Beint í efni

Stjórnarfundir – 5. 2012-2013

20.09.2012

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda haldinn fimmtudaginn 20. september 2012 á skrifstofu samtakanna að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð. Gestir undir liðum 6., 7. og 8. eru Haraldur Benediktsson, formaður BÍ og Erna Bjarnadóttir, forstöðumaður félagssviðs BÍ.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og setti fund, en vegna seinkunar á flugi frá Akureyri tafðist fundarsetning til kl. 11.45. Því næst var gengið til dagskrár.

 

1.      Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd með lítils háttar breytingum. Verður birt á naut.is þegar breytingar á búvörusamningum hafa verið undirritaðar.

2.      Staða verðlagsmála og þróun aðfangaverðs. Formaður reifaði fundi hans og framkvæmdastjóra með kjarnfóðursölum undanfarna daga. Nýr, en óstaðfestur verðlagsgrundvöllur sýnir 0,5% lækkun á framleiðslukostnaði frá 1. júní til 1. sept. sl. Það skal tekið fram að ekki náðist að fullu leiðrétting til samræmis við hækkun á framleiðslukostnaði sl. sumar. Niðurstaðan 1. júlí var þó hagstæðari en búast mátti við í vor. Þessi þróun til lækkunar er líklega stundarfriður, fundir með fóðursölum gefa fullt tilefni til að ætla að hækkanir á kjarnfóðri séu væntanlegar og að þær verði á bilinu 8-10%. LK ítrekaði óskir um birtingu á verðlistum Landstólpa á kjarnfóðri. Félagið hyggst birta verðlista fljótlega, án flutningskostnaðar, en til þessa hefur flutningurinn verið innifalinn í fóðurverði félagsins. Hækkanir á heimsmarkaðsverði virðast hafa náð hámarki, en gengisþróun er mjög óhagstæð þessa dagana. Miklar umræður um fóðurráðgjöf hjá fóðursölum. Skil á niðurstöðum fóðurefnagreininga virðast í betra horfi nú en áður. Þjónustumál mjaltabúnaðar og verðlag varahluta voru einnig rædd á framangreindum fundum, tilefni er til að skoða þau mál nánar. Mikið af varahlutum í mjaltabúnað má fá á mun hagstæðara verði á almennum markaði en í umboðunum sjálfum. Rætt var um tryggingar á mjaltabúnaði, framkvæmdastjóra falið að kanna þau mál hjá tryggingafélögum. Undir lok þessa dagskrárliðar var rætt stuttlega um verðlagningu á mjólk í Kanada. Þar byggja forsendur verðlagningar á handahófsúrtaki búreikninga frá 235 kúabúum. Það er mat stjórnar að hér sé á ferð áhugaverð aðferðafræði sem vert er að gefa nánari gaum. Hún gæti orðið innlegg í umræðuna hér á landi um framtíðarskipan þessara mála.

 

3.      Sölumál mjólkur og greiðslumark 2013. Framundan er ákvörðun um greiðslumark ársins 2013 og er fyrirhugað að móta tillögu þar að lútandi á næsta stjórnarfundi SAM. Söluþróun undanfarna mánuði gefur tilefni til aukningar á greiðslumarki, þar sem sala á próteingrunni er nú komin í 115,3 milljónir lítra. Söluþróunin í fitunni er einkar athyglisverð, á síðasta áratug hefur sala á smjöri aukist um 55% og hefur aukningin verið einkar jöfn og stöðug allt þetta tímabil. Sala á fitugrunni er orðin nálægt 114 milljónum lítra. Söluþróunin gefur því tilefni til að auka greiðslumark fyrir árið 2013. Meðal þess sem verið er að vinna að í markaðsmálum er skyrsala um borð í flugvélum Icelandair, þá er ánægjuleg aukning í sölu á kálfafóðri. Innvigtun síðustu vikur hefur verið nokkuð minni undanfarnar vikur en á sama tíma í fyrra, óhagstætt tíðarfar og lágt verð á umframmjólk ráða þar miklu. Framkvæmdastjóri greindi frá því að samkvæmt skýrsluhaldsgrunni BÍ eru skráðir burðir fyrstu sjö mánuði ársins um 4% færri en á sama tímabili 2011.

 

4.      Búvörusamningar. Formaður reifaði minnisblað stjórnar um málið, ríkið hefur gengið að þeim kröfum sem þar voru settar fram. Allar búgreinar hafa gert tillögu að bókunum við sína samninga. Garðyrkjubændur vilja strax fara í viðræður um gerð á nýjum samningi. Tillaga LK um ráðstöfun á óframleiðslutengdum stuðningi var samþykkt. Ekki hefur verið rætt hvernig verður staðið að kynningu á málinu eða hvenær atkvæðagreiðsla skuli fara fram. Breytingarnar fela í sér nokkra skerðingu framlaga, en á móti kemur að verið er að tryggja fjármuni til greinarinnar og samningsstaða greinarinnar verður betri. Gert er ráð fyrir að breytingarnar verði undirritaðar á næstu dögum.

 

5.       Ýmsir fundir síðustu vikna. Þann 4. september sl. áttu formaður og varaformaður LK fund með fulltrúum Landbúnaðarháskólans, Ágústi Sigurðssyni rektor og Jóhannesi Sveinbjörnssyni deildarforseta Auðlindadeildar. Á þeim fundi kom fram að fjárhagsstaða skólans væri mjög erfið, við stofnun hans hefði verið innibyggður 100 m.kr. halli sem ekki hefði verið tekið á af hálfu ríkisins. Mikil vinna hefði verið lögð í hagræðingu og væri nú svo komið að ekki yrði gengið lengra í þeim efnum án þess að fella niður ákveðna hluta starfseminnar. Rannsóknarstarf skólans líður fyrir fjárskort og manneklu, þar sem kennsla hefur verið sett í forgang. Fulltrúar LK ræddu tengingu búfræðinámsins og þess félagslega og efnahagslega raunveruleika sem við greininni blasir. Fram kom að mikill meirihluti nemenda leggur áherslu á kynbótafræði en mun síður á t.d. fóðurfræði. Mikilvægt að fagráð í nautgriparækt leggi fram áherslulista varðandi nemendaverkefni, jafnframt er ástæða til að fá fleiri nemendur í meistara- og doktorsnám að grunnnámi loknu. Horfur eru á að aukinn kraftur verði settur í vinnslu á nýrri kennslubók í nautgriparækt nú þegar ritstjórinn, Magnús B. Jónsson, hefur að mestu lokið störfum hjá BÍ. Á fundinum kom fram áhugi skólans á að vinna með landssambandinu að veffræðsluverkefninu sem senn verður hleypt af stokkunum.

 

Fundur formanns og framkvæmdastjóra með Matvælastofnun 11. september. Á fundinum kom fram mjög ákveðin skoðun forsvarsmanna Mast, að ýmsar af þeim tillögum og ályktunum sem aðalfundur LK beinir til stofnunarinnar ætti í raun að beina til annarra stofnana í stjórnkerfinu. Varðandi stöðu dýralæknamála er það mat stofnunarinnar að þau séu nú í betra horfi en áður var. Því mati er stjórn LK alveg ósammála og hefur hún verulegar áhyggjur af stöðu þeirra mála, sérstaklega eru víða vandkvæði með að ná í vaktdýralækni innan eðlilegra tímamarka. Gengið var eftir stöðu útivistarmála nautgripa og var upplýsingum um þau mál lofað fljótlega. Stofnunin vinnur að framgangi ályktunar um samþættingu og samhæfingu eftirlits með nautgriparæktinni og telur þann þátt í góðu horfi. Talsvert var rætt um aðgengi bænda að lyfjum og m.a. vísað til reglna sem um þau mál gilda í nágrannalöndunum. Á fundinum var einnig farið yfir forsendur að gjaldskrá stofnunarinnar og voru gefnar ítarlegar og góðar útskýringar á uppbyggingu hennar.

 

Fundur með Ágústi Þorbjörnssyni verkefnisstjóra um endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar 23. ágúst. Sigurður, Jóhann Nikulásson og Baldur Helgi sátu fundinn. Á honum kom fram að afstaða verkefnisstjórans er mjög svipuð þeim áherslum sem LK hefur haft í málaflokknum undanfarin ár, og koma m.a. fram í stefnumörkun samtakanna. Verkefnisstjórinn er mjög meðvitaður um veikleika núverandi fyrirkomulags, sem hann telur að felist einna helst í lítilli eiginlegri ráðgjöf en mikilli vinnu vegna þjónustu. Hann telur mjög mikilvægt að það skýrist mjög fljótlega hvernig starfsumhverfi ráðgjafaþjónustunnar verði í framtíðinni. Fram kom að niðurstaða verkefnisins verður kynnt á formannafundi BÍ þann 27. september n.k.

 

6.      Staða búnaðarlagasamnings. Samningagerð er á lokastigi og er texti samningsins nánast tilbúinn. Mikilvægustu atriðin eru endurreisn Framleiðnisjóðs og 500 m.kr. hækkun á framlögum. Gert ráð fyrir að samningurinn verði til 5 ára. Búnaðarlögunum þarf að breyta vegna fyrirhugaðra breytinga á ráðgjafaþjónustunni og er unnið að undirbúningi þeirra breytinga. Atvinnuvegaráðherra leggur áherslu á að auka sjálfbærni í fóðurframleiðslu svínaræktarinnar. BÍ leggur áherslu á að eftirlaunaskuldbindingar vegna BÍ og búnaðarsambandanna verði færðar til ríkisins og búnaðarlagasamningur lækki sem því nemur. Í tengslum við gerð búvöru- og búnaðarlagasamninga leggja Bændasamtökin áherslu á að virði verndartolla verði endurmetið. Bindingarnar eru í SDR (sérstök dráttarréttindi, reiknieining Alþjóða gjaldeyrissjóðsins) en tollskráin í íslenskum krónum. Heimildirnar hafa því rýrnað með gengisfallinu og við slíkt verði ekki unað. Hliðstæðri vinnu er nýlokið í Noregi og hafa innflutningstollar þar verið hækkaðir. Fyrirkomulag kynningar og atkvæðagreiðslu um búvörusamningana var rætt, mun það hafa einhver áhrif á skipulag haustfunda LK.

 

7.      ESB mál. Erna fór yfir stöðu umsóknarferlisins að ESB. Varnarlínur BÍ liggja fyrir og eru sá rammi sem fulltrúar samtakanna fylgja. Samtökin eiga líka fulltrúa í hópi um 12. kafla um matvælaöryggi og dýraheilbrigðismál. Samningsmarkmið þess kafla fóru fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í byrjun ágúst en strönduðu þar. Niðurstaðan er sú að til stendur að endurskrifa samningsmarkmið um þann kafla. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð aðlögunaráætlunar sem lögð var fram í vor. Mat stjórnvalda er að það skjal hafi enga sérstaka stöðu, fulltrúar BÍ eru ósammála því mati. Viðbrögð stjórnvalda í mótun samningsafstöðu einkennast að mati fulltrúa BÍ af fullkomnu ráðleysi, stjórnvöld vilja „opna“ samningsafstöðu, sem í raun þýðir að þau vita ekki hvers á að krefjast. Kúvending varð í uppbyggingu samningsafstöðu í byggðakaflanum (22. kafla), þegar ráðinn var erlendur aðili til þess verks. Þar er í raun að finna kröfugerð Íslands í landbúnaðarmálum. Slíkt hið sama verði að gera í 11. kaflanum, stjórnvöld eigi að hætta að vísa sífellt til finnska aðildarsamningingsins og leggja áherslu á að gera íslenskan aðildarsamning. Gerð verði krafa um aðkomu erlendra sérfræðinga. Mat fulltrúa BÍ í samningahópnum að ekki sé gerlegt að taka þátt í svo ómarkvissri vinnu öllu lengur.

 

8.      Formannafundur BÍ 27. september n.k. Áætlað er að breyting á ráðgjafaþjónustu og nýr búnaðarlagasamningur verði kynnt þar. Búið er að dagsetja aukabúnaðarþing 29. október þar sem breytingar á ráðgjafaþjónustunni verða afgreiddar. Formaður BÍ ræddi einnig drög að frumvarpi um ríkisháskóla, full ástæða er til að það mál verði kannað rækilega. Í því er gert ráð fyrir að búfræðslulög verði lögð af, en Landbúnaðarháskólinn hafi heimild til að bjóða upp á starfsmenntanám. Rannsóknadeild skólans verði einnig lögð af og rannsóknafjármunir færist til menntamálaráðuneytisins. Sama gildir um lög um Tilraunastöðina á St. Ármóti. Nái frumvarpið fram að ganga verður háskólaráð ekki á neinn hátt tengt atvinnuveginum. Jákvætt að nemendum verði auðveldað að flytja námseiningar á milli háskólanna. Í heild eru frumvarpsdrögin mjög neikvæð fyrir landbúnaðinn.

 

9.      Skipulag haustfunda. Á umliðnum árum hefur fyrsti haustfundur jafnan verið haldinn í Þingborg en einnig í Eyjafirði. Stjórn ákveður að fyrsti fundurinn verði haldinn á Hvanneyri 18. október n.k. Framkvæmdastjóra falið að ræða tillögu að fundaáætlun við formenn aðildarfélaga Landssambands kúabænda.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.35.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda