Stjórnarfundir – 3. 2012-2013
08.06.2012
Þriðja fundargerð stjórnar Landssambands kúabænda, fundur haldinn í Búgarði á Akueyri föstudaginn 8. júní 2012. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Nikulásson, Jóhann Gísli Jóhannsson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri ritaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 10.50 og gekk til dagskrár.
1. Fundagerð síðasta fundar. Afgreidd og undirrituð. Hafði verið birt á naut.is þann 28. maí sl. Nokkur umræða varð meðal stjórnarmanna um frágang fundargerða.
2. Framleiðsla, sala og verðlagning mjólkurafurða. Fram kom að fyrstu fimm mánuði ársins 2012 er framleiðslan um 4% meiri en á sama tíma í fyrra. Eftir aprílmánuð er 12 mánaða sala á próteingrunni 113,8 milljónir lítra og 111,7 milljónir lítra á fitugrunni. Farið var yfir stöðu verðlagsgrundvallar 1. júní 2011, en þar kemur fram að kostnaðaraukning frá 1. júní 2011 er um 8,3%. Heildarkostnaður samkvæmt verðlagsgrundvelli er því orðinn 179,77 kr/ltr. Rauntekjur á móti þessum kostnaði eru hinsvegar tæplega 140 kr/ltr. Farið yfir þróun tollverndar mjólkurafurða undanfarin ár, á osti, smjöri og undanrennudufti. Sé horft til núverandi heimsmarkaðsverðs á osti og gengisstöðu krónunnar verður ekki betur séð en það svigrúm sem tollverndin veitir sé full nýtt. Þá er mjög farið að reyna á verðþol mjólkurduftsins og ljóst að snúið er að hækka drykkjarmjólkina í öðrum takti en lágmarksverð til bænda. Svigrúm til verðhækkana á markaði virðist einna helst í viðbiti, þar er þó mikilvægt að verja þá jákvæðu söluþróun sem verið hefur á liðnum árum. Fyrstu niðurstöður í uppgjöri Sunnubúa fyrir árið 2011 sýna þokkalega niðurstöðu í rekstri, sama er uppi á teningnum hjá Ráðhildarbúum í Eyjafirði. Það er mat stjórnar að staða verðlagsmála mjólkur sé mjög alvarleg og að kostnaðarhækkunum verði í síauknum mæli að mæta í bættum rekstri búanna. Raunhæft er að ætla að hægt sé að ná fram 2-3% hækkun á lágmarksverði mjólkur. Í framhaldinu verður svo að draga fram alla raunhæfa möguleika til að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri. Einnig var farið yfir þróun afurðaverðs til bænda í nágrannalöndunum á umliðnum árum, mat stjórnar að afurðaverð hérlendis muni í auknum mæli taka mið af því. Ræddir möguleikar á framlengingu búvörusamninga og afstaða samtakanna í þeim efnum. Farið yfir samningsstöðu greinarinnar gagnvart hinu opinbera varðandi hugsanlega framlengingu samninganna. Þá varð talsverð umræða um tilfærslu fjármuna milli einstakra liða mjólkursamningsins og hvernig fjármunir af óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi nýtist kúabændum sem best.
3. Kynning á möguleikum á metangasvinnslu úr kúamykju og öðrum orkugjöfum. Gestir undir þessum lið eru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, Elín Aradóttir og Níels Sveinsson frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar (AFE). Margvísleg verkefni hafa verið unnin á sviði sjálfbærra orkugjafa og hefur verkefni AFE verið að draga þá þekkingu saman á einn stað. Meðal þeirra verkefna sem er unnið að má nefna „Plast í olíu“, þ.e. úrvinnsla á baggaplasti í olíu sem hægt er að nýta beint á vélar og farartæki. Þá var ítarleg kynning á verkefninu „Hver eru hagfræðileg áhrif þess að skipta út „aðkeyptu“ eldsneyti fyrir eldsneyti sem unnið er úr úrgangsefnum?“. Þar kom m.a. fram að hægt er að vinna metan úr kúamykju sem gæti komið í stað 16% af eldsneytisnotkun einkabíla í Eyjafirði og að líkindum væru hliðstæðir vinnslumöguleikar víðar á landinu. Farið var yfir tillögu að fagráði verkefnisins og drög að kostnaðaráætlun, sem í dag hljóðar upp á 9,2 milljónir kr. Velt upp þeim möguleika hvort verkefnið væri styrkhæft hjá þróunarsjóði nautgriparæktarinnar. AFE óskar eftir tilnefningu fulltrúa LK í fagráð verkefnisins, þá kom fram að eðlilegt sé að Landbúnaðarháskólinn eigi fulltrúa í fagráðinu. Stjórn LK samþykkir svofellda ályktun vegna málsins: Stjórn Landssambands kúabænda lýsir ánægju með verkefni Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar á sviði sjálfbærra orkugjafa og fagnar því tækifæri sem samtökunum býðst til aðkomu að verkefninu, sem er eitt af lykilatriðum í stefnumörkun samtakanna 2021. Stjórnin samþykkir að tilnefna framkvæmdastjóra samtakanna í fagráð verkefnisins.
4. Málefni nautakjöts. Faghópur um málefni nautakjöts hefur verið stofnaður og tekið til starfa. Í honum eru Snorri Örn Hilmarsson, Sogni, Bessi Vésteinsson, Hofsstaðaseli, Unnsteinn Hermannsson, Langholtskoti og Gylfi Halldórsson, Breiðabóli, auk Jóhanns Gísla Jóhannssonar stjórnarmanns og Baldurs Helga Benjamínssonar framkvæmdastjóra LK.. Stefnt er að því að hópurinn komi saman að loknu sumarfríi og fari þá m.a. yfir skýrslu vinnuhóps Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna. Umræddur vinnuhópur ráðherra var stofnaður í júní 2011 og var ætlað að skila skýrslu nú á útmánuðum. Stjórn LK lýsir yfir miklum vonbrigðum með hve seint hefur gengið með þetta verkefni, enda afar brýnt að niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst. Farið var yfir stöðu nautakjötsframleiðslunnar, framleiðsla og sala í ágætu jafnvægi eins og er, um 4.000 tonn á ársgrundvelli, þó er farið að gæta lítils háttar biðlista hjá einstaka sláturleyfishöfum.
5. Umsóknir um styrki.
a. Umsókn frá Gunnari Tr. Halldórssyni vegna barnabókarinnar „Sú fagra sveit“. Stjórn telur að verkefnið sé áhugavert og spennandi, en jafnframt að það falli utan þeirra verkefna sem LK hefur jafnan tekið þátt í og ákveður að hafna umsókninni.
b.Umsókn samtakanna Beint frá býli. Lögð fram umsókn samtakanna dags. 16. maí 2012, þar sem sótt er um 500.000 kr stuðning frá Landssambandi kúabænda. Formaður reifaði málið. Stuðningur LK við samtökin var á sínum tíma bundinn því skilyrði að skýrsluskil varðandi afdrif mjólkur sem félagsmenn framleiða yrðu bætt. Sú staða hefur batnað verulega, þó nokkur atriði standi ennþá útaf varðandi áðurnefnd skýrsluskil og eftirlit með þeim. Stjórn telur mikilvægt að skýrsluskilum og skilgreiningum sem varða starfsemi heimavinnsluaðila í mjólkurframleiðslu verði komið sem fyrst í eðlilegt form. Þá er ástæða til að styðja við markaðsstarf samtakanna vegna nautakjötsins. Vegna óvissu í framtíðarfjármögnun LK er þó ekki hægt að gera ráð fyrir árlegri styrkveitingu af þessu tagi. Ákveðið að styrkja samtökin um 400.000 kr á árinu 2012.
6.Efling á ræktunarstarfi íslenska kúastofnsins. Ályktun aðalfundar hefur verið tekin til ýtarlegrar umfjöllunar í fagráði í nautgriparækt. Vinna við gerð pörunaráætlana fer af stað í júnímánuði um leið og vinnslu nýrrar Nautaskrár lýkur. Varðandi innskot erfðaefnis er fyrsta skref að skoða hvernig tæknilegri framkvæmd verkefnisins verður háttað. Málið verður unnið í náinni samvinnu við landsráðunauta í nautgriparækt. Ýtarlegar umræður urðu um málið. Undir þessum lið var einnig ákveðið að birta samþykktar fundargerðir fagráðs á naut.is hér eftir.
7. Lánamál bænda. Formaður fór yfir samantekt sem gerð var í kjölfar funda með fjármálastofnunum; Lífeyrissjóði bænda, Arion banka og Landsbankanum sem fulltrúar LK áttu í lok maí.
- Á fundi með Lífeyrissjóði bænda var rætt um mögulega aðkomu sjóðsins að fjármögnun við jarðakaup í samræmi við ályktun aðalfundar LK 2012. Undirtektir fulltrúa sjóðsins við málaleitan kúabænda voru mjög jákvæðar og töldu þeir líkur standa til að hægt væri að hrinda hugmyndinni í framkvæmd með haustinu, reynist engar hindranir í veginum.
- Á fundi með Landsbankanum kom fram að verið er að athuga upptöku þjónustugjalda í tengslum við ábyrgðarveitingar vegna greiðslumarkskaupa, í stað núverandi hlutfallsþóknana. Kemur sér vel fyrir þá sem bjóða í mikið magn, en síður fyrir þá sem bjóða í takmarkað magn.
- Á báðum fundunum með viðskiptabönkunum komu fram áhyggjur af hugmyndum fyrrverandi ráðherra málaflokksins í kringum jarða- og ábúðalög. Einnig kom fram að enginn kúabóndi er í málaferlum við bankana vegna skuldamála. Langt er ennþá í að fram komi niðurstaða í vaxtaútreikninga á erlendum lánum. Mat bankanna að óraunhæft sé að ætla að rekstur kúabúa nái að greiða niður mikla uppbyggingu á einni starfsævi og skilningur á að sníða þurfi fjármögnun búrekstrar að þessum veruleika.
8. Kvótamarkaður. Komið hafa fyrirspurnir um hvort kvótamarkaður verði haldinn nú síðsumars. Málið hlaut jákvæðar undirtektir hjá ráðherra á fundi með honum í febrúar sl. og var hann tilbúinn að skoða fjölgun markaðsdaga á yfirstandandi ári, gæfi niðurstaða aprílmarkaðar tilefni til. Allt það greiðslumark sem boðið var falt á aprílmarkaði seldist og almennt virðist framboð á greiðslumarki vera takmarkað. Rætt var hvort að ráðast eigi í sértæk úrræði fyrir nýliða sem byrja mjólkurframleiðslu á greiðslumarkslausum jörðum. Ljóst er að slíkum sértækum úrræðum fylgja fjölmörg álitamál sem skaðað geta þetta fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta. Ýtarlegar umræður urðu um málið en ákveðið að skoða hvort til séu úrræði í þessu efni sem til greina koma. Stjórn samþykkir svofellda ályktun til Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna kvótamarkaðar:
Stjórn Landssambands kúabænda telur afar mikilvægt að auka sveigjanleika í greiðslumarksviðskiptum með fjölgun markaðsdaga. Þá óskar stjórnin eftir viðræðum við ráðuneytið, þar sem farið verði yfir núverandi fyrirkomulag greiðslumarksviðskipta. Þar verði farið yfir þá agnúa sem upp hafa komið við framkvæmdina og leitað leiða til að sníða þá af, þannig að kvótamarkaðurinn nái að þjóna tilgangi sínum enn betur en nú er. Þessari vinnu verði hraðað svo gefa megi út endurbætta reglugerð sem taki gildi fyrir ársbyrjun 2013.
9. Tilnefning í verðlagsnefnd búvara. Lagt til að tilnefning í verðlagsnefnd verði óbreytt frá fyrra ári.
10. Tilnefning í starfshóp um skipulagningu sæðingastarfseminnar. Ákveðið að tilnefna framkvæmdastjóra samtakanna til setu í hópnum.
11. Staðsetning aðalfundar 2013. Ákveðið að taka tilboði Hótel Héraðs, fundurinn verði því haldinn þar 22. og 23. mars 2013.
12. Önnur mál:
a. Rætt um að útbúa mjaltagalla/svuntur með merki LK. Framkvæmdastjóra falið að skoða kosti sem í boði eru. Verði selt bændum og búaliði á kostnaðarverði.
b. Fram kom að fyrirhugað er að endurbæta grill samtakanna á næstu dögum, það verður einnig merkt samtökunum með greinilegum hætti. Einnig verði merktar fleiri húfur, líkt og á síðasta ári. Fyrirséð að nautagrillið verður notað þrisvar sinnum það sem eftir lifir sumars, á Héraði á Jónsmessu, í Hornafirði um miðjan júlí og á Landbúnaðarsýningu á Hrafnagili í ágúst. Það hefur þegar verið notað tvisvar á þessu sumri, í bæði skiptin á Selfossi.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.30.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri