Stjórnarfundir – 7. 2012-2013
29.11.2012
Fundargerð 7. fundar stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1, fimmtudaginn 29. nóvember 2012.
Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Gestir undir lið 2 og 3 voru Jóhannes Ævar Jónsson og Guðrún Sigurjónsdóttir, búnaðarþingsfulltrúar LK.
Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 10.30 og gekk því næst til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð með smávægilegum lagfæringum. Verði birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.
2. Búnaðarþing 2013. Fundarmenn veltu upp tillögum að málum sem æskilegt væri að taka fyrir á komandi búnaðarþingi. Þar má telja málefni ráðgjafaþjónustu bænda, form félagsaðildar að BÍ og stöðu búnaðarsambandanna, málefni Hótels Sögu og nýtingu húsnæðis hótelsins, málefni dýralækna, starfssvið þeirra og þjónusta, sæðingastarfsemin og áhrif breytinga á leiðbeiningaþjónustunni á hana og staða hagtölusöfnunar í landbúnaði, sem stefnt er að því að flytjist yfir til Hagstofu Íslands.
3. Búvörusamningar og greiðslumarksreglugerð 2013. Stjórn telur slaka þátttöku í kosningu um breytingar á búvörusamningum mikið umhugsunarefni. Bókun LK um stefnumótun fyrir greinina með meiri samkeppnishæfni og taustari afkomu til lengri tíma er að mati stjórnar eitt það sterkasta í breytingunum. Endurskoðun á núverandi kerfi er orðin knýjandi og mikilvægt að það starf komist í gang sem allra fyrst í kjölfar komandi alþingiskosninga. Þar verður að fara yfir stöðu greiðslumarkskerfisins og tengsl þess við stuðningsgreiðslur, árangur í útflutningi er einnig mikilvægur hluti af breytingum á núverandi kerfi. Lækkun á framleiðslukostnaði skiptir miklu máli í því samhengi og væntanlega forsenda frekari árangurs í útflutningsmálum. Skilgreina þarf stefnu í útflutningsmálum; umfang, fjármögnun markaðsstarfs, möguleg áhætta, verðlagning mjólkur til útflutnings. Miklir möguleikar eru til aukningar á framleiðslu afurða af grasbítum hér á landi. Áhugavert að kortleggja hversu miklir þeir kunna að vera.
4. Framleiðsla, sala og verðlagning mjólkurafurða. Mjög jákvæð þróun er í sölu mjólkurafurða, salan liggur í 116 milljónum lítra á próteingrunni, jöfn greiðslumarki næsta árs. Fitusalan í raun 115 milljónir lítra. Munur á sölu á fitu og próteini fer stöðugt minnkandi, munurinn er kominn niður í eina milljón lítra og hefur ekki verið minni svo árum skiptir. Stjórn telur mikilvægt að leita uppi alla möguleika til afsetningar á mjólkurafurðum. T.d. beina sjónum að farþegum í millilandaflugi og farþegum skemmtiferðaskipa. Þróun framleiðslunnar er heldur uppávið sl. vikur miðað við fyrra ár. Vangaveltur um framleiðslumynstur, burðartíðni og útdeilingu C-greiðslna. Verðlagsnefnd búvara fundar næst 11. desember n.k., verðlagsgrundvöllur septembermánaðar sýnir lítils háttar lækkun framleiðslukostnaðar frá júní. Fram hafa komið hugmyndir um að hætta tilfærslum á innleggi í kringum verðlagsáramót. Hins vegar nær hluti framleiðenda ekki að framleiða 90% af greiðslumarkinu, ein ferð til eða frá getur skipt sköpum í þeim efnum. Verði tilfærslum hætt, mun slíkt fjölga beiðnum um aukaferðir/niðurfellingu ferða mjólkurbíla umtalsvert. Það er niðurstaða stjórnar að mæla ekki með að tilfærslum verði hætt, hún telur þó æskilegt að reynt verði að draga úr umfangi þeirra.
5. Viðhorfskönnun meðal mjólkurframleiðenda. Formaður varpaði fram hugmynd um að gera viðhorfskönnun meðal kúabænda um nokkur atriði sem snúa að greininni og hafa verið mikið til umræðu á vettvangi LK á undanförnum árum. Meðal þeirra eru: Takmörkun á bústærð í mjólkurframleiðslu; hvaða hugmyndafræði á að leggja til grundvallar, lítrafjöldi, kúafjöldi. Kúakyn; hvernig á að haga ræktunarstarfinu hér á landi í framtíðinni. Kvótakerfið og útfærsla á opinberum stuðningi. Hlutlaus fagaðili verði fenginn til verksins. Hver framleiðslueining fái einn möguleika á að svara. Framkvæmdastjóri hefur leitað tilboða hjá Capacent Gallup og MMR. Formanni og framkvæmdastjóra falið að bera saman fram komin tilboð og semja við framkvæmdaaðila um verkið.
6. Smitandi barkabólga, staða málsins. Matvælastofnun sendi erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um miðjan nóvember, þar sem gerð er tillaga að aðgerðum vegna sjúkdómsins. Í tillögunni felst að allir gripir sem greinst hafa með mótefni vegna smitandi barkabólgu verði felldir. Blóðsýnataka verði næsta árið eða svo, þar til að engin merki um smit sjást lengur í hjörðinni. Ráðherra þarf í framhaldinu að taka ákvörðun um niðurskurð. Nauðsynlegt að gengið verði frá málinu hið fyrsta, ekkert sem bendir til annars en að sjúkdómurinn sé bundinn við eina hjörð. Formaður og framkvæmdastjóri munu verða í sambandi við ábúendur til að fylgjast með málinu. Ákveðið að samtökin sendi erindi til ráðuneytisins um að hraða aðgerðum.
7. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Skýrsla um erfðaefni holdanautastofnanna er enn ekki tilbúin. Talsverðar umræður urðu um málið og lýsir stjórn enn og aftur furðu á því hversu óhóflega málið hefur dregist. Framleiðsla og sala nautgripakjöts er um 4.150 tonn og hefur aldrei verið meiri. Tölur um ásetning gefa tilefni til að ætla að umtalsverður framleiðslusamdráttur verði á síðustu mánuðum næsta árs og í byrjun þess þarnæsta. Fyrirhugað er að kalla faghóp nautakjötsframleiðenda saman í byrjun desember, þar sem farið verði yfir helstu atriði sem megi efla þessa grein nautgriparæktarinnar. Ályktun stjórnar um nýtt kjötmat hefur verið ítrekuð við atvinnuvegaráðuneytið. Æskilegt að funda með ráðherra málaflokksins þegar skýrsla um erfðaefni holdanautastofnanna liggur fyrir, til að skipuleggja næstu skref í málinu.
8. Leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti. Formaður fór yfir gang málsins, stýrihópurinn hefur miklar athugasemdir við fram komin drög. Framkvæmdastjóri setti upp ný drög að efnisyfirliti og hefur framkvæmdaraðilum verið falið að vinna verkið mun ítarlegar.
9. Framtíðar fjármögnun kúabúa hér á landi. Erindi frá LK var tekið fyrir á stjórnarfundi Lífeyrissjóðs bænda þann 9. nóvember sl. Í kjölfarið kom fram ósk frá sjóðnum um að hugmyndin yrði útfærð frekar. Verið er að vinna í því, en jafnframt hefur verið ákveðið að fara með hugmyndina fyrir fleiri fjárfesta, banka, mjólkuriðnaðinn. Einnig verði kannað frekar hvernig þessum málum er fyrir komið á Nýja-Sjálandi og í nágrannalöndunum.
10. Reglugerð um viðskipti með greiðslumark. Endurskoðun reglugerðarinnar hefur verið rædd við fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Framkvæmdastjóra falið að ítreka málið frekar við ráðuneytið.
11. Frá síðasta fundi Fagráðs í nautgriparækt. Formaður fagráðsins rakti helstu atriði sem rædd voru á síðasta fundi fagráðs. Meginefni fundarins voru umsóknir í þróunarsjóð nautgriparæktarinnar og niðurstöður kynbótamats og áframhaldandi umræða um nautaárgang 2006. Afgreiddar voru 11 umsóknir um þróunarfé, mörg áhugaverð verkefni í gangi. Valin voru 21 naut til áframhaldandi notkunar og birtingar í nýrri Nautaskrá. Önnur atriði sem lauslega gafst tími til að ræða voru: gátlisti vegna áætlunar um innskot erfðaefnis og hvernig megi auka þátttöku í kynbótastarfinu; prófun á Betri bústjórn stendur yfir; tillaga að áherslum í rannsóknum og farið yfir allra helstu atriði skýrslu um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna; hugmyndir að greiðslum fyrir upplýsingar um kvígur undan sæðinganautum, sem skila sér inn í kynbótastarfið; hugsanlegar ástæður þess að sæðingar eru ekki meira nýttar en raun ber vitni og þátttaka í þeim er ekki almennari. Ræktunarstarfið skilar einungis 2/3 af þeim árangri sem það gæti gert, hvernig er hægt að bæta úr því?; hvernig hægt er að bjóða íslenskum kúabændum upp á þær tækniframfarir sem eru að eiga sér stað í ræktunarstarfi í nálægum löndum. Er ástæða til að taka upp DNA greiningu á kvígum? Þessi atriði verða öll til ítarlegrar umræðu á fundi fagráðs í byrjun nýs árs.
12. Fyrirkomulag kúasæðinga. Beðið hefur verið með málið þar til að niðurstaða í málefnum leiðbeiningaþjónustunnar lá fyrir. Fundur í starfshópnum er fyrirhugaður að loknum stjórnarfundi LK.
13. Önnur mál.
a. Haustfundir. Farið yfir haustfundina. Vonbrigði hvað Landbúnaðarháskólinn sýndi fyrsta fundinum mikið tómlæti, afar fáir starfsmenn mættu og nánast engir úr hópi nemenda, þrátt fyrir að staðsetning fundarins hafi verið hugsuð til þess að efla tengsl skólans við greinina. Að öðru leyti voru fundirnir málefnalegir og vel sóttir.
b. Nýliðunarstyrkir. Mat stjórnar að fara þurfi yfir verklagsreglur um nýliðunarstyrki í mjólkurframleiðslu.
c. Framleiðsla á lífeldsneyti. Á ekki verkefni Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um framleiðslu á lífeldsneyti erindi inn í veffræðsluna?
d. Veffræðsla. Áberandi á veffræðslu um jarðrækt hvar víða vantar þekkingu í jarðrækt. Umhugsunarefni hvað þessi hluti búskaparins hefur setið eftir.
e. Viðskipti á kvótamarkaði 1. nóvember. Farið stuttlega yfir niðurstöðu markaðarins. Aðgengi greiðslumarkslausra jarða að greiðslumarki í mjólk rætt lítillega.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.15.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda