópsins. Eindreginn ásetningur nefndarmanna að skila skýrslu til næsta búnaðarþings.

 

11. Önnur mál.

 

a.Þeirri hugmynd varpað fram hvort tilefni sé til endurskoðunar á verðhlutföllum fitu og próteins í ljósi neyslubreytinga á mjólkurafurðum undanfarin ár.

 

Fundi slitið kl. 16.54.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda