Beint í efni

Stjórnarfundir – 6. 2012-2013

18.10.2012

Fundur stjórnar Landssambands kúabænda, haldinn fimmtudaginn 18. október 2012 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 11.15 og gekk því næst til dagskrár.

 

1. Afgreiðslu fundargerðar frestað til loka fundar en var þá afgreidd með lítils háttar breytingum. Verður birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi.

 

2. Smitandi barkabólga í nautgripum. Mótefni fyrir sjúkdómnum smitandi barkabólgu/fósturláti, IBR/IPV, mældist í talsverðum fjölda kúa á búinu að Egilsstöðum sl. sumar. Málið er alvarlegt, þar sem merki um sjúkdóminn hafa ekki fundist á Íslandi áður. Mælst hefur mótefni í einni kú á Fljótsbakka í Eiðaþinghá, sem gefin var frá Egilsstöðum sl. vetur. LK hefur gengist fyrir að sýni verði tekin á öllum kúabúum landsins. Niðurstöður úr þeirri sýnatöku munu liggja fyrir í næstu viku. MAST lét taka sýni af öllum kúabúum á Austurlandi og er niðurstaðan neikvæð í öllum tilfellum. Líklegustu aðgerðir eru að einungis gripir sem mælast með mótefni verði felldir. Búið að Egilsstöðum verði síðan í sóttkví og með því fylgst þar til engin frekari merki finnast um smit. Engra sérstakra sjúkdómseinkenna hefur orðið vart þar á umliðnum árum en talsverðar umræður hafa orðið um hugsanlegar smitleiðir. Skimað hefur verið fyrir þessum sjúkdómi á nautastöðvum í nágrannalöndunum í um þrjá áratugi, æskilegt að slíkt verði einnig gert hér á landi. Til stendur að taka blóðsýni úr kálfunum á Nautastöðinni. Er það einlæg von stjórnar að mótefnið finnist ekki víðar og mikilvægt að samtökin standi með ábúendum í því ferli sem framundan er og ljóst að talsverður tími mun líða áður en býlið nær fyrri stöðu sinni. Farvegur fyrir bætur á tjóni af þessu tagi er ekki til staðar.Sérfræðingar MAST hafa lýst sig reiðubúna til að mæta á einhverja af haustfundum LK til að fara yfir stöðu mála. Það er mat stjórnar LK að MAST hafi staðið vel að úrvinnslu málsins til þessa.

 

3. Staða búvörusamninga. Samningar voru undirritaðir 28. september sl. Orðið var við óskum LK varðandi breytingar á samningnum og er bókun stjórnar um endurskoðun hluti af honum. Í tengslum við samningagerðina tókst ekki að vekja upp umræðu við hið opinbera varðandi tollamál og uppfærslu á tollskrá, né að koma á nauðsynlegri styrkingu á búvörulögum varðandi forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Erindi frá KS og Auðhumlu um þessi efni voru rædd stuttlega. Fundaröð BÍ er að nokkru leyti á sama tíma og haustfundir LK og því hugmyndin að nokkrir fundir samtakanna verði sameiginlegir og samningarnir verði kynntir á fundum samtakanna. Fyrirhugað er að senda atkvæðaseðla til bænda þann 5. nóvember, frestur til að póstleggja kjörseðla verði til 19. nóvember og talning þann 23. nóv. Samningarnir verða væntanlega teknir til meðferðar á Alþingi þegar niðurstaða úr atkvæðagreiðslu meðal bænda liggur fyrir.

 

4. Greiðslumarksreglugerð 2013. Reglugerðin er háð afgreiðslu breytinga á búvörusamningum og verður ekki gefin út fyrr en eftir að niðurstaða hennar liggur endanlega fyrir. Þróun framleiðslunnar er í nokkuð öðrum takti í ár en undanfarin ár; mikil framleiðsla framan af ári en skörp skil um mitt ár, samdráttur síðan þá.  Tíðarfar kann að skýra það að hluta og þá hefur verð á umframmjólk farið lækkandi. Burðir eru ívið færri á þessu ári en í fyrra og fyrstu niðurstöður heysýna benda til misjafnra heygæða. Verðhlutfall mjólkur og kjarnfóðurs er einnig óhagstæðara nú en áður. Framkvæmdastjóra var falið að fá upplýsingar um væntanlega burði úr skýrsluhaldskerfi BÍ og afla upplýsinga um niðurstöður heysýna. Honum jafnframt falið að afla upplýsinga um hversu margir framleiðendur hafa þegar framleitt upp í greiðslumarkið. Kallað verði eftir sjónarmiðum framleiðenda varðandi skiptingu C-greiðslna á haustfundunum.

 

5. Framleiðsla og sala mjólkurafurða. Framleiðslan er í kringum 126 milljónir lítra. Sala á próteingrunni er um 115 milljónir lítra og fitugrunni 113,8 milljónir lítra. Góður gangur í sölunni það sem af er október. Verð á umframmjólk gæti farið hækkandi þegar líður á veturinn, í takt við hækkun á heimsmarkaðsverði. Aðfangahækkanir eiga eftir að hafa áhrif á framleiðsluna í vetur.

 

6. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Mikil aukning er á pöntunum í slátrun Norðanlands. Heyskortur er vafalítið ein af ástæðunum. Skýrslu um uppfærslu erfðaefnis holdanautastofnanna er enn ólokið. Stjórn lýsir áhyggjum og furðu yfir því að skýrslan skuli ekki vera tilbúin, hún myndi senda mikilvæg skilaboð út í greinina. Mikill samdráttur hefur verið í ásetningi nautkálfa það sem af er ári. Mikilvægt að fá framleiðendur til að velta fyrir sér afkomumöguleikum í framleiðslunni miðað við þeirra forsendur. Bein sala hefur bætt ímynd nautakjötsins og aukið gæðavitund neytenda. Formaður veltir upp þeirri hugmynd að kjot.is verði færð til þeirra aðila sem stunda beina sölu. Stjórn lýsir sig fylgjandi hugmyndinni og telur að slíkt geti leitt til nánari tengingar milli framleiðenda og neytenda. Aðgengi smærri kjötvinnslna að kjöti var rætt stuttlega. Stjórn telur mikilvægt að faghópur um nautakjötsmál hittist strax í kjölfar haustfundanna.

 

7. Endurskoðun leiðbeiningarþjónustunnar. Aukabúnaðarþing 29. október mun taka ákvörðun um sameiningu leiðbeiningarþjónustunnar og fyrirkomulag hennar. LK hefur staðið með BÍ í þessu ferli og lýst sig sammála því í öllum megin atriðum. Verkefnið er það langt komið að viðlíka tækifæri gefst ekki í bráð. Málið var kynnt ítarlega á formannafundi 27. september sl. og verður kynnt á haustfundum LK og fundum BÍ. Nýr búnaðarlagasamningur hvílir á því að sameiningin nái fram að ganga. Eignarhald og svæðaskipting á ekki að skipta máli í þessu samhengi. Grundvallaratriðið er að fyrirtækið bjóði upp á þjónustu sem eftirspurn er eftir frá bændum.Þá ermikilvægt að vanda val stjórnenda og forðast átök um staðsetningu lykilstjórnenda.

 

8. Leiðbeiningar um góða framleiðsluhætti. Farið yfir drög að leiðbeiningum um góða framleiðsluhætti. Vinnuhópur um málið mun fara yfir drögin í byrjun nóvember. Hvorki er búið að gefa út nýja aðbúnaðarreglugerð, né að samþykkja lögin sem hún mun byggja á. Samtökin telja mikilvægt að hafa frumkvæði í þessum málaflokki. Fyrirliggjandi leiðbeiningadrög eru ekki nærri eins ítarleg og búist var við. Verður að fara nákvæmlega yfir þau og lesa samhliða erlendum fyrirmyndum og þeim reglugerðadrögum sem fyrir liggja.

 

9. Betri bústjórn. Prófun á verkfærinu átti að vera löngu lokið en hefur tafist úr hófi. Stjórn hefur miklar áhyggjur af því að verkfærið, sem miklar væntingar eru bundnar við, sé ekki komið í gagnið ennþá.

 

10. Kvótamarkaður 1. nóvember 2012. Það er mat stjórnar að nauðsynlegt sé að gefa nú þegar út yfirlýsingu um greiðslumark næsta árs, þannig að fyrir liggi hvert er greiðslumark hjá þeim bændum sem hyggjast eiga viðskipti á kvótamarkaði. Mikilvægt að fylgja eftir bréfi til ráðuneytisins frá því í sumar um endurskoðun á kvótamarkaðsreglugerð. Stjórn samþykkir svofellda ályktun vegna þessa:

 

„Stjórn Landssambands kúabænda ítrekar beiðni samtakanna í bréfi dags. 14. ágúst 2012 um yfirferð og endurskoðun á reglugerð um viðskipti með greiðslumark í mjólk. Stjórn LK leggur þunga áherslu á að þessari vinnu verði komið í gang nú þegar, svo að hugsanlegar breytingar á reglugerðinni geti tekið gildi um næstu áramót“.

 

Rædd voru möguleg úrræði fyrir þá sem hefja mjólkurframleiðslu á greiðslumarkslausum jörðum, engar einfaldar lausnir fyrir hendi í þeim efnum. Stjórn ræddi einnig mögulegt framboð, eftirspurn og verð á greiðslumarki.

 

11. Haustfundir LK. Fyrsti fundurinn er á Hvanneyri í kvöld enda telur stjórnin mikilvægt að efla tengsl samtakanna við skólann. Farið var yfir fundaáætlunina en samkvæmt henni verða sameiginlegir fundir með BÍ í Vík, á Smyrlabjörgum, Vopnafirði, Barðaströnd og Ísafirði.

 

 

12. Önnur mál.

a. Kynnt var hugmynd Snorra Sigurðssonar um útgáfa á fræðsluefni fyrir kúabændur, mánaðarlegum fróðleiksmola sem komið verði til kúabænda og mjólkuriðnaðurinn prenti og dreifi. Er hugsað sem hvatning til frekari þekkingaröflunar. Rætt stuttlega hvort útgáfa verði á rafrænu formi eða pappír, hið síðarnefnda gæti fallið inn í „fjósmöppuna“ sem gefin var út fyrir nokkrum árum. Útgáfa af þessu tagi eykur sýnileika samtakanna. Formanni og framkvæmdastjóra falið að þróa málið áfram.

 

b. Stjórn samþykkir að framkvæmdastjóri samtakanna sæki ráðstefnu alþjóðasamtaka mjólkuriðnaðarins, World Dairy Summit sem fram fer dagana 4.-8. nóvember í Höfðaborg í Suður-Afríku.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda