Stjórnarfundir – 2. 2012-2013
09.05.2012
Annar stjórnarfundur í Landssambandi kúabænda starfsárið 2012-2013, haldinn í Bændahöllinni miðvikudaginn 9. maí 2012. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri skrifaði fundargerð.
Formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund kl. 10.58 og gekk til dagskrár.
1. Fundargerð síðasta fundar. Undirrituð af stjórnarmönnum. Var birt á naut.is 28. apríl sl.
2. Staðsetning næsta aðalfundar. Bornir voru saman þeir kostir að halda fundinn á Egilstöðum/Hallormstað eða í Reykjavík. Stjórn þótti þær upplýsingar sem fyrir lágu ekki nægar og var framkvæmdastjóra falið að geri ýtarlegri samanburð á þeim valkostum sem eru í boði, sem stjórn taki svo afstöðu til á næstu dögum.
Jafnframt verði skoðað hvort hægt sé að minnka aksturskostnað vegna aðalfundarfulltrúa með því að óska eftir að þeir samnýti ferðir á þann fundarstað sem fundurinn er haldinn hverju sinni.
3. Verðlagsmál mjólkur. Gestur undir þessum lið var Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Farið var yfir niðurstöðu verðlagsgrundvallar 1. mars sl. og hækkun á einstökum kostnaðarliðum. Þokkalega hefur gengið að ná fram leiðréttingum vegna breytilegs kostnaðar, en launaliður bænda stendur hins vegar óbættur hjá garði. Einnig var farið yfir afkomu mjólkuriðnaðarins, fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir og áætlaðan ávinning af þeim. Farið var yfir stöðu helstu vöruflokka gagnvart tollvernd og núverandi verðskráningu. Rekstur mjólkuriðnaðins er brothættur, dýrir kjarasamningar og ekki lengur hægt að fá aðgang að ótryggri orku á mun lægra verði eins og áður var. Þrýstingur er af hálfu bænda og iðnaðarins um leiðréttingu á verði. Ljóst er þó að kröpp staða er til að gera verðbreytingar, gæta verður að afkomu bænda og iðnaðar, en taka verður jafnframt tillit til stöðu á markaði. Ýtarlegar umræður urðu um málið.
4. Ýmis mál sem tengjast BÍ og ályktunum LK. Gestir undir þessum lið voru Haraldur Benediktsson, Eiríkur Blöndal, Erna Bjarnadóttir, Gunnar Guðmundsson, Tjörvi Bjarnason og Jón Baldur L‘Orange.
a. Ímyndar- og kynningarmál, hönnun á vörumerki. Haraldur kynnti tollabækling sem BÍ hefur verið með í smíðum um hríð og er nýkominn út, sagði frá fundi um matvælaverð með C.A. Smedshaug og horfur í þeim efnum. Verið er að undirbúa annan slíkan fund í haust. Þá ræddi hann fjárfestingu í svokölluðum landbúnaðarklasa og auglýsingaherferð um að landbúnaður skapi verðmæti. Tjörvi lagði fram minnisblað um ímyndar- og kynningarmál og þau verkefni sem eru í gangi á þeim vettvangi hjá Bændasamtökunum. Þar kom m.a. fram að sumarútgáfuhlé Bændablaðsins verður aflagt og tölublöðum fjölgar þar með um tvö. Stefnt er að aukinni dreifingu og endurskoðun á vef blaðsins. Í undirbúningi er málþing um matarauðlindir á Íslandi. Einnig kynnti hann búorku sem er verkefni um framleiðslu á „grænni“ orku, eflingu landbúnaðartengdrar ferðaþjónustu og önnur verkefni. Rætt var um notkun á íslenska fánanum sem vörumerki fyrir íslenskar búvörur, en ekki hefur enn fengist heimild til þess með breytingu á fánalögum. Áhugi afurðastöðva á þessu máli hefði mátt vera meiri. Ljóst að gríðarlegt verkefni er að halda slíku vörumerki úti, t.a.m. er kostnaður garðyrkjunnar af því að halda úti fánaröndinni verulegur. Mikilvægt er að ná samstöðu um slíkt merki, sem hafi möguleika á að festa sig í sessi í huga neytenda. Þá var rætt um mikilvægi þess að samtök bænda og starfsmenn þeirra sendi ekki frá sér misvísandi skilaboð.
b. Efling ræktunarstarfs íslenska kúastofnsins. Formaður reifaði málið, ræddi frekari þróun Huppa.is, gerð á pörunarforriti og fleira. Í umræðum um málið kom fram að samið hefur verið við Geno um að fara í gegnum alla verkferla nautastöðvarinnar til að bæta úr því sem þar mætti betur fara, einnig að halda öflugt námskeið fyrir ráðunauta og frjótækna þar sem helst verði horft til frjósemisþátta og beiðslisgreiningar. Alls hafa verið unnin 350 verkefni af ýmsum toga á sl. 12 mánuðum varðandi Huppu og í þau fóru um 600 vinnustundir. Alls bíða nú 68 verkefni af ýmsum stærðum og er mikilvægt að þeim verði forgangsraðað eftir mikilvægi, til að nýta sem best þann mannafla sem til reiðu er. Skortur er á starfsmönnum í upplýsingatækni, taxtar hækka um 20-30% og þróunarkostnaður þar með. Rætt var um gagnastreymi milli mjaltakerfa og skýrsluhaldskerfa, jafnt og gagnakerfa mjólkuriðnaðarins og skýrsluhaldskerfanna. Horft er til aukinnar nýtingar á „open source“ hugbúnaði, en slíkan hugbúnað þarf ekki að greiða leyfisgjöld fyrir og gæti því sparað nokkrar milljónir kr. á ári.
c. Staða nautakjötsframleiðslunnar. Vaxandi markaður er fyrir nautakjöt en vöxturinn kemur að langmestu leyti fram í auknum innflutningi. Staða greinarinnar er mikið áhyggjuefni, bæði efnahagslega og faglega. Mikilvægt er að skjóta undir hana styrkari fótum, ekki síst með gæði framleiðslunnar í huga. Mikil þörf er á aukinni fagmennsku, efla þarf þekkingu og ráðgjöf. Mjög óþægilegt er að ekki liggi fyrir niðurstöður starfshóps sem skipaður var til að finna leiðir til að endurnýja erfðaefni holdanautastofnanna en afar mikilvægt er að niðurstaða fáist sem allra fyrst í það verkefni. Í framhaldinu verður síðan hægt að sjá fyrir sér hvaða aðstöðu þarf til verksins og hver á að bera ábyrgð á framkvæmd þess. Fram kom að mikil eftirspurn er eftir ráðgjöf um fóðrun á ungviði, eldiskerfum og hvernig best er að haga þeim málum. Þá var rætt um nauðsyn þess að taka upp nýtt kjötmat.
d.Kjaramál, hagtölusöfnun, ráðgjafaþjónusta, „Betri bústjórn“. Aðalfundur LK 2012 ályktaði um að hagtölusöfnun og úrvinnsla þeirra færi yfir til Hagstofu Íslands. Mikilvægt er að stuðla að því að gagnasöfnunin og úrvinnsla hennar komist í betra horf en verið hefur undanfarin ár. Hvað varðar endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar þá er unnið ötullega að verkefninu. Til stendur að stofna vinnuhópa í kringum ýmis álitamál, sem skili áliti í sumar. Þá er stefnt að stórum samráðsfundi síðsumars sem taki afstöðu til málsins. Á þeim tíma þarf að liggja fyrir stefnumörkun frá samningahópi um búnaðarlagasamning um hvernig sú vinna fellur að endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar. Verkefnið „Betri bústjórn“ fer í prófun á næstu dögum og verður vonandi tekin formlega í notkun um næstu mánaðamót. Mikilvægt er að tryggja öryggi gagna, en gagnaskil mættu vera betri. Nú liggur fyrir fjöldi skattauppgjöra og mikilvægt er að ná þeim inn í grunninn meðan þau eru ný. Greiningin sem Betri bústjórn býður upp á ætti að verða góð hvatning til bænda að skila inn gögnum. Öflug haggögn eru mjög mikilvægt tæki í hagsmunagæslu fyrir bændur.
e. Lánamál. Rætt var hvernig fjármögnun landbúnaðarins verði best fyrir komið í framtíðinni. Er raunhæft að Lífeyrissjóður bænda komi í auknum mæli að jarðakaupum nýliða með lánum sem hafa hóflegri endurgreiðslukröfu og fyrst og fremst væri krafa um vaxtagreiðslur? Senn líður að því að ekki sé hægt að ræða um skuldaúrvinnslu bænda sem átaksverkefni, enda ekki forsvaranlegt að allur mannaflinn á þessu sviði sé upptekinn í þeim málum eingöngu, þar sem sinna þarf fleiri sviðum og horfa til framtíðar.
f. Búvörusamningar. Reifuð staða búvörusamninganna og hugsanleg framlenging þeirra, en fyrir liggja ályktanir bæði frá Búnaðarþingi og aðalfundi LK um það efni. Fyrir liggur að á búvörusamningunum öllum er um 1.500 m.kr. stallur sem þarf að brúa í fjárlögum fyrir næsta ár þegar verðtryggingarákvæði samninganna taka að fullu gildi. Uppsafnaður sparnaður ríkisins vegna breytinga á búvörusamningunum árið 2009 hefur verið metinn um 2,6 milljarðar í heild. Málið hefur enn sem komið er einungis verið rætt óformlega við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og mun vinna við nýjan Búnaðarlagasamning væntanlega hafa forgang.
g. Uppbygging félagskerfisins. Málið var reifað stuttlega, en ályktun Búnaðarþings um efnið hefur ekki verið tekin til meðferðar enn sem komið er. Skapast hefur ákveðið tómarúm um tilvist búnaðarsambandanna í tengslum við endurskipulagningu ráðgjafaþjónustunnar. Garðyrkjan er komin einna lengst í endurskipulagningu á sinni félagsuppbyggingu.
h. Eftirlit í landbúnaði – dýralæknaþjónustan. Fram kom að orðinn er árviss viðburður að sterk óánægja kemur frá bændum með vinnubrögð þeirra stofnana sem hafa eftirlit með landbúnaðarframleiðslu, aðgengi að dýralæknaþjónustu og möguleikum bænda til að nálgast lyf. Ályktunum Búnaðarþings um þetta efni var komið á framfæri við Matvælastofnun, Lyfjastofnun og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Samskiptin við MAST eru óviðunandi og stofnunin virðist eiga í miklum ímyndarvanda. Samtök bænda geta ekki stjórnað gagnrýni bænda á stofnunina. Þá kom fram að verið er að auka aðgengi sænskra bænda að dýralyfjum í tilraunaskyni og að skráningarkerfið Heilsa gefur möguleika á að stýra aðgengi að lyfjum þar sem hægt er að fylgjast með notkun hvers bónda á þeim.
i. Staða ESB aðlögunarviðræðna. Rakinn var gangur viðræðnanna. Innleiðingaráætlun var kynnt í Brussel í marsmánuði, en þá hafði ekki verið haldinn fundur í samningahópnum frá því í nóvember. Innleiðingaráætlunin var síðan send fulltrúum í samingahópnum í lok apríl sem er ekki beinlínis í takt við þau fyrirheit um samráð sem stjórnvöld hafa haft uppi í málinu. Bændasamtökin hafa gert mjög veigamiklar athugasemdir við drög að innleiðingaráætluninni. Verið er að vinna samingsafstöðu varðandi 12. kafla en ekkert hefur verið fundað um málið í þeim hópi. Búið er að ráða fyrrverandi yfirdýralækni Danmerkur til að vinna áhættumat varðandi innflutning lifandi dýra til Íslands. Þá er verið að vinna samningsafstöðu í byggðakaflanum og fulltrúi samtakanna tekur þátt í þeirri vinnu. Ljóst er að átökin í þessu máli öllu fara harðnandi.
5. Tryggingamál í landbúnaði. Formaður rakti forsögu málsins, sem er orðin mjög löng. Auðhumla hefur boðið fram aðstoð fjármálastjóra fyrirtækisins við að koma verkefninu áfram. Jóhanni Nikulássyni, Trausta og Baldri falið að vinna að framgangi málsins og fá tilboð frá tryggingafélögunum fyrir sumarfrí.
6. Erindi frá Dýraverndarráði vegna skjólleysis nautgripa. Lagt fram afrit af bréfi formanns Dýraverndarráðs til Matvælastofnunar dags. 24. apríl 2012 um skjólleysi útigangsgripa. Ástæða er til að vekja athygli umbjóðenda Landssambandsins á þeim málum.
7. Launamál vefstjóra. Ákveðið að kjör vefstjóra fylgi launavísitölu.
8. Faghópur um málefni nautakjöts. Ákveðið var að koma á faghópi nautakjötsframleiðenda sem starfi næsta ár og verði stjórn til ráðgjafar í átaki við að byggja upp stöðu nautakjötsframleiðslunnar. Fengnir verði fjórir til fimm nautakjötsframleiðendur í hópinn og var Jóhanni Gísla falið að vera tengiliður stjórnar í hópnum, ásamt framkvæmdastjóra. Í faghópnum verði bæði bændur sem hafi eingöngu afkomu af nautakjötsframleiðslu og bændur sem stundi hana sem hliðargrein mjólkurframleiðslu. Hópurinn komi með tillögur um þau faglegu mál sem að þessari grein nautgriparæktarinnar snúa. Þá var framkvæmdastjóra falið að ganga eftir niðurstöðu starfshóps um innflutning erfðaefnis í holdanautastofnana.
9. Stuðningur um nýliðun í mjólkurframleiðslu. Starfshópur skilaði inn tillögu að verklagsreglum um málið til ráðherra málaflokksins í byrjun febrúar. Ráðuneytið kom með nokkrar athugasemdir, sem hafa verið teknar til skoðunar og eiga því umræddar verklagsreglur að vera tilbúnar. Þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að afgreiða viðbót við greiðslumarksreglugerðina, þar sem skipting óframleiðslutengda stuðningsins er skilgreind.
10. Önnur mál.
a. Ályktun frá aðalfundi Mjólkursamlags KS um kvótamarkað. Lögð fram til kynningar.
b. Erindi frá Endurmenntun Landbúnaðarháskólans. Áhyggjur eru af dræmri þátttöku kúabænda í endurmenntunarnámskeiðum. Hvað er til ráða í þeim efnum? Hvaða áhrif hefur fyrirhuguð veffræðsla á þessi efni? Hvar liggur áhugasvið umbjóðendanna? Hugur LK er að vinna að framgangi þessa málaflokks í fullu samráði við Endurmenntun Landbúnaðarháskólans.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.14.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda