Beint í efni

Stjórnarfundir – 4. 2012-2013

16.08.2012

Fundargerð stjórnarfundar Landssambands kúabænda haldinn fimmtudaginn 16. ágúst 2012 kl. 11.00 að Bitruhálsi 1 í Reykjavík. Mætt eru Sigurður Loftsson formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.

 

Formaður setti fund, bauð fundarmenn velkomna og gekk til dagskrár.

 

1. Fundargerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð, verður birt á heimasíðu samtakanna að loknum fundi. Nokkrar umræður urðu um frágang og verklag við ritun fundargerða. 

 

2. Málefni nautakjöts. Formaður fór yfir tvö atriði varðandi nautakjötsframleiðsluna sem mikilvægt er að fylgja eftir. Annars vegar er það EUROP mat á nautakjöti og hins vegar endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna.  Það er mat stjórnar að nú sé komið að innleiðingu á EUROP mati með breytingu á reglugerð um flokkun, merkingu og gæðamat sláturafurða. Samþykkt var að senda erindi þess efnis til sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra. Ekki hafa fengist svör við fyrirspurnum framkvæmdastjóra um hvenær niðurstöðu sé að vænta varðandi endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Stjórn telur ólíðandi að hún liggi ekki fyrir. Framkvæmdastjóra falið að senda formlega fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna þessa. Þá var farið yfir framleiðslu og sölu nautakjöts, sem er um 4.100 tonn sl. 12 mánuði. Verðþróun undanfarna mánuði hefur verið jákvæð en ásetningur gripa til kjötframleiðslu stefnir í að verða ívið minni í ár en á sl. ári. Slíkt er áhyggjuefni. Innflutningur á nautakjöti fyrstu sex mánuði ársins er um 50 tonn, talsvert innan við helmingur þess sem var á sama tíma í fyrra. Þá greindi framkvæmdastjóri frá því að nemendaverkefni við Lbhí um stöðumat á nautakjötsframleiðslunni og gerð framleiðsluspár hafi ekki verið lokið, þar sem nemandinn hvarf frá námi. Stjórn telur æskilegt að kanna möguleika á að fela öðrum aðila verkefnið.

 

3. Verðþróun aðfanga. Heimsmarkaðsverð á korni hefur hækkað mikið á undanförnum vikum og valda mestu þurrkar í Bandaríkjunum í meira en hálfa öld þar mestu. Innlendir kjarnfóðursalar hafa varað við að það kunni að leiða til hækkana á fóðurverði á næstunni. Gefi gengið eftir á sama tíma mun það einnig auka á vandann. Stjórn hefur miklar áhyggjur af fóðurverði og telur mikilvægt að samtökin fylgist vel með þróun hráefnismarkaða og haldi umbjóðendum sínum upplýstum um gang mála. Formaður og framkvæmdastjóri hyggjast funda með kjarnfóðursölum á næstunni, þar sem farið verði yfir stöðuna. Inn í þessa stöðu spilar einnig að gróffóðuröflun hefur gengið ærið misjafnlega í sumar. Bændur á sumum landssvæðum eru þegar farnir að huga að kaupum á gróffóðri og fækkun gripa. Í ljósi stöðu nautakjötsframleiðslunnar telur stjórn æskilegt að bændur verði hvattir til að selja gripi til áframeldis, fremur en að slátra þeim áður en sláturstærð er náð. Framkvæmdastjóra falið að fara yfir stöðu mála með forsvarsmönnum búnaðarsambandanna, sem eru að kortleggja stöðu heyfengs.

 

4. Tryggingamál kúabænda. Framkvæmdastjóri vann á vordögum að söfnun upplýsinga um umfang gripatjóna upp úr skýrsluhaldsgögnum BÍ og sendi á tryggingafélögin Vörð, VÍS og Sjóvá. Málinu hefur verið fylgt eftir við félögin. Þau eru að kanna möguleika á tryggingavernd, annars vegar fyrir einstaka bændur og hins vegar sem hluta af rekstrarstöðvunartryggingu félagsmanna í Auðhumlu svf. Eitt félag hefur beðið um ítarlegri gögn varðandi umfang og ástæður tjóna og hefur framkvæmdastjóri beðið Bjargráðasjóð um að útvega þau. Það er mat stjórnar að ekki sé gerlegt að halda uppi ásættanlegri tryggingavernd með þeim fjármunum sem greinin greiðir í Bjargráðasjóð og að mikilvægt sé að koma upp tryggingavernd á almennum markaði. Æskilegt er að fjármunum sem nú renna í Bjargráðasjóð verði fundinn annar farvegur, t.d. í verkefni á sviði forvarna.

 

5. Staða búvörusamninga. Formaður kynnti drög að breytingum á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Í þeim er gert ráð fyrir að samningurinn verði framlengdur um tvö ár og að framlög ársins 2013 verði þau sömu og á yfirstandandi ári að viðbættum verðbótum, en að frádreginni 1% skerðingu. Eftir það taki framlög árlegum verðlagsbreytingum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga og verði ekki um frekari skerðingar að ræða til loka samningsins. Gert er ráð fyrir að ef þróun vísitölu neysluverðs víkur frá forsendum fjárlaga verði það bætt upp. Stjórn LK telur afar mikilvægt að tryggja fjármuni til greinarinnar og að horfið verði frá ákvæði um raunlækkun framlaga. Hún telur jafnframt mikilvægt að þeim atriðum stefnumörkunar LK 2021 sem lúta að bættri nýtingu á opinberum stuðningi og lækkun á framleiðslukostnaði verði komið inn í breytingarnar. Stjórn samþykkir svofellda bókun vegna þessa: „Samningsaðilar eru sammála um, á grundvelli greinar 8.2 samningsins, að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013.“  Ljóst er að þessar breytingar á samningnum kalla á atkvæðagreiðslu um hann meðal kúabænda. Varðandi óframleiðslutengdan hluta stuðningsgreiðslna, er það niðurstaða stjórnar að beðið verði með frekari tilfærslu hans, þar til niðurstaða framangreinds starfshóps liggur fyrir.

 

6. Framleiðsla og sölumál mjólkur. Mikil framleiðsla var á fyrri helmingi ársins og stefnir í að hún verði talsvert langt umfram greiðslumark á yfirstandandi verðlagsári. Heimsmarkaðsverð mjólkurafurða er mjög lágt um þessar mundir, en getur sveiflast mikið á næstu mánuðum vegna hækkana á aðfangaverði á heimsmarkaði. Þær eru farnar að hafa mikil áhrif á afkomu mjólkurframleiðenda, bæði austan hafs og vestan. Sala mjólkurafurða gengur vel um þessar mundir, á próteingrunni er hún jöfn greiðslumarkinu, 114,5 milljónir lítra, sem er mjög ánægjulegt. Fitusalan er 112,4 milljónir lítra. Verðhækkun 1. júlí sl. virðist ekki hafa haft mikil áhrif en ljóst er að mikill ferðamannastraumur í sumar hefur haft jákvæð áhrif á sölu mjólkurafurða.

 

7. Vinnuhópur um sæðingamál. Framkvæmdastjóri er fulltrúi LK í vinnuhópi um sæðingamál og hefur hópurinn haldið einn fund. Ætlunin er að fara í gegnum alla þætti sæðingastarfseminnar, sem og rekstur Nautastöðvarinnar. Formaður hópsins vinnur að ítarlegri gagnasöfnun um rekstur, ráðningarfyrirkomulag frjótækna, nýtingu mannafla og akstursfyrirkomulag. Hópurinn hefur rætt faglega stöðu sæðinganna og telur að tilfinnanlega skorti á ráðgjöf varðandi frjósemismál og því nauðsyn að bæta þar úr.

 

8. Starfsáætlun stjórnar og haustfundir 2012. Formaður kynnti drög að fundaáætlun stjórnar fram að næsta aðalfundi. Áætlunin gerir ráð fyrir einum stjórnarfundi á mánuði að jafnaði. Skipulag haustfunda var rætt og er stefnt að styttri haustfundalotu en á síðasta ári og að fundum verði skipt milli stjórnarmanna. Gert er ráð fyrir fyrsta fundi fimmtudaginn 18. október. Framkvæmdastjóra falið að gera tillögu að fundaáætlun. Fyrirhugaðar breytingar á búvörusamningum kunna að hafa áhrif á haustfundaáætlun og urðu vangaveltur um hvernig skuli staðið að kynningu á breytingunum, ef af þeim verður. Sú kynning kann að hafa áhrif á þátttöku í atkvæðagreiðslunni um breytingarnar en stjórn telur afar mikilvægt að þátttaka bænda í henni verði almenn.

 

9. NÖK ráðstefna í Gråsten á Suður-Jótlandi 2012. Jóhann Nikulásson rakti helstu atriði ráðstefnu Nordisk Økonomisk Kvægavl sem hann sat í Gråsten á Suður-Jótlandi um mánaðamótin júlí-ágúst. Hann gerðist meðlimur 2006 og hefur setið fjórar ráðstefnur félagsins. Í því eru kúabændur, ráðunautar, vísindamenn og helstu áhrifamenn nautgriparæktarfélaganna í Skandinavíu. Honum verður æ betur ljóst hversu langt að baki hérlendir bændur standa erlendum kollegum sínum á mörgum sviðum í kynbótastarfi. Fram hefði komið að kúabændur í nágrannalöndunum væru í miklum mæli að hagnýta nýjungar á borð við úrval á grunni erfðamarka (genomisk selektion) og kyngreint sæði. Aukin samvinna ræktunarfélaganna, Viking og Geno, hefur skilað verulega auknum framförum í rauðu kúakynjunum. Hugmyndin að stofnun Viking Genetics, hins sameiginlega nautgriparæktarfélags í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, fæddist á vettvangi NÖK. Erindi Rólvs Djurhuus um færeyska mjólkurframleiðslu taldi Jóhann mjög athyglisvert. Það sýndi í raun hversu gríðarlegir möguleikar eru til staðar fyrir íslenska mjólkurframleiðslu, ef rétt væri á málum haldið. Færeyingar hefðu verið í sömu sporum og Íslendingar fyrir hálfri öld, með lítinn landnámsstofn en hefðu valið þann kost að flytja inn erfðaefni. Um 1960 var meðalnyt kúnna innan við 3.000 kg, í dag eru hún 8.600 kg. Þá taldi hann að kyngreining á sæði myndi veita nautakjötframleiðslunni mikil sóknarfæri hér á landi. Á ráðstefnunni komu jafnframt fram talsverðar áhyggjur af innkomu stórfyrirtækja á borð við Pfizer og Monsanto í ræktunarstarf nautgriparæktarinnar.

 

10. Önnur mál.

a. Málstofa um þróun íslenskrar nautgriparæktar sl. hálfa öld. Formaður varpaði fram hugmynd að málstofu á Hvanneyri eftir áramót í tilefni af sjötugsafmæli Magnúsar B. Jónssonar skólastjóra og ráðunautar, sem starfað hefur í þágu nautgriparæktarinnar og íslenskra bænda í fimmtíu ár. Þróun greinarinnar á þeim tíma verði rakin og rýnt verði í framtíðarhorfur. Undirtektir stjórnar eru jákvæðar. Formanni og framkvæmdastjóra falið að kanna undirtektir þeirra sem málið varðar.

 

b.Fundir með MAST og rektor LBHÍ. Mikilvægt að þeim verði komið á sem fyrst. Stjórn telur mikilvægt að kynning á rekstrarumhverfi greinarinnar verði liður í kennslu við Lbhí. Afleysingamál dýralækna verði tekin fyrir á fundi með Matvælastofnun, en þau eru í algerum ólestri að mati stjórnar.

 

c. Staða endurskipulagningar ráðgjafaþjónustunnar. Verkefnisstjóri endurskipulagningarinnar hefur ekki enn hitt forsvarsmenn búgreinafélaganna að máli og verði þrýst á að það verði gert.

 

d. Vinnugallar með merki LK. Framkvæmdastjóri lagði fram tilboð frá Tanni.is og 66 Norður. Ákveðið að taka tilboð 66 Norður í Birki vinnugalla, sem verði seldir bændum og búaliði á kostnaðaverði gallanna og greiði LK fyrir merkingu á þeim. Framkvæmdastjóri kanni möguleika á að selja gallana í gegnum Auðhumlu svf.

 

e.Kvótamarkaður. Áfram verði fylgt eftir að markaðsdögum verði fjölgað og úrræði gagnvart þeim er hefja búskap á greiðslumarkslausum jörðum verði athuguð.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.45.

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda