Beint í efni

Stjórnarfundir – 1. 2012-2013

18.04.2012

Fyrsti stjórnarfundur Landssambands kúabænda starfsárið 2012-2013 haldinn á Bitruhálsi 1 miðvikudaginn 18. apríl 2012. Mætt eru Sigurður Loftsson, formaður, Guðný Helga Björnsdóttir, Jóhann Gísli Jóhannsson, Jóhann Nikulásson og Trausti Þórisson. Einnig er mætt Jóhanna Hreinsdóttir, fyrsti varamaður í stjórn. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

 

Fundur settur kl. 11.08.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna, sérstaklega nýjan stjórnarmann Trausta Þórisson og gekk því næst til dagskrár.

 

1. Verklag stjórnar og fyrirkomulag fundargerða. Formaður fór yfir verklag stjórnar Landssambands kúabænda, tölvupóst, símamál, frágang fundargerða og fleira.

 

2. Kosningar og tilnefningar. Kosning varaformanns: Guðný Helga Björnsdóttir er kjörin varaformaður með fjórum atkvæðum, einn seðill auður. Kosning ritara: Jóhann Gísli Jóhannsson kjörinn ritari með fjórum atkvæðum, Jóhann Nikulásson fær eitt atkvæði.

Samninganefnd vegna búvörusamninga: Tilnefnd eru sem aðalmenn Sigurður Loftsson og Guðný Helga Björnsdóttir.

Verðlagsnefnd búvara: Samþykkt að tilnefna fulltrúa í nefndina sameiginlega með Bændasamtökum Íslands, formanni falið að vinna að málinu í samvinnu við stjórn.

Samstarfsnefnd SAM og BÍ: Helsta verkefni nefndarinnar er að staðfesta mjólkuruppgjör hvers árs. Tilnefndur sem aðalmaður Jóhann Nikulásson og Jóhann Gísli Jóhannsson sem varamaður. Tilnefning samþykkt.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga: Sigurður Loftsson tilnefndur sem fulltrúi LK og var það samþykkt.

Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins: Baldur Helgi Benjamínsson er tilnefndur og tilnefningin samþykkt.

 

3. Aðalfundur, aðdragandi og framkvæmd. Að mati stjórnar gekk framkvæmd fundarins vel. Stjórn er þeirrar skoðunar að nægjanlegt sé að vera með beina útsendingu fyrri fundardaginn. Það gaf mjög góða raun að tilnefna ritara nefnda fyrirfram. Áhugaleysi Bændablaðsins á fundinum er mjög ámælisvert að mati stjórnar.

 

4. Næsti aðalfundur. Verður haldinn 22. og 23. mars 2013. Baldri og Jóhanni Gísla falið að leita tilboða vegna næsta aðalfundar og árshátíðar og kanna möguleika á Austurlandi eða í Reykjavík. Endanleg ákvörðun verði tekin á næsta fundi stjórnar í byrjun maí. 

 

5. Útflutningsmál mjólkurafurða. Gestur undir þessum lið er Einar Sigurðsson forstjóri Mjólkursamsölunnar.

 

Einar var beðinn um að fara yfir stöðu á mörkuðum og stefnu MS í útflutningsmálum og hvernig merki á borð við Sustainable Iceland nýttist í þessu verki?

 

Einar rakti gang útflutningsmálanna almennt. Markmiðið er að afsetja alla umframframleiðsluna, sem samkvæmt lögum skal flutt á erlenda markaði, og auka hlutdeild framlegðarhærri vara eins og skyrs á þeim markaði. 85% af umframmjólkinni fer í smjör og undanrennuduft. Heimsmarkaðsverð þessara vara hefur verið mjög sveiflukennt frá 2007 eftir langt stöðugleikatímabil. Verðið hækkaði hratt í fyrra en hefur lækkað aftur jafn hratt síðan og jafnvel vangaveltur um að ESB kunni að grípa inn í markaðinn eins og árið 2009.

 

Langtímaspár eru að verð á smjöri og dufti verði að meðaltali hærra að meðaltali á þessum áratug en þeim síðasta. Einkum á þetta við smjörverð.  Hinsvegar megi búast við áframhaldandi sveiflum í verðinu.

 

MS stefnir að auknum skyrútflutningi og ef mjólkurframleiðslan árið 2012 verður eins og nú horfir væri hægt er að áttfalda skyrframleiðsluna án þess að auka mjólkurframleiðslu frekar. Á ársgrundvelli fara nú um 1,1 milljón lítrar mjólkur í skyrframleiðslu til útflutnings. Útlit er fyrir að skyrkvótinn til ESB klárist í september n.k. Sótt hefur verið um 5.000 tonna kvóta til viðbótar, en þeirri vinnu miðar afar hægt.  Félagið hefur gert tilraunir með útflutning á kryddsmjöri til Finnlands og mun gera tilraun með sölu á kryddsmjöri til Bandaríkjanna.

 

Kavli í Noregi,  sem hefur sérleyfissamning við MS um skyrsölu í Noregi og Svíþjóð, hefur sett mikla fjármuni í markaðssetningu og salan gengur eftir áætlun. Thise í Danmörku framleiðir einnig skyr með leyfi MS.  Tveir aðrir framleiðendur eru í Danmörku sem framleiða uppá eigin spýtur, annar er dótturfélag Arla Foods sem hafði hafið skyrframleiðslu þegar Arla tók vinnslustöðina yfir. Sala á skyri í Whole Foods í Bandaríkjunum hefur verið stöðug í fimm ár, 120-140 tonn á ári. Samið var við nýjan aðila til dreifingar á New York svæðinu fyrir stuttu, en of snemmt er að spá um árangur.  Útflutningur til Bandaríkjanna byggir á dýrum flugflutningum vegna þess að tíðni skipaferða og ferðatími vestur útiloka að nota skipaflutninga.  Sala á skyri og öðrum mjólkurvörum héðan í Whole Foods Markets í Bandaríkjunum hefur hjálpað til við markaðssetningu á skyri í Evrópu og gefur vörunni gæðastimpil.

 

MS er nú að meta með hvaða hætti og með hvaða markaðsáherslum næstu skref verða tekin í skyrsölu. Væntanlega verður enn meiri áhersla lögð á tengingar við Ísland, íslenskan uppruna og íslenska náttúru. Félagið hefur undanfarið nýtt sér átakið Inspired by Iceland. Það byggir á mörg hundruð milljóna króna fjárfestingu í markaðsstarfi og ímyndarsköpun undir þessu merki.  Gagnvart Whole Foods hefur íslensk náttúrutenging tvímælalaust skipt máli og áhersla á ýmsar endurnýjanlegar auðlindir landsins.  Gagnvart öðrum hlutum markaðarins hefur félagið fyrst og fremst nýtt náttúrutengingu og ferskleikaímynd Íslands.   MS telur að ef íslenskir útflytjendur vöru og þjónustu ætli sér að sameinast í markaðsstarfi erlendis sé mikilvægt að það sé gert undir einu merki og kraftarnir sameinaðir eins og kostur er.

 

6. Afgreiðsla styrkumsóknar Sustainable Iceland. Talsverðar umræður um málið. Stjórn LK samþykkir svofellda bókun vegna umsóknarinnar:

 

Stjórn Landssambands kúabænda barst þann 24. febrúar s.l. umsókn frá Sustainable Iceland um fjárstuðning við verkefni tengd kynningu á íslenskum landbúnaðarvörum í Bandaríkjunum árin 2012 og 2013 að upphæð 2 milljónir króna hvort ár. Samkvæmt samningi Landssambands kúabænda við Íslandsstofu, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Landssamtök sauðfjárbænda, um „Markaðsátak í Bandaríkjunum árið 2011 og Fagráð matvæla“, greiddi LK 2 milljónir króna til þessa verkefnis á síðastliðnu ári. Það var mat stjórnar LK á þessum tíma að þau verkefni sem Áform hafði staðið fyrir í þessu efni væru í óvissu fjárhagslega og mikilvægt væri að tryggja framgang þeirra með fjárframlagi þessu. Hinsvegar taldi stjórnin nauðsynlegt að koma fjármögnun þessara verkefna í nýjan farveg til framtíðar litið og eðlilegast væri að kostnaðarþátttaka greinarinnar í þessu efni félli með öðrum markaðskostnaði Mjólkursamsölunnar. Stuðningur LK við þessi verkefni á árinu 2011 fól því ekki í sér vilyrði um frekari framlög vegna þessa. Í umræddum samningi segir m.a. um næstu skref í þessu efni: „Íslandsstofa mun stofna fagráð matvæla sem fyrst eftir undirritun samnings með samningsaðilum og fleiri hagsmunaaðilum í útflutningi matvæla. Þar verði unnið að því að greina frekar þörf og áherslur í markaðssetningu á íslenskum matvælum erlendis með samstarfsverkefni í huga sem gætu hafist seint á árinu 2011. Unnið verði samkvæmt stefnu Íslandsstofu í erlendu markaðsstarfi.“ Það var skilningur LK, á þessum tíma, að með þessum hætti yrði komið á skilvirkri aðkomu Mjólkursamsölunnar að þessu starfi og þær áherslur sem lagt væri upp með í markaðssetningu mjólkurafurða erlendis þannig komið að fullu á ábyrgð hennar. Þannig væri best tryggð skilvirk nýting þeirra fjármuna sem greinin leggur til markaðsstarfs almennt, hvort sem er innan- eða utanlands.

 

Ástæða er til að benda á í þessu samhengi að Mjólkursamsalan er í eigu kúabænda sjálfra, þeirra sömu og mynda félagsaðild Landssambands kúabænda þótt með öðrum hætti sé. Þá sér Mjólkursamsalan jafnframt um alla markaðsfærslu íslenskra mjólkurvara á erlendri grundu og því eðlilegt að ákvarðanir um ráðstöfun markaðsfjár í því efni séu teknar af stjórn hennar.

 

Það er því niðurstaða stjórnar Landssambands kúabænda að hafna umræddri styrkbeiðni, þar sem eðlilegra er að fjármunir til slíkra verkefna komi frá þeim aðilum sem standa að sölu og markaðsmálum mjólkurafurða almennt. Umsækjanda er því bent á að hafa samband við stjórnendur Mjólkursamsölunnar um þátttöku í þessu verkefni.

 

7. Úrvinnsla ályktana aðalfundar 2012.

 

a. Ályktun um eflingu ræktunarstarfs í íslenska kúastofninum. Tillagan hefur verið kynnt fyrir fagráði nautgriparæktar og verður rædd við Bændasamtök Íslands. Hvað varðar frekari eftirfylgni stjórnar, verði málið á ábyrgð fulltrúa LK í fagráði og formanns fagráðs. Koma þarf strax af stað vinnu við gerð pörunarforrits í Huppu og leggja upp leiðir til að auka virkni og áhuga á ræktunarstarfinu meðal bænda. Skoða þarf tilfærslur stuðningsgreiðslna samhliða umræðum við stjórnvöld um þróun mjólkursamnings. Mikilvægt er að sem fyrst verði skoðaðar forsendur “innskots” nýs erfðaefnis í kúastofninn og áhrif þess. Gera þarf áætlun um framkvæmd málsins sem fyrst.

b. Ályktun um erfðaefni í nautakjötsframleiðslunni. Tillagan verði kynnt og fylgt eftir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, starfshóp ráðuneytisins um endurnýjun erfðaefnis, fagráð nautgriparæktar og Bændasamtök Íslands.

c. Ályktun um Landbúnaðarháskóla Íslands. Hefur verið kynnt í fagráði og verður  kynnt Landbúnaðarháskóla Íslands, menntamálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands. Galli þessarar tillögu er sá að hún tekur ekki  nógu ákveðið á rannsóknaþættinum sem raunverulega er í mun verra ástandi. Sú staða hefur hinsvegar verið talsvert til umræðu innan fagráðs. LK og fagráð taki málið upp og fái fund með rektor LBHÍ og fulltrúa menntamálaráðuneytis.

d. Ályktun um málefni nautakjötsframleiðslunnar. Tillagan verði kynnt og fylgt eftir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fagráð nautgriparæktar, Landbúnaðarháskólann, Matvælastofnun og Bændasamtök Íslands. Rætt hefur verið um að koma upp faghópi nautakjötsframleiðenda til að styðja við starf stjórnar. Framkvæmdastjóra falið að koma þeim hópi á laggirnar fyrir næsta fund stjórnar. Aðildarfélögin verði virkjuð í að auka þátttöku nautakjötsframleiðenda í starfi félaganna.

e. Ályktun um kúasæðingar. Tillagan hefur verið kynnt í fagráði nautgriparæktar. Tekur undir tillögu sem var samþykkt um málið á búnaðarþingi. Reiknað er með að stjórn BÍ hafi frumkvæði í málinu.

f. Ályktun um tilraunaniðurstöður. Hefur verið kynnt í fagráði og verður send á Landbúnaðarháskólann. Málinu verði fylgt eftir á fundi með rektor skólans.

g. Ályktun um eftirlitsmál. Tillagan verði send Matvælastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Óskað verði eftir fundi með forsvarsmönnum MAST og málinu fylgt eftir. Ítarlegar umræður um málið. Mikilvægt að fara yfir eftirlitsreglur sem gilda með mjólkurframleiðslunni í nágrannalöndunum.

h. Ályktun um úttekt á MAST. Tillagan verði send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matvælastofnun. Tillagan tekur undir ályktun stjórnar LK frá því fyrr í vetur. Þeirri tillögu hefur þegar verið fylgt eftir á fundi með ráðherra.

i.  Ályktun um dýralæknaþjónustu. Tillagan verði send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Matvælastofnun og Bændasamtökum Íslands. Málinu verði fylgt eftir af þunga á fundum með þessum aðilum.

j. Ályktun um hreina náttúru. Verður send til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

k. Ályktun um innflutning á hráu kjöti. Ályktun þessari er beint til stjórnar.

l. Ályktun um veffræðslu. Málinu verði hrint í framkvæmd sem fyrst, gert er ráð fyrir málinu í fjárhagsáætlun 2012. Leitað verði Snorra Sigurðssonar til að halda utan um verkefnið.  

m. Ályktun um varasjóð LK. Framkvæmdastjóri heldur utan um málið og mun hrinda því í framkvæmd sem fyrst.

n. Ályktun um hönnun vörumerkis. Málið verði rætt við Bændasamtök Íslands til að byrja með.

o. Ályktun um breytingu búvörulaga. Verði send til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

p. Ályktun um búvörusamninga. Málið verði sent til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mikilvægt að standa vörð um núverandi samning.

q. Ráðgjafaþjónustan. Búið er að ráða verkefnisstjóra og setja á stofn verkefnisstjórn. Tillagan verði send til Bændasamtaka Íslands og fylgt eftir á fundi með forsvarsmönnum þeirra.

r. Betri bústjórn. Hefur verið kynnt í fagráði í nautgriparækt og verður rætt við BÍ. Hvetja þarf bændur til að skila inn gögnum.

s. Söfnun hagtalna. Tillagan verði send sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtökum Íslands, Hagstofu Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Málinu verði síðan fylgt eftir á fundum með ráðherra og BÍ.

t. Hagsmunagæsla. Tillögunni er beint til stjórnar.

u. Álögur á eldsneyti. Tillagan verði send til fjármálaráðherra.

v. Kvótamarkaður. Tillagan verður send til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Rætt um hvort kanna eigi möguleika á að Auðhumla svf. komi að ábyrgðum vegna kaupa á greiðslumarki, en sú hugmynd var rædd á aðalfundi félagsins á dögunum.

x. Innheimta búnaðargjalds. Tillagan verði send til SLR og BÍ. Verði fylgt eftir á fundum með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Bændasamtökum Íslands.

y. Lánamál bænda. Tillagan verði send lánastofnunum, efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtökum Íslands og fjármálaráðherra. Stjórn LK hitti forsvarsmenn Arionbanka og Landsbankans vegna þessa og annarra mála á næstunni.

z. Uppbygging og fjármögnun félagskerfis bænda. Tillagan áréttar fyrri skoðun Landssambands kúabænda í þessu efni. Verði kynnt fyrir BÍ.

þ. Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tillagan verði send forsætisráðherra, utanríkisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, utanríkismálanefnd og atvinnumálanefnd Alþingis og Bændasamtökunum.

æ. Lánveitingar lífeyrissjóðs bænda til jarðakaupa. Hefur þegar verið sent til stjórnar lífeyrissjóðsins, sem hefur tekið erindið fyrir á fundi. Ætlunin er að fylgja málinu eftir á fundi með stjórn sjóðsins þann 23. maí n.k.

 

8. Starfsáætlun stjórnar LK til hausts. Lögð fram fundaáætlun stjórnar til hausts 2012. Næstu fundir eru áætlaðir 9. maí n.k., 8. júní og 13. ágúst.

 

9. Önnur mál.

 

a. Leiðaraskrif. Trausti Þórisson hyggst rita næsta leiðara. Framkvæmdastjóri sendi drög að leiðaraplani til stjórnar.

 

b. Fréttaflutningur 3. apríl sl.  Stjórn Landssambands kúabænda er mjög ósátt við framsetningu fréttar Stöðvar 2 af aukinni tæknivæðingu fjósa frá 3. apríl sl. Þar kom fram í viðtali við dr. Ólaf R. Dýrmundsson að aukin tæknivæðing í fjósum kunni að leiða til verri aðbúnaðar gripa en í öðrum fjósum. Stjórnin er algjörlega ósammála því og átelur fréttaflutninginn og yfirlýsingu Ólafs.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00

 

Baldur Helgi Benjamínsson

Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda